Trump, trans og Ísland

frettinErlent, Innlent, Páll Vilhjálmsson, Stjórnmál, TransmálLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigur Trump í forsetakosningunum var ekki sértækur heldur altækur. Hann fékk ekki aðeins afgerandi meirihluta kjörmanna heldur hreinan meirihluta atkvæða bandarísku þjóðarinnar. Trump var sakaður um að vera rasisti en fékk stuðning minnihlutahópa sem þekkja á eigin skinni kynþáttafordóma, s.s. blökkumenn og innflytjendur frá Rómönsku-Ameríku.

Forsetakosningarnar vestra snerust að hluta um hefðbundna pólitík eins og stöðu efnahagsmála. Annað deiluefni var opin landamæri. Þriðja stórmálið var vitundarpólitík eða vók. Í nafni mannréttinda er krafist að sjálfsvitund einstaklinga sé tekin umfram hversdagsleg sannindi. Karl sem segist kona fær aðgang að kvennarýmum, t.d. búningsklefum kvenna, kvennasalernum og kvennaíþróttum. Eina sem karlinn þarf að segja er að honum liði eins og konu, sjálfsvitundin trompar handfastan og áþreifanlegan veruleika.

Hugsanafrelsi eru mannréttindi og náskyld tjáningarfrelsinu. Vitundarpólitík vinstrimanna tekur þessi sjálfsögðu mannréttindi og gerir úr þeim lögbundna skyldu að einn skal trúa ranghugmynd annars. Út á það gengur vitundarvókið. Mannréttindi eru ekki að bábilja eins skuli sannfæring annars. Réttur eins til að skilgreina sjálfan sig nær aðeins til sjálfsins, ekki til annarra sem kunna að greina á milli ímyndunar og veruleika. Sigur Trump liggur ekki síst í andstöðu hans við vók.

Enginn karl getur orðið kona. Karlar eru með XY-litninga en konur XX-litninga. Karlar geta þóst vera konur og öfugt, kona sagt sig karl. En að þykjast og vera er tvennt ólíkt. Sjálfsblekking og reynd er sitthvað. Vitundarpólitík vinstrimanna sópaði þessum sannindum til hliðar, sagði þau ómarktæk andspænis rétti hvers og eins til að skilgreina sjálfan sig. Skilgreiningarrétturinn fær meira vægi en heilbrigð dómgreind.

Ef veruleikinn er gerður ómarktækur opnast hlið fáránleikans upp á gátt. Fertugur maður getur sagst þriggja ára stúlkubarn, skráð sig í leikskóla og krafist viðeigandi þjónustu. Fimmtugur maður gæti sagt að sér liði eins og sjötugum og krafist greiðslu úr lífeyrissjóðum og almannatryggingum til samræmis við upplifun sína. Áfram mætti tefla fram dæmum um afleiðingarnar ef hversdagslegum sannindum, um kyn og aldur, er varpað fyrir róða. Í stuttu máli verður samfélagið óstarfhæft.

Vitundarpólitík vinstrimanna er menningarsjúkdómur samfélags allsnægtanna í einn stað. Í annan stað er stökkbreyting í miðlun upplýsinga ástæða brenglunarinnar. Velferð á færibandi skapar svigrúm fyrir ranghugmyndir. Sannanlega rangar hugmyndir fá sjálfstætt líf í heimi samfélagsmiðla í krafti margfeldisáhrifa sem gera engan greinarmun á sannindum og ósannindum. Lífsbarátta, mæld í brauðstriti, setur takmörk á fáránleikann sem hægt er að bjóða fólki upp á. Engin tilviljun er að vitundarpólitík vinstrimanna, sem ættuð er að stórum hluta frá háskólaborgunum í Bandaríkjunum, á síður upp á pallborðið í Austur-Evrópu en vesturhluta álfunnar. Í Austur-Evrópu muna menn enn efnahagslega örbirgð og pólitískan rétttrúnað sósíalismans. Vestrænar vitundarfirrur fá ekki framgang meðal þjóða sem kunnugar eru brauðstriti og gjalda varhug veraldlegu trúboði eftir slæma reynslu.

Trump er með tilbúna áætlun gegn kynbreytingu á börnum sem heggur að rótum vitundarpólitík vinstrimanna síðustu tveggja áratuga. Verði áætluninni hrint í framkvæmd er börnun forðað frá því að vera leiksoppar fullorðinna með ranghugmyndir. Hægrimenní Bandaríkjunum eru ekki einir um að afþakka transmenninguna. Nýr leiðtogi Íhaldsflokksins í Bretlandi er sömu skoðunar, eins og sagði í nýlegu bloggi:

Barn getur ekki verið trans, sagði Badenoch í kappræðum vegna leiðtogakjörs Íhaldsflokksins, samkvæmt Telegraph. Hún var áður jafnréttisráðherra og vann að endurskoðun löggjafar til að tryggja rétt kvenna til kynaðgreindra rýma. Í ráðherrastarfi sagðist Badenoch hafa séð sterkar sannanir fyrir því að ungmennum sem eru samkynhneigð eða glíma við geðraskanir sé talin trú um að þau séu trans.

Skýtur skökku við að íslenskir stjórnmálamenn, sem gorta sig af að vera í hinum eina sanna hægriflokki, skuli gera sér far um að misþyrma móðurmálinu með transtungutaki.

Trump-áhrifin á íslensk stjórnmál verða að litlu leyti efnahagslegs eðlis. Menningaráhrifin verða þeim mun meiri. Veitir ekki af. Hér á landi er lífskoðunarfélögum eins og Samtökunum 78 hleypt inn í leik- og grunnskóla til að kenna þá firru að sumir fæðist i röngum líkama. Vitundarpólitík vinstrimanna hér á landi er komin á það stig að þeir sem andmæla skaðlegri starfsemi Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum fá á sig opinbera ákæru. Mál er að linni og heilbrigð skynsemi verði tekin fram yfir bábiljur sem valda skaða á líkama og sál.  

Skildu eftir skilaboð