Harmur er að oss kveðinn eða þannig

frettinErlent, Jón Magnússon, Kosningar1 Comment

Jón Magnússon skrifar:

Skv. útgönguspám vinnur Franska þjóðfylkingin sem stendur vörð um franska menningu og frönsk gildi stórsigur í þingkosningunum í Frakklandi. Áherslur á hagsmunamál frönsku þjóðarinnar er það sem gerir frönsku þjóðfylkinguna að öðru vísi flokki en aðra í Frakklandi. Flokkurinn vill taka samstarfið í Evrópusambandinu til endurskoðunar og takmarka aðstreymi innflytjenda og sérstök réttindi þeirra umfram franska borgara. Vegna þessarar stefnu er franska þjóðfylkingin kölluð öfga hægri flokkur.

Franska þjóðfylkingin er ekki öfgaflokkur frekar en flokkur Giorgina Meloni sem vann stórsigur í ítölsku þingkosningunum fyrir nokkru. Meloni varð forsætisráðherra og hefur staðið sig best þeirra sem gegnt hafa því embætti undanfarna áratugi.

En þessar staðreyndir má ekki segja og vinstri fjölmiðlunin verður að hafa sinn framgang og nú er mikill harmur kveðinn að þeim öfga vinstri mönnum sem þar halda um stjórnvölinn.

Í kvöld var dreginn fram prófessor í miðaldafræði, sem hefur sérstaklega rannsakað Fornaldarsögur Norðurlandanna, sem við strákarnir uxum upp úr um 13 ára aldur,eftir að hafa lesið Bósa sögu og Herrauðs upp til agna, en þessi miðaldafræðingur var fenginn til þess að fjalla um frönsku þingkosningarnar sem „fræðimaður“ RÚV í málefnum nútíma Frakklands ekki miðalda, sem viðkomandi hefur þó sannanlega sérfræðiþekkingu á.

Að sjálfsögðu fann þessi „fræðimaður“ lýðræðinu allt til foráttu þar sem franskir kjósendur tóku afstöðu með Frakklandi og tryggðu stórsigur frönsku þjóðfylkingarinnar. Sú lýðræðislega niðurstaða er að mati „fræðimannsins“ ógn við lýðræðið. En hann fjallaði ekki um, að meginhluti aðkomufólksins sem hefur kosningarétt í Frakklandi kýs til vinstri og fylgi frönsku þjóðfylkingarinnar er því umtalsvert meiri en 35% meðal fólks sem er af Frönsku bergi brotið. 

Sama var fullyrt af „fræðimönnum“ þegar farsælasti forsætisráðherra Ítalíu Giorgiana Meloni vann stórsigur í síðustu þingkosningum á Ítalíu. Samt sem áður hefur Meloni sýnt að hún er eindreginn lýðræðissinni og það sama á við um forustu frönsku þjóðfylkingarinnar. Allt tal um öfgahægri á sér litla stoð vilji fólk kynna sér stefnu þessara flokka en láta ekki mata sig af tilhæfulausum áróðri.

Vonandi gengur þessi sigur frönsku þjóðfylkingarinnar eftir í síðari umferð kosninganna, þó svo að afturhaldsöflin til hægri og vinstri í franskri pólitík, geri allt sem þau geta til að koma í veg fyrir það með því að rotta sig saman í kosningabandalagi gegn framfarasinnuðum Frökkum sem vilja breyttar áherslur landi og þjóð til heilla. 

Spyrjum því að leikslokum eftir viku og vonandi verður þá hægt að taka undir með kjósendum í Frakklandi og segja "Vive la France

One Comment on “Harmur er að oss kveðinn eða þannig”

  1. ,,Í kvöld var dreginn fram prófessor í miðaldafræði ..”

    Ekki er það nú eins óviðeigandi og ætla mætti, heldur á hinn veginn, þó líklega fari það framhjá téðri ,,vinstri fjölmiðlun.”

    Rólandskviða frá 11. öld er þjóðardýrgripur Frakka. Þetta sagnaljóð segir frá landráðum Frank Ganelons, sem leiða til dauða Rólands, frænda Karls mikla, í orrustu sem háð var í Roncevaux gegn her múslima. Særður til ólífis ber Róland horn að vörum og blæs herblástur sem berst Karli mikla til eyrna. Hann að bíður þá ekki boðanna. Frekar en franskir kjósendur þúsund árum síðar :).

Skildu eftir skilaboð