Líbanon í gíslingu Hesbollah

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, StríðLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Eftir að Hassan Nasrallah, leiðtogi Hesbollah, hótaði að ráðast á Kýpur og drónamyndböndum af höfninni í Haífa og öðrum hernaðarlega mikilvægum stöðum í Ísrael var komið í dreifingu þá hafa íbúar Líbanon farið að ókyrrast. Alarabya (Sádarnir) sagði frá því 23 júní að fyrsta flugvélin er flutti Kúveita á brott væri þegar farin og World Israel News hafði sama dag eftir líbönskum fjölmiðli að 100.000 manns hefði þá þegar yfirgefið landið en tugir þúsunda hefðu flutt sig um set norður, frá yfirráðasvæði Hesbollah, og að Beirút sé ekki talin örugg komi til stríðs, enda grunar Ísraelsmenn að þar séu geymd vopn af ýmsu tagi. Kanadamenn munu einnig hafa áform um að flytja 45.000 ríkisborgara sína á brott (timesofisrael.com) enda hefur Kanada nýverið lýst því yfir að íranski byltingarvörðurinn sem Khomeini stofnaði 1979 séu hryðjuverkasveitir.

Ályktun 1701 er ekki virt

Eftir innrás Hamas í Ísrael 7. október síðastliðinn flæmdi eldflaugaskothrið Hesbollah íbúa í norðurhluta Ísraels frá heimilum sínum (eru á hótelum eða hjá ættingjum) og mikið af ræktarlandi hefur brunnið. Ísraelsher hefur svarað árásunum og bæði hermenn og almennir borgarar hafa fallið báðum megin við landamærin. Nýlega hafa Ísraelsmenn náð að drepa næstráðanda Nasrallah og einnig annan stórlax úr samtökum sem eru afleggjari Bræðralags múslima (líkt og Hamas) og varð það síst til að draga úr eldflaugaskothríðinni. Eftir stríð Ísraels og Hesbollah 2006 sem hófst með því að Hesbollah skaut eldflaugum og rændi tveimur hermönnum þá samþykkti Öryggisráð SÞ einróma ályktun1701 um varanlegt vopnahlé - Ísraelsher skyldi yfirgefa Líbanon, Hesbollah skyldi afvopnast og friðargæslulið auk Líbanonshers skyldi stjórna hlutlausu svæði við landamæri Ísraels.

Ísraelsher fór en Hesbollah ekki

Hesbollah hefur engan rétt til að stjórna Líbanon. Samtökin voru stofnuð 1985 sem andsvar við veru Ísraelshers í landinu. PLO-liðar höfðu verið reknir frá Jórdaníu og komu af stað borgarastríð í Líbanon (1975-1990) með þeirri áráttu sinni að skjóta flugskeytum yfir til Ísraels. Árið 1982 fengu Ísraelsmenn nóg, gerðu innrás í landið og flæmdu Palestínumennina á brott. Ísraelsher hefur fyrir löngu yfirgefið landið en Hesbollah er þar enn og sýnir engan lit á að afsala sér völdum, né til að virða samþykkt Öryggisráðsins. Nýlega mátti lesa á gatestoneinstitute.org grein eftir Caroline Glick þar sem hún segir takmark Hesbollah hið sama og Írana - gjöreyðing Ísraelsríkis en fyrsta þrepið á þeirri vegferð sé að ná yfirráðum yfir norðurhluta Ísraels. Hún segir að Líbanon sé ekki alvöru ríki, heldur írönsk herstöð og íbúarnir þurfi að láta sem þeir búi ekki á írönskum eldflaugaskotpalli.

Það er nú líklega ekki rétt hjá Glick að íbúar Líbanon viti ekki að þeir séu undir hælnum á Hesbollah og Íran. Leiðtogi frjálslyndra þjóðernissinna, þingmaðurinn Camille Dory Chamoun, sagði í sjónvarpsviðtal fyrr í mánuðinum að 75% Líbana væru á móti Hesbollah og yrði slíkt nauðsynlegt þá gætu súnní múslimar, drúsar og kristnir sett saman 20.000 manna her gegn þeim. Hann sagði að Hesbollah (Fylking Allah) ætti kannski fremur að kallast Hesb-Iran því hann teldi ekki að Allah vildi hafa neitt með þetta land að gera.

Það er ekki eins og ástandið í landinu sé björgulegt. Efnahagurinn hafði tekið vel við sér eftir borgarastríðið en upp úr 2019 hrundi hann hreinlega, sakir þess að þær fylkingar er stjórna eiga landinu (súnní og shía múslimar og kristnir) hafa hag landsins ekki í fyrirrúmi en skara eld að eigin köku. Verðbólgan er fáránlega há og efnahagsástandiðs vo slæmt að Alheimsbankinn hefur ekki gefið út skýrslu um landið frá 2021. Landið má því hreint ekki við stríðsátökum. Ef til vill láta menn sér nægja að skiptast á eldflaugum en æskilegast væri auðvitað að Hesbollah virti samþykkt Öryggisráðsins um varanlegt vopnahlé svo að íbúar norðurhluta Ísraels geti snúið aftur heim.

Skildu eftir skilaboð