Hamas þrífst á hatri

frettinBjörn Bjarnason, Erlent1 Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Markmiðið er að einangra Ísraela á alþjóðavettvangi, fá þá úthrópaða sem stríðsglæpamenn og þjóðarmorðingja og setja þá varanlega í þann skammarkrók að enginn vilji virða þá viðlits.

Bandaríska blaðið The Wall Street Journal birti mánudaginn 10. júní nokkrar orðsendingar sem Yahya Sinwar, stjórnandi Hamas á Gaza, hefur undanfarið sent til samverkamanna sinna til að fagna þeim árangri sem Hamas hafi náð í átökunum við Ísraela frá því að hryðjuverkasamtökin hófu þau með blóðbaði í Ísrael 7. október 2023.

Hann segir í einni orðsendingunni: „Við höfum komið Ísraelum í þá stöðu sem við viljum hafa þá.“

Í frétt á dönsku vefsíðunni berlingske.dk sagði miðvikudaginn 12. júní að palestínsk heilbrigðisyfirvöld teldu að 37.000 manns hefðu fallið á Gaza. Í augum Sinwars sé þetta aðeins tala í stærra reikningsdæmi sem hann telur að honum takist nú að leysa. Þetta sé í raun aðeins smáræði í samanburði við mannfallið sem aðrir hafi mátt þola í sjálfstæðisbaráttu sinni. Í annarri orðsendingu bendir Sinwar á að í frelsisbaráttu Alsírbúa við Frakka hafi lífi hundruð þúsunda manna verið fórnað. „Þetta eru nauðsynlegar fórnir,“ segir hann.

Markmiðið er að einangra Ísraela á alþjóðavettvangi, fá þá úthrópaða sem stríðsglæpamenn og þjóðarmorðingja og setja þá varanlega í þann skammarkrók að enginn vilji virða þá viðlits. Þá skapist forsendur til að hrekja þá á haf út eða drepa.

Nú liggur á borðinu tillaga um að stöðva hernað á Gaza sem Ísraelar hafa samþykkt en Hamas hafnar með sífellt nýjum kröfum. Það er í anda þeirrar stefnu Hamas að því lengur sem samtökunum takist að halda í þá gísla sem Ísraelsher leitar þeim mun svartari verði myndin af Ísraelum sem birtist umheiminum í fréttum – og aðgerðum mótmælenda.

Hér hefur undanfarna daga nýr kraftur hlaupið í stuðningsmenn Hamas með mótmælum gegn íslenskum stjórnvöldum og árásum á lögregluna.

Mót­mæli fyr­ir utan Alþing­is­húsið að kvöldi 12. júní 2024.

Er undarlegt að sjá myndir af fólki með fána Palestínu á Austurvelli að kvöldi 12. júní til að trufla eldhúsdagsumræður á alþingi sem snerust um allt annað en málstað þessa fólks gegn Ísrael.

Eftir að umræðunum lauk fóru nokkrir þingmenn Pírata og slógust í hóp mótmælenda og létu mikið með að þeir hefðu fengið  eitthvað af piparúða í augun eftir að mótmælin espuðust við komu þeirra og lögregla dreifði hópnum.

Píratar og félagar þeirra þrífast á því að hafa lögregluna sem andlag árása sinna og líta á beitingu piparúða sömu augum og Yahya Sinwar á mannfall vegna aðgerða Ísraela, það setji lögregluna á þann stað að réttmætt sé að fordæma hana.

Sema Erla Serdaroglu, aðjúnkt við Háskóla Íslands og forseti hjálparsamtakanna Solaris, ræðst síðan á Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra á Facebook-síðu sinni 13. júní fyrir að hafa verið í „kjól og með varalit“ og talað „af hvítri yfirburðahyggju og forréttindablindu“ á alþingi og það sé þinginu „til háborinnar skammar“ að láta það „viðgangast þar óáreitt“ að flutt sé „svona hrokafull og hættuleg“ ræða.

Það er greinilegt að Sema, Píratar og félagar eru að komast í þjóðhátíðarskap.

One Comment on “Hamas þrífst á hatri”

  1. Vakna, það er búið að staðfesta .þetta sem þjóðarmorð og öllu hugsandi fólki hefur verið það augljóst um áratugi, hvernig væri nú að fára að hugsa sjálfstætt en ekki bara eftir línunni frá herrunum í Washington ? Það er hvort er að renna sitt skeið að menn geti haft eitthvað upp úr sér sem senditíkur usa, ég sem hélt að qi gong hefði hvetjandi áhrif á líkamsstarfsemi og þar með hugsun, en ég hef greinilega rangt fyrir mér í því ,.

Skildu eftir skilaboð