Einni trúarjátningu frá draumaríkinu

frettinErlent, Krossgötur, MannréttindiLeave a Comment

Erling Óskar Kristjánsson skrifar:

Nýverið heyrði ég viðtal við vestrænan mann sem hafði tekið upp múslimatrú og flutt til Mið-Austurlanda. Í viðtalinu bar hann saman tjáningarfrelsi á Vesturlöndum og í Mið-Austurlöndum. Hann vildi meina að á hvorugum staðnum væri raunverulegt tjáningarfrelsi. Persónulega fann hann þó fyrir meira tjáningarfrelsi í sínu nýja heimalandi en því gamla.

Á Vesturlöndum vildi hann meina að það væri margt sem hann mætti ekki gagnrýna, þótt hann vildi það. Sem dæmi nefndi hann m.a. hinsegin málefni, femínisma, innflytjendamál og glæpi innflytjenda. Eins væru takmörk fyrir því hvernig mætti gagnrýna þá sem raunverulega stjórnuðu Vesturlöndum, sem væru einhver ólýðræðisleg öfl. Ef maður gagnrýndi þessa hluti á Vesturlöndum myndi maður verða fyrir miklu aðkasti og árásum frá aktivistum og öðru fólki sem hann myndi sennilega kalla „woke“. Það væri reynt að þagga niður í manni, m.a. með því að banna mann á samfélagsmiðlum. Aktívistar gætu haft samband við vini manns, fjölskyldu og samstarfsfólk. Maður gæti átt á hættu að missa vinnuna og atvinnutækifæri. Í einstökum tilfellum væru menn ákærðir og dæmdir af dómstólum, t.d. fyrir hatursorðræðu, en yfirleitt sæi dómstóll götunnar um málið.

Þar sem ofangreind málefni voru þau sem hann hafði sterkar skoðanir á þá fann hann fyrir auknu tjáningarfrelsi í Mið-Austurlöndum. Þar mætti sannarlega gagnrýna hinsegin hreyfinguna, femínisma og útlendinga almennt. Það má meira að segja ganga lengur en hann taldi sig þurfa. Útlendingahatur, kynþáttahatur, og fordómar gagnvart fólki sem aðhyllist önnur trúarbrögð eru einnig útbreiddir og ásættanlegir. Þar er fullkomlega eðlilegt að vera karlremba sem afneitar réttindum kvenna, svo ekki sé minnst á réttindi hinsegin fólks. Fordómar gagnvart ýmsum kynþáttum eru einnig teknir í sátt. Fólk finnur fyrir frelsi til að tjá ýmsar skoðanir sem fá ekki að viðgangast á Vesturlöndum.

Þar eru aftur á móti aðrar „rangar“ skoðanir; það er ekki tekið vel í gagnrýni á íslam, stjórnvöld, eða feðraveldið. En það truflaði ekki viðmælandann í viðtalinu, þar sem hann hafði tekið upp trúna og hafði enga gagnrýni fram að færa. Skorður á tjáningarfrelsið trufla menn sjaldnast nema þær banni þeim sjálfum að tjá sínar eigin skoðanir. Flestum er sama svo lengi sem hömlurnar bitna bara á öðrum en þeim sjálfum. Fáir leggja það á sig að berjast fyrir og verja rétt rétt annarra til að segja það sem þeir eru ósammála og vilja ekki heyra.

Í viðtalinu sem fjallað er um að ofan kom fram svolítið sem mér þótti býsna kómískt. Á Vesturlöndum eru margir smeykir við aðflutning fólks frá Mið-Austurlöndum. Þeir óttast m.a. að aðfluttir verði fleiri en innfæddir, og að menning þeirra og trúarbrögð fari að hafa áhrif á menningu okkar og stjórnarfar. Það var ótrúlegt að heyra, að fyrir fáeinum árum hafi viðmælandinn í viðtalinu verið einn af þessum mönnum. Í raun er hann enn þeirrar skoðunar að Evrópulönd séu að gera mistök með innflytjendastefnu sinni. Hann vill jafnvel meina að fólk á Mið-Austurlöndum sé sammála því; enda myndi það ekki hleypa aragrúa fólks með ólíka trú og menningu inn í sín eigin lönd. Á Vesturlöndum eru þeir sem lýsa þessum áhyggjum hins vegar gjarnan uppnefndir „íslamófóbar“. Sumir þeirra deila ýmsum skoðunum með viðmælandanum úr viðtalinu sem fjallað er um hér að ofan. Það hlýtur því að þykja kaldhæðnislegt, að ef áhyggjur þeirra raungerast, eru þessir „íslamófóbar“ aðeins einni trúarjátningu frá því að búa í sínu draumaríki. Þeir sem hafa minnstu að tapa veita mesta mótspyrnu við þessari þróun. Þeir sem hafa mestu að tapa hafa hins vegar takmarkaðar áhyggjur og bjóða hættunni jafnvel heim – sjálfsagt telja þeir að áhyggjurnar séu tilefnislausar.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 19.6.2024

Skildu eftir skilaboð