Páll Vilhjálmsson skrifar:
Einkennilegur dauði Evrópu er sjö ára gömul bók eftir Douglas Murray. Þar tekur höfundur vara á opingáttarstefnu gagnvart fólksflutningum frá ríkjum íslam. Murray er breskur íhaldsmaður. Nú þegar Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins gerir dauða Evrópu að yfirvofandi hættu virðist sem Murray hafi mælt áhrínisorð.
Ekki það að bækur breyti heiminum. Aðrir kraftar en ritað orð eru að verki. Valdakonan Úrsúla, ólíkt Murray, notar hugtakið Evrópu um Evrópusambandið, sem riðar til falls verði ekkert að gert. Sá breski á við evrópska menningu þegar hann tekur sér í munn heimsálfuheitið.
Henni Evrópu, hvort heldur menningunni eða ESB, sem er alls ekki sami hluturinn, vegnar fremur illa á öldinni sem brátt fjórðungur er liðinn af. Um aldamótin var hugmyndin um Stór-Evrópu, sambandsrík með Brussel sem höfuðborg, lifandi og líkleg til raungerast. Einn gjaldmiðill skyldi knýja samrunaferli næstu áratuga.
Tveir atburðir, ári fyrir útgáfu bókar Murray, settu strik í reikninginn, Brexit og kjör Trump. Evrópa án Bretlands er vængbrotin. Eyríkið er sögulega sterkasti hlekkur meginlandsins við Bandaríkin. Trump setur Ameríku í fyrsta sæti og hann gæti náð endurkjöri í haust. Þriðji atburðurinn er Úkraínustríðið, sem nú er á þriðja ári.
Evrópa hvað hernaðarmátt áhrærir er algjörlega upp á Bandaríkin komin. Vinurinn í vestri skakkaði leikinn bæði í fyrra og seinna stríði á síðustu öld, en þá var álfan í helgreipum hernaðarhyggju. Í kalda stríðinu vandist Evrópa á að láta Bandaríkin sjá um varnar- og öryggismál. Sá ávani kemur sér illa þegar stjórnmál vopnavæðast á ný.
Úkraínustríðið færir valdamönnum álfunnar heim sanninn að stórveldi án hernaðarmáttar þrífst á friðartímum en síður í ófriði. Undir forræði ESB er tómt mál að tala um evrópskan her, þótt það sé engu að síður gert í Brussel. Þjóðarher er reglan frá Napóleonsstríðunum í byrjun 19. aldar. Frakkar, Ítalir og Þjóðverjar eiga hvorki sögu né menningu til að splæsa saman í her. Að ekki sé talað um Pólverja.
Evrópusambandið var rísandi hugmyndafræði um síðustu aldamót. Nú segir forseti framkvæmdastjórnar ESB að þjóðernisöfl séu að eyðileggja Evrópu. Það er óbein viðurkenning að hugmyndin um Stór-Evrópu var mistök.