Héraðsþing Repúblikana í Lee-sýslu, samþykkti nýlega ályktun sem borin var fram af Joseph Sansone, þar sem lýst er yfir að Sameinuðu þjóðirnar SÞ, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO og Alþjóðaefnahagsráðið WEF, séu hryðjuverkasamtök.
Í ályktuninni er samstarfi við þessar stofnanir talið vera landráð gegn Bandaríkjunum og Flórídaríki. Framkvæmdastjórn Repúblikanaflokksins tók ályktunina ekki til meðferðar í framkvæmdanefndinni sem annars var búist við að hefði einnig samþykkt ályktunina.
Samstarf við WHO, SÞ og WEF skilgreint sem landráð
Í ályktuninni sem héraðsþing Repúblikana í Lee County samþykkti, er skorað á löggjafarþing Flórída og ríkisstjóra að samþykkja lög sem banna samstarf við Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Alþjóðaefnahagsráðið og að slík samvinna verði túlkuð sem landráð gegn Bandaríkjunum og Flórída ríki.
Texti ályktunarinnar fer hér á eftir í lauslegri þýðingu:
„Þar sem Sameinuðu þjóðirnar SÞ, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO og Alþjóðaefnahagsráðið WEF eru hryðjuverkasamtök sem leitast við að fækka mannkyni og véla til sín fullveldi Bandaríkjanna og Flórída ríkis; og WHO, WEF og SÞ taka virkan þátt í alþjóðlegu valdaráni; og reynt er í þessu valdaráni að nýta alríkisstjórnina og ríkisstjórnir til að framfylgja stefnu SÞ, WHO og WEF; og þar sem lögmætir alþjóðasamningar hafa enga lögsögu yfir innlendum málefnum;
Þá skorar Héraðsþing repúblikana í Lee-sýslu á DeSantis ríkisstjóra og löggjafarþing Flórída að samþykkja lög sem skilgreina samvinnu við SÞ, WHO og WEF sem landráð gegn Bandaríkjunum og Flórída ríki.
Við köllum einnig eftir löggjöf sem kveður sérstaklega á um:
– Að engum reglum, reglugerðum, gjöldum, sköttum, málefnum eða umboði af neinu tagi af hálfu WHO, SÞ og WEF skal framfylgt eða komið á í Flórída-ríki eða neinni stofnun, deild, stjórn, nefnd, stjórnmáladeild, ríkisstofnun, sókn, sveitarfélagi eða öðrum pólitískum aðila.“