Ritskoðun – mannlegt eðli eða menningarlegt fyrirbæri?

frettinInnlent, Krossgötur, RitskoðunLeave a Comment

Guðlaugur Bragason skrifar:

Ég velti stundum fyrir mér hvað liggi að baki þeirri tilhneigingu að vilja skrúfa niður í skoðunum annara. Eru þetta einhvers konar „Darwinískir” líffræðilegir eiginleikar sem hafa orðið til og jafnvel stigmagnast í gegnum náttúruval, eða er um að ræða nýlegra fyrirbæri sem endurspeglast í manngerðum aðferðum/áróðri, spilar með skynjun okkar og skapar þannig andúð á fólki með ólíkar skoðanir?

Þróunarlíffræðingur myndi að öllum líkindum ráðleggja mér að spara vangavelturnar þar sem flestir ef ekki allir eiginleikar mannsins hafi orðið til vegna aðlögunar og náttúruvals. Þó það sé líklega rétt þá finnst mér mikilvægt að reyna skilja hvað veldur þegar kemur að  ritskoðun út frá bæði líffræðilegum og menningarlegum sjónarhóli, þó ekki nema til að vekja umhugsun næst þegar ég sjálfur eða lesandi heyrum skoðanir sem okkur líkar ekki.

Til að byrja með finnst mér vert að greina tilhneigingu mannsins til að mynda hópa og samfélög. Fyrir tíma siðmenningar urðu til lítil samfélög veiðimanna og safnara, en aðild að slíku samfélagi jók lífslíkur til muna samanborið við að vera einn á báti. Í umhverfi þar sem hættur steðjuðu að úr öllum áttum gat fólk skipt með sér verkum eftir styrkleikum, varist hættum og jafnframt verndað afkvæmi sín mun skilvirkar en einstaklingar utan samfélags. Mikil samkeppni átti sér svo stað milli hópa um auðlindir (t.d. fæðu og skjól) þar sem hollusta/trygglyndi til samfélagsins voru einir mikilvægustu þættirnir í velgengni hvers hóps fyrir sig.[1] Út frá þessari velgengni var líklegra að trygglynt fólk næði að eignast afkvæmi og þannig varð sá eiginleiki yfir í náttúruvalinu.[2]

Það er því hægt að skýra með tilvísun í þróunarkenninguna bæði tilhneigingu til hópamyndunar annars vegar og trygglyndi til þess hóps sem maður tilheyrir hins vegar. Samkvæmt þessu má álykta að bæði þessi atferli séu hluti af okkar náttúrulega eðli.

En hvernig tengist þetta ritskoðun?

Ef trygglyndi til þess samfélags sem við tilheyrum er hluti af okkar náttúrulega eðli þá hlýtur slíkt hið sama að eiga við um það atferli að vilja flæma burt þá sem skortir trygglyndi. Í samfélögum veiðimanna og safnara þá styrkti það samfélagið að hrekja burt svikula einstaklinga og þátttaka í slíkri útskúfun var jafnframt leið til að sýna fram á eigin hollustu til samfélagsins.[3] M.ö.o. þá hefur það atferli að hrekja ótrygglynt fólk burt úr samfélagi einnig orðið yfir í náttúruvalinu.

Samfélög nútímans eru vissulega mjög ólík þeim samfélögum sem við þróuðumst í, en samfélög veiðimanna og safnara innihéldu yfirleitt á bilinu 10 til 100 meðlimi hverju sinni.[4] Það er því hægt að ímynda sér að í litlu 10-100 manna samfélagi hafi fólk orðið mjög kunnugt hvort öðru og öðlast djúpa innsýn í líf og eiginleika þeirra sem mynduðu þýðið. Út frá þessum tengslum má því ætla að fólk hafi metið trygglyndi fólks í gegnum persónulega reynslu og að sama skapi hafi þessi nánd verið ómetanlegur þáttur í að velja sér hæfa leiðtoga.

Í samfélögum nútímans þá eru þessi persónutengsl að mestu takmörkuð við okkar innsta hring og þess vegna finnst mér ekki ósennilegt að áðurnefndir eiginleikar sem við höfum erft í gegnum náttúrval henti illa í stóru samfélagi. Við höfum enga leið til að kynnast nema örlitlu broti af þýðinu sem þýðir að upplýsingar til að meta t.d. trygglyndi og leiðtogahæfileika eru af skornum skammti.

Út frá þessu velti ég fyrir mér hvort þessi skortur á nánd í stóru samfélagi sé ástæðan fyrir því að við virðumst sækja í að stofna eða ganga í smærri hópa.

Dæmi um slíka hópa gætu verið að ganga í trúfélagbyrja halda með fótboltaliðiganga í stjórnmálaflokk eða einfaldlega að sækja um aðild að einhverjum bergmálshelli á Facebook. Eitt sem einkennir þessa hópa í samhengi við samfélög til forna er þessi mikla tryggð:

  1. Ég hugsa að flestir kannist við eða hafa orðið vitni af heittrúuðu fólki réttlæta sína trú umfram aðrar. Slíkar samræður milli fólks af ólíkri trú enda oft í rifrildi þar sem hvorugur virðist tilbúinn að virða trú hins. Trúarágreiningur hefur svo auðvitað valdið miklum hryllingi í sögunni sem þarf vart að nefna.
  2. Undirritaður hefur ítrekað séð fólk rífast um eitthvert vafaatriði úr fótboltaleik og þá virðist engu máli skipta hvort myndbandsupptaka geti útkljáð málið. Hvorugur haggast frá skoðun sem sýnir sitt lið í bestu ljósi.
  3. Samskonar hegðun á sér stað í stjórnmálaheiminum þar sem maður sér fólk aftur og aftur beina reiði sinni að stjórnmálamanni/konu vegna einhverjar hegðunar, en afsaka svo nákvæmlega sömu hegðun hjá stjórnmálamanni/konu í eigin flokki.
  4. Bergmálshellar á samfélagsmiðlum eru svo annað mál þar sem fólki er trekk í trekk sparkað úr hópnum sé það ekki með réttar skoðanir, óháð því hvort viðhorfið sé rökstutt eða ekki.

Annað sem einkennir ofangreind dæmi í samhengi við samfélög til forna er einmitt hvernig þessir hópar eru í samkeppni við aðra um auðlindir:

  • Ofsatrúaðir keppast t.d. um mannfjölda í söfnuði sem getur skilað sér í peningum (og verðlaunum frá almætti sem verðlaunar árangursríkt trúboð).
  • Íþróttalið keppa um takmarkaðan fjölda verðlauna og titla.
  • Stjórnmálaflokkar keppast um takmörkuð völd.
  • Bergmálshellar geta svo verið í samkeppni við aðra bergmálshella um ýmis málefni sem varða takmarkaðar auðlindir.

Myndum við þessi minni samfélög innan okkar stóra samfélags vegna þess að við höfum þörf til að umbreyta umverfi okkar í aðstæður sem líkjast þeim sem við þróuðumst í? Á ekki einmitt líka við í þessum dæmum hvernig núverandi meðlimir eru settir út í horn eða flæmdir burt ef þeir sýna hegðun sem stangast á við stefnu hópsins?

Nú veit ég ekki hvort hugtakið ritskoðun eigi endilega við í dæmum a), b) og c), en hvað er trúarágreiningur sem leiðir til ofbeldis annað en tilraun til að þagga niður í skoðunum? Sama spurning á við þegar rifrildi um fótboltaleik fer úr böndunum og þróast út í ofbeldi. Eru slíkar aðstæður ekki önnur hlið á sama peningi? Svo þarf náttúrulega ekki að rifja upp þau tilvik í sögunni þar sem hollusta til stjórnmálaflokka hefur leitt af sér alræði þar sem fólk var í lífshættu við að viðra skoðanir sem stönguðust á við ráðandi öfl.

Má því ekki segja að atferlið ritskoðun sé á einhvers konar rófi? T.d. heyrir maður ekki oft um það hér á landi að fólk lendi í slagsmálum vegna skoðanna um fótbolta á meðan að slík tilvik eru algeng í Englandi. Að sama skapi hefur ritskoðun og ofsi vegna stjórnmálaskoðana aukist mikið undanfarin ár í Bandaríkjunum.

Hugsa það sé því tilvalið að gefa þessu fyrirbæri nýtt nafn þar sem ritskoðun er aðeins ein birtingarmynd þess í ákveðnum aðstæðum. Væri t.a.m. hægt að skilgreina baktal sem skref í átt til útskúfunar? Hvað með einelti hjá börnum og unglingum (eða vinnustaðaeinelti hjá fullorðnum)? Mætti segja það sama um félagslegt taumhald eða aðrar leiðir til að laga fólk að viðmiðum þess samfélags sem það býr í?  Eru þetta dæmi um sama fyrirbæri nema í ólíkum aðstæðum?

Þessar spurningar eru aðeins til umhugsunar þar sem ferlið sem leiðir til ritskoðunar/alræðis hlýtur að eiga sér upphaf. Mögulega hefst það með því náttúrulega eðli að geta greint trygglyndi í litlu þýði, en í stóru samfélagi eru allar líkur á að sú greining sé ómarktæk vegna skorts á persónutengslum og greiningin sé því byggð á t.d. sögusögnum eða áróðri. Þannig að því fyrr sem við berum kennsl á þetta fyrirbæri og hvernig fyrstu skref þess endurspeglast í hegðun okkar, því fyrr getum við gert eitthvað í málunum. Þegar fyrirbærið fær að leika lausum hala er hætta á að það geti þróast út í ritskoðun og þaðan út í einhvers konar alræði og þá er mögulega of seint að grípa inn í og stöðva ferlið. Það má í þessu samhengi nefna að samfélög veiðimanna og safnara voru stöðnuð mjög lengi. Lítil sem engin þróun var á verkfærum eða hegðun þessara hópa sem má mögulega leiða af þeirra tilhneigingu til losa sig við fólk sem virtist ekki fara gegn stefnu hópsins. Í þeirri útskúfun hafa því líklega velmeinandi uppfinningasamir meðlimir fengið reisupassann.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þessi grein hugsanlega vitfirra og ferlið sem leiðir til ritskoðunar eitthvað allt annað en ég reyni að greina hér. Það breytir því þó ekki að það atferli að þagga niður í skoðunum er hluti af okkur hvort sem uppsprettan sé líffræðilegs eða menningarlegs eðlis. Að sama skapi er augljóst að tilhneigingin til að ritskoða er á rófi og breytileg eftir aðstæðum og tímabilum. Samkvæmt því hlýtur að vera um að ræða fyrirbæri sem við höfum vald yfir sem einstaklingar. Við getum því alltaf litið í eigin barm þegar upp kemur löngun til að þagga niður í skoðunum annarra, en sama hversu óþæginlegar þær eru þá verða þær að fá að heyrast. Ef ekki þá gætum við sjálfviljug kosið yfir okkur vald til að ritskoða þá sem okkur líkar ekki og án fyrirvara gæti þetta sama vald snúist gegn okkur sjálfum.

Höfundur er heimspekingur

Heimildir:

[1] https://journals.sagepub.com/doi/full/10.1177/0963721419862289

[2] https://journals.sagepub.com/doi/full/10.1177/0963721419862289

[3] https://journals.sagepub.com/doi/full/10.1177/0963721419862289

[4] https://www.math.ucla.edu/~rhs/papers/hunter-gatherer#:~:text=Like%20other%20primates%2C%20human%20foragers,larger%20in%20particularly%20provident%20environments.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 15.6.2024

Skildu eftir skilaboð