Sögulegum þingvetri lýkur

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, StjórnmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Það tókst að afgreiða uppsöfnuð mál vetrarins og leysa úr ágreiningi með samkomulagi bæði milli stjórnarflokka og milli þeirra og stjórnarandstöðuflokkanna.

Sögulegu vetrarþingi var frestað fram í september klukkan 01.18 í nótt með ávarpi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, þar sem hann kvaddi þingheim með ósk um að forseti Íslands flytti þjóðhátíðarávarp á Austurvelli 17. júní í stað forsætisráðherra og að forsetaembættið fengi aðstöðu á Þingvöllum svo forseti þyrfti ekki að þiggja húsaskjól annarra þegar hann kæmi þangað.

Hvað knýr forseta til að bera fram slíkar óskir nú til breytinga á því sem staðið hefur óbreytt í 80 ár og enginn forseti hefur, að minnsta kosti opinberlega, orðað áður? Þetta er til marks um ný viðhorf sem ekki ná fram að ganga nema með vilja þingmanna. Hvorug skipanin er tilviljun og hvorug þeirra hefur til þessa leitt til vandræða. Hvað hefur breyst?

Hér er sagt að þingið hafi verið sögulegt og er þá vísað til þess að forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt í byrjun apríl til að bjóða sig fram sem forseti. Hún hefði getað farið að fordæmi Ingridu Šimonyté, forsætisráðherra Litháen, sem hingað kom í tilefni af 17. júní, og gegnt áfram embætti forsætisráðherra eða setið sem þingmaður þrátt fyrir framboðið. Šimonyté bauð sig í maí 2024 fram gegn Gitanas Nausėda, sitjandi forseta, og fékk aðeins um 24% atkvæða í síðari umferð kosninganna gegn um 76% atkvæða að baki forsetanum.

Bjarni Benediktsson á alþingi (mynd: mbl.is/Eggert Jóhannesson).

Stjórnarflokkarnir þrír ákváðu að standa áfram saman að stjórnarsamstarfi þrátt fyrir brotthvarf Katrínar og myndaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, stjórn 9. apríl. Kom það í hlut hans að leiða þingstörfin til lykta á lokadögum þeirra sem snúast um að afgreiða uppsöfnuð mál vetrarins og leysa úr ágreiningi með samkomulagi bæði milli stjórnarflokka og milli þeirra og stjórnarandstöðuflokkanna.

Fjórar tillögur um vantraust voru fluttar á þinginu, Inga Sæland, Flokki fólksins, flutti þrjár þeirra. Hún afturkallaði tvær á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, 22. janúar og 8. apríl, en tillaga um vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar sem hún flutti með Pírötum var felld 17. apríl. Bergþór Ólason, Miðflokki, flutti vantrauststillögu á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra sem var felld 20. júní.

Bjarni Benediktsson sagði réttilega að þessi áfergja stjórnarandstöðunnar í vantraust, sem vitað væri að næði ekki fram að ganga, væri merki um örvæntingu hennar.

Í tilefni af því að þingið ljúki nú störfum sagði Bjarni á Facebook :

„Við sögðum við endurnýjun samstarfs flokkanna í vor að við myndum leggja áherslu á útlendingamálin, orkumál og efnahagsmál. Að auki væru stór tímamótamál til afgreiðslu á borð við breytingar á örorkubótakerfinu og lögreglulög.

Allt er þetta að ganga fram samkvæmt áætlun. Hrakspár um annað leysast upp og verða að engu hér á þinginu í kvöld, þegar afrakstur þingstarfanna liggur fyrir.“

Undir þessi orð skal tekið. Það er allt annað yfirbragð á lyktum þingstarfa nú en í fyrra þegar mörgum þótti miður að stórmálum væri ýtt á undan sér.

Skildu eftir skilaboð