Björn Bjarnason skrifar:
Kristján Loftsson hefur veitt stjórnvöldum mikið og vel rökstutt aðhald þegar að hvalveiðum kemur og hefur barátta hans nú staðið í um 40 ár bæði á alþjóðavettvangi og á heimavelli.
Matvælaráðherra hagaði töku ákvörðunar sinnar um að heimila hvalveiðar á þann veg að forstjóri Hvals hf. telur hana jafngilda því að stöðva veiðarnar ekki aðeins í ár heldur einnig um ókomin ár vegna þess að án vitneskju um hvað bíði næstu ár sé ekki unnt að stunda þær.
Þegar ráðherrann Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir (VG) kynnti ákvörðun sína sagðist hún neydd til þess af því að lög heimiluðu henni ekki að gera annað! Þetta hefði ráðherranum átt að vera ljóst miklu fyrr og einnig að útgáfa leyfis til veiða á aðeins einni vertíð bryti í bága við alla skynsemi.
Rök þessa sama ráðherra fyrir því að flytja lagafrumvarp þar sem gert var ráð fyrir ótímabundinni heimild til sjókvíaeldis á laxi voru einmitt þau að takmarkaður gildistími starfsleyfa minnkaði áhuga fjárfesta á að leggja atvinnugreininni lið sitt. Með því að falla frá venjunni um fimm ára leyfi til að veiða langreyði vissi ráðherrann mætavel að um sýndargjörning væri að ræða þótt hún segðist neydd til að fara að lögum.
„Þetta leyfi er gefið út í 204 daga. Ef ráðherrann vill drepa atvinnurekstur er þetta leiðin til þess. Fyrirsjáanleikinn er enginn og að halda að það sé hægt að setja í gang svona rekstur með engum fyrirvara er með ólíkindum,“ segir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., í Morgunblaðinu í dag.
Umræður um íþyngjandi regluverk og áhrif þess á atvinnulíf verða sífellt háværari. Vaxandi gagnrýni er á þá aðferð embættismanna- og eftirlitsvaldsins að skjóta sér á bak við umdeilanlegan skjólvegg regluverksins við umdeildar ákvarðanir. Í því tilviki sem hér um ræðir átti ráðherrann engan kost annan lögum samkvæmt en gefa út leyfi til að veiða langreyðar en þá er gripið til regluverksins í því skyni að gelda heimildina sem lögskipað var að veita.
Almennt séð hefði mátt ætla að með vísan til stjórnarskrárbundins réttar um atvinnufrelsi hefði regluverkið verið túlkað í hag einstaklingsins sem vildi nýta sér frelsið sem hann hafði lögum samkvæmt. Ráðherrann valdi hina leiðina. Forveri hennar og flokkssystir í sama embætti reyndi í fyrra að stöðva hvalveiðar með því að brjóta lög með útgáfu reglugerðar án lagaheimildar.
Í tilkynningu matvælaráðuneytisins frá 11. júní um þessa ákvörðun nú segir að veiðimagn sé innan marka ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar frá 2017 og taki mið af varfærnum vistkerfisstuðlum Alþjóðahvalveiðiráðsins. Ráðherrann og ráðuneytið vita að Hvalur hf. virðir vísindalega ráðgjöf við veiðar sínar. Allt hnígur til sömu áttar: Það er flokkspólitísk óvild VG gegn hvalveiðum sem ræður för og opinberu regluverki er beitt eða misbeitt í þágu hennar.
Kristján Loftsson hefur veitt stjórnvöldum mikið og vel rökstutt aðhald þegar að hvalveiðum kemur og hefur barátta hans nú staðið í um 40 ár bæði á alþjóðavettvangi og á heimavelli.
Út á við hefur sigur unnist í þessu máli og allar hrakspár um að hvalveiðar myndu gera út af við ferðaþjónustuna reyndust rangar: veiðar og skoðun á hvölum fara saman. Inn á við ætla óvinir þessa atvinnurekstrar ekki að láta staðar numið fyrr en þeim tekst að stöðva hann til þess eins að þjóna lund sinni og pólitískum duttlungum.