Páll Vilhjálmsson skrifar:
Kosningar til Evrópuþings sýna sterka hægrisveiflu í ríkjum eins og Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Austurríki. Í íslensku samhengi eru Miðflokkar Evrópu sigurvegarar kosninganna; Sjálfstæðisflokkar álfunnar halda sínu; Samfylkingarflokkar tapa og Vinstrigræningjaflokkar gjalda afhroð.
Í Frakklandi er kominn fram ný stjarna Þjóðfylkingarinnar, Jordan Bardella, sem kemur næstur Marínu Le Pen. Bardella gæti orðið næsti forsætisráðherra Frakklands. Marína hyggst einbeita sér að forsetakosningunum.
Ungir kjósendur yfirgefa miðjuflokka og kjósa harðlínuflokka til hægri, segir Die Welt, og rekur ástæðuna til útlendingamála.
Miðflokkur Þýskalands, AfD, er næst stærsti flokkur landsins, sé miðað við úrslit Evrópukosninganna um helgina. Aðeins þýski Sjálfstæðisflokkurinn, Kristilegri demókratar, eru stærri. Jafnaðarmenn koma í þriðja sæti og þar á eftir Græningjar, sem máttu þola niðurlægingu.
Á milli tveggja Evrópukosninga, 2019 og 2024, hafa Græningjar í Þýskalandi tapað fjórða hverjum kjósanda meðal ungs fólks.
Auk efnahagsmála snerust kosningarnar í Evrópu einkum um tvö málefni, útlendingamál og Úkraínustríðið. Flokkar fylgjandi opingáttarstefnu í útlendlendingamálum og hlynntir aðstoð við Úkraínu töpuðu. Þriðja málefnið, manngerð hamfarahlýnun, vakti ekki lukku meðal kjósenda og græningjaflokkar færðust nær jaðrinum.
Fyrir fimm árum, við síðustu Evrópukosningar, var deilt um vöxt og viðgang, að ekki sé sagt tilvist, Evrópusambandsins. Í kosningunum um helgina var ESB jaðarmál. Stór-Evrópa er á hnignunarskeiði, líkt og kommúnisminn eftir innrásina í Tékkóslóvakíu 1968. Grafskrift Stór-Evrópu er fjögur ártöl: 2016 (Brexit/Trump), 2019 (Evrópukosningar) og 2022 (Úkraínustríðið).
Úkraínustefna Þórdísar Kolbrúnar og Sjálfstæðisflokksins fær hrikalega útreið í gamla Austur-Þýskalandi. AfD, Miðflokkurinn þýski, er þar stærsti flokkurinn með 30 prósent fylgi. AfD er gagnrýninn á vestræna aðild að sléttustríðinu í austri, vill semja við Pútín og taka upp eðlileg samskipti við Rússland. Austur-Þýskaland, sem hersetið var af Rússum frá lokum seinna stríðs og fram yfir fall Berlínarmúrsins 1989, er ekki þjakað af Rússagrýlunni sem vestrið elur á.
Evrópusambandið sjálft og meginríki þess, Frakkland, Þýskaland og Ítalía, búa sig undir rússneskan frið. Kjósendur í álfunni treysta kvenkyns harðlínuhægrileiðtogum best að blíðka Pútín og félaga. Marína Le Pen í Frakklandi, Alísa Weidel í Þýskalandi og Grígoría Meloni á Ítalíu eru sigurvegarar helgarinnar. Allar þrjár vilja eiga vin í austri.