Nigel Farage kemur til baka í stjórnmálin. Hann tekur við forystu Umbótaflokksins og fer í framboð til breska þingsins í kosningunum 4. júlí. Endurkoma Nigel Farage i stjórnmálin hristir upp í valdhöfum Bretlands.
Forsætisráðherra Bretlands, Rishi Sunak, flýtti þingkosningum fram til 4. júlí og sögur ganga um að hann vilji ekki vera forsætisráðherra, þegar þriðja heimsstyrjöldin brýst út. Aðrar sögur segja að stjórnarkreppa ríki innan bresku ríkisstjórnarinnar og rætt sé um hallarbyltingu innan Íhaldsflokksins, sem tapar fylgi á hverjum degi sem Verkamannaflokkurinn er ekki seinn að taka yfir. Sumir spá miklum sigri Verkamannaflokksins í kosningunum.
Mun koma öllum á óvart
Daily Mail greinir frá því, að eftir að boðað var til bráðakosninga hafi Farage talað við fólk á götum úti og tekið eftir því að „stjórnmálastéttinni er hafnað í þessu landi á þann hátt sem ekki hefur áður sést á okkar tímum.“ Farage sagði:
„Mér fannst áður að þetta hlyti að vera of erfitt. Ég hef skipt um skoðun vegna þess að ég get ekki svikið milljónir manna. Ekkert í þessu landi virkar… við munum aðeins endurheimta stöðu okkar með djörfung. Ég hef gert það áður, ég mun gera það aftur: Ég mun koma öllum á óvart.“
„Í landi okkar hefur fæðst sértrúarstefna í kjölfar gríðarlega óábyrgrar innflytjendastefnu. Verkamannaflokkurinn opnaði dyrnar og hver hefði trúað því, að Íhaldsflokkur hefði flýtt fyrir þessu.“
Íhaldsflokkurinn á barmi algjörs hruns
Farage telur að Umbótaflokkurinn geti fengið fleiri atkvæði í þessum kosningum en Íhaldsflokkurinn, sem „sé á barmi algjörs hruns.“ Hann telur einnig að flokkur hans muni draga atkvæði bæði frá Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum. Skoðanakönnun Sunday Times fyrir nokkru sýndi að allt að helmingur kjósenda Íhaldsflokksins gætu hugsað sér að kjósa Farage ef hann færi í framboð.
Farage segist vilja leiða „pólitíska uppreisn.“ Hann segir:
„Já, uppreisn. Að snúa baki við óbreyttu pólitísku ástandi. Það virkar ekki. Ekkert í þessu landi virkar lengur.“
Farage heldur áfram:
„Þegar fólk byrjar að átta sig á rauða veggnum, með Umbótaflokknum næst á eftir Verkamannaflokknum, þegar það byrjar að gera sér grein fyrir því að í þessum sætum er atkvæði til Íhaldsflokksins það sama og atkvæði til Verkamannaflokksins, atkvæði til Íhaldsflokksins er ónýta atkvæðið, þá held ég að við gætum bara komið öllum á óvart.“