Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari, hefur verið ákærður af lögreglustjóranum í Reykjavík fyrir að skrifa greinar á moggablogginu um transmálefni barna í leik- og grunnskólum landsins. Páli er gefið það að sök að hafa brotið 233. gr. a. hegningarlaga, með umfjöllun sinni um transmálefni barna og Samtökin ´78.
Páll skrifaði t.d. um starfsmann samtakanna, sem varð að láta af störfum vegna meintra kynferðisbrota gegn börnum, lögregla er nú með það mál í rannsókn. Fréttin fjallaði um málið á sínum tíma og má lesa um hér.
Páli var kunngjört af lögreglunni að ef hann mætti ekki í fyrirkall á tilsettum tíma í héraðsdómi Reykjavíkur, yrði hann handtekinn og færður í járnum fyrir dóm.
Páll skrifar um málið í dag, og má lesa pistilinn í heild sinni sinni hér:
Vingjarnlegur lögreglumaður bankaði upp á hjá tilfallandi á miðvikudag. Erindið var að afhenda ákæru frá lögreglustjóranum í Reykjavík. Tilfallandi var kunngjört að ef hann mætti ekki í fyrirkall á tilsettum tíma í héraðsdómi Reykjavík yrði hann handtekinn og færður í járnum fyrir dóm.
Tilfallandi hélt í fyrstu að um grín væri að ræða. Næsta gisk var að blaðamennirnir í byrlunar- og símamálinu ættu hlut að máli, væru komnir með höfuðborgarlögregluna í verktakaþjónustu. Svo reyndist ekki vera. Lögreglumaðurinn vinalegi var hvorki með uppákomu í tilefni hrekkjavöku né sakborninga úr röðum blaðamanna. Hann afhenti ákæruskjalið og kvittanablað um hvenær þingfesting yrði í héraðsdómi. Rifjaðist upp fyrir tilfallandi að hafa verið kallaður síðsumars í skýrslutöku hjá lögreglu vegna ársgamallar kæru formanns lífsskoðunarfélags. Er ekkert heyrðist um framhald gerði tilfallandi ráð fyrir að kæran hefði farið í ruslið. Svo var ekki.
Og hver var þá ákæran?
Jú, tilfallandi, að mati lögreglustjórans í Reykjavík, braut gegn 233. gr. a. hegningarlaga. Lagagreinin er svohljóðandi:
Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Þetta er sama orðalag og var á lagagrein er bannaði guðlast. Sértrúarhópar vilja skjól í lögum eins og kristni forðum.
Kemur þá að meintum brotum tilfallandi á 233. gr. a. hegningarlaga. Haustið 2023 var umræða í samfélaginu um aðgengi Samtakanna 78 að leik- og grunnskólum með áróður um kynjamál. Upplýst var að texti og myndefni frá samtökunum sem haft var til kennslu samrýmdist ekki siðferðisvitund þorra almennings. Börnum var kennt um kynlíf á þann hátt að mörgum ofbauð. Tilfallandi var á þeirri skoðun að Samtökin 78 ættu ekkert erindi í leik- og grunnskóla með sérvisku sína um kyn og kynlíf. Lífsskoðunarfélagið sem kennir sig við 78 heldur fram bábiljum um að hægt sé að fæðast í röngu kyni og mælir með limlestingu kynfæra séu þau af rangri sort.
Áður en umræðan um kennsluefnið vafasama hófst haustið 2023 hafði tilfallandi vakið athygli á að transhugmyndafræðin væri ekki barnaglingur. Í janúar 2023 skrifaði hann um veggspjaldi er dreift var leikskóla með þeim boðskap Samtakanna 78 að eðlilegt sé að óskyldur fullorðinn ræði við smábörn um ástarhug. Þar sagði m.a.:
Með leyfi, hvernig dettur nokkrum í hug að rómantískar kenndir skuli vera á dagskrá í leikskóla? Hvers vegna er ,,ást og skot" til umræðu fyrir börn 2-6 ára? Börn á þessum aldri hafa engar forsendur til að skilja rómantískar tilfinningar. Aðeins fólk með verulega brenglaða hugsun lætur sér til hugar koma að færa í tal við smábarn, sér óskylt, að verða ,,skotinn" í einhverjum.
Haustið 2023 fór umræðan um starf Samtakanna 78 á flug. Vegna umræðunnar var forsætisráðuneytið knúið til að birta yfirlýsingu. Gerist ekki á hverjum degi. Aðdragandi umræðunnar var nokkur. Í nóvember 2022 hætti starfsmaður Samtakanna 78 eftir ásakanir um kynferðisbrot gegn börnum. Sumarið 2023 var aftur frétt um karl í konulíki sem á vegum Samtakanna 78 stundaði fræðslu í einn stað en í annan stað áleitni gagnvart börnum. Í báðum tilvikum er Álfur Birkir Bjarnason formaður Samtakanna 78 til svara.
Álfur Birkir taldi haustið 2023 að nóg væri komið af neikvæðri umræðu um Samtökin 78 og starf þeirra í leik- og grunnskólum. Nú skyldi hefja gagnsókn og kæra þá fyrir hatursorðræðu sem andmæltu starfi lífsskoðunarfélagsins meðal smábarna og grunnskólakrakka. Álfur Birkir kærði í október 2023 tilfallandi til lögreglu. Í eitt ár hafði lögreglan málið til skoðunar og lætur nú til skarar skríða. Hvað fann lögreglan í bloggskrifum sem hægt væri að ákæra fyrir? Jú, blogg frá 13. september 2023. Tvær efnisgreinar eru teknar úr blogginu sem tilfallandi skal sæta fangelsi fyrir í allt að tvö ár. Efnisgreinarnar eru eftirfarandi:
- Samtökin 78 eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna.
- Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi - BDSM. Börn eru gerð efins um eigin sjálfsmynd og talin trú um að þau séu mögulega fædd í röngu kyni. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin.
Þetta kallar Álfur Birkir formaður Samtakanna 78 hatursorðræðu og lögreglan í Reykjavík étur það upp eftir honum. Ekkert er talað um hatur í hegningarlagagreininni, 233 gr. a., sem tilfallandi á að hafa brotið gegn. Hatursorðræða er orð upp úr handbókum aktívista sem kenna skoðanaandstæðinga um haturshug. Í meðförum aktívista og siðferðisdeildar höfuðborgarlögreglunnar verður heilbrigð skynsemi að hatri. Í lagagreininni sjálfri segir: ,,Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna..."
Læsir á íslensku sjá að engin hótun er höfð í frammi, hæðni kemur ekki fyrir í kærðum texta, enginn rógur, þar sem í blogginu eru tilvísanir í efnið sem er til umræðu. Þá er eftir smánun sem er gamalt hugtak um að óvirða eitthvað. Ef lögreglan tæki upp á því að ákæra fyrir opinber ummæli er sýna viðfangsefninu ekki háttvísi myndu dómstólar gera fátt annað en að dæma menn fyrir virðingarleysi.
Með ákærunni hlutast lögreglan til um opinbera umræðu frjálsra borgara um samfélagsleg málefni. Lögreglan tekur að sér í verktöku fyrir Samtökin 78 að þagga niður í þeim sem andmæla lífsskoðunarfélaginu og sértrúarboðskap þeirra í leik- og grunnskólum.
Tilfallandi er orðinn hagvanur í dómssal. Blaðamenn í byrlunar- og símamálinu hafa stefnt honum fyrir dóm og nú lögreglan í Reykjavík. Málaferlum fylgir óhagræði og fjárútlát. Lesendur sem láta sér annt um frjálsa umræðu og gjalda varhug við ritskoðun, hvort heldur sakborninga eða lögreglu, geta sýnt stuðning með framlagi. Sjá reikning hér neðar:
Svo má auðvitað velta fyrir sér að láta fjölmiðla eina um að halda úti reglulegum fréttum og skoðanapistlum. En tilfellið er að þeim veitir ekki af aðhaldi.
Bankareikningur
0111-15-630300
kt. 1510602859
Tilfallandi þakkar stuðninginn