Mótmæli bænda lömuðu Brussel enn og aftur

Gústaf SkúlasonErlent, LandbúnaðurLeave a Comment

Á undanförnum mánuðum hafa evrópskir bændur látið heyra í sér á sögulegum mælikvarða. Tímabil mótmæla hefur skapað þrýsting á ríkisstjórnir ESB ríkja og Evrópusambandsins að víkja frá þeirri fásinnu, að húsdýr alin til matar, séu höfundar heimsendis. Græna mannvonskustefnan vill útrýma landbúnaðinum og skapa atvinnuleysi og hungursneyð.

Bændur veittu aftur skýra áminningu til valdhafa með mótmælum í Brussel fyrr í vikunni í aðdraganda ESB-þingkosninganna, að ESB verður að taka tillit til þeirrar greinar sem sér um að framleiða matinn sem þeir borða.

Spænskir ​​og franskir ​​bændur lokuðu vegum á sameiginlegum landamærum sínum við Pýreneafjöllin. Mótmæltu þeir lamandi „grænu eitri“ Evrópusambandsins og ósanngjarnri samkeppni frá löndum utan ESB.

Reuters greinir frá því, að franskir ​​og spænskir ​​bændur hafi notað tugi dráttarvéla til að loka landamærunum á AP-8 hraðbrautinni í Baskalandi og AP-7 hraðbrautinni í Katalóníu í aðdraganda ESB-þingkosninganna 6.-9. júní. Spænski bóndinn Josep Juscafrase, 54, segir í viðtali við Reuters:

„Þar sem ESB-kosningarnar eru að nálgast, þá skulum við skoða hvort stjórnmálamenn okkar taki landbúnaðinn alvarlega og hlusta á kröfur okkar.“

Á landamærum Katalóníu og Frakklands léku bændur fótbolta eftir að hafa lokað hraðbrautinni og mynduðust langar biðraðir af bílum og flutningabílum.

Uppreisn bænda um alla Evrópu hefur leitt til aukinna niðurgreiðsluheimilda og útvötnunar á hluta umhverfisstefnunnar sem vill „draga úr losun landbúnaðarins.“

Associated Press greinir frá því, að herskáir bændur víða að úr Evrópu hafi enn á ný safnast til mótmæla í Brussel fyrr í vikunni. Hundruðir dráttavéla lömuðu Brussel. Markmið bænda er að „Græna sáttmálanum“ verði fleygt í ruslafötuna og að yfirvöld treysti bændum sjálfum fyrir því hvernig best sé að yrkja jörðina. Bart Dickens, formaður belgísku bændasamtakanna sagði skv. Reuters:

„Við viljum að ESB fjarlægi Græna samninginn, vegna þess að hann er óraunhæfur.“

Vinstri menn sem bera ábyrgð á glæpastefnu glóbalismans og hóta öllum heimsendi sem vilja ekki fylgja tillögum þeirra, telja greinilega allt vera öfgastefnu hægra megin við Stalín. Þeir skilja ekki, að það eru þeir sjálfir sem stunda sömu niðurrifsstarfsemi og bolsévíkar gerðu forðum, því þeir hafa sjálfir kastast svo langt til vinstri.  Málgögn glóbalismans fara mikinn og segja baráttumenn bænda vera „hægri öfgamenn“ vegna þess að fullveldissinnar innan ESB-ríkja styðja mótmælin gegn framkvæmdastjórninni.

Almenningur í ESB-ríkjunum styður bændur og endurspeglast baráttan gegn græna drekanum af mikilli fylgishreyfingu frá vinstri til hægri. Margir vinstri ESB-þingmenn óttast að tapa óhófslifnaði sínu í kosningunum og sletta því „öfgahægri“ í kringum sig.

Bændur eru orðnir herskáir á þann hátt sem ekki hefur sést í áratugi. Evrópusambandið gerði betur að hlusta á þá.

Skildu eftir skilaboð