Upp komast svik um síðir

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, StjórnmálLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

„Nú hefur nýja Samfylkingin hins vegar tækifæri til að reka af flokknum slyðruorðið og sýna í verki að þeir sem standa á þennan hátt að samkomulagi um eignir ríkisins njóti ekki stuðnings flokksforystunnar.“ 

Nýja Samfylkingin lætur eins og með þeim berist ferskur andi inn í stjórnmálalífið. Henni megi treysta betur en öðrum til að halda spillingaröflum í skefjum. Gömlum þingmönnum hefur verið ýtt til hliðar í flokknum til að árétta að hann hafi nýja ásýnd. Kristrún Frostadóttir formaður nýju Samfylkingarinnar segist starfa samkvæmt tveggja kjörtímabila plani að umbótum á þjóðfélaginu. Sumt sem gerist í pólitíkinni þolir ekki slíka bið.

Þegar flokksforystan réð Katrínu Júlíusdóttur fyrrverandi ráðherra sem kosningastjóra og leyfði Degi B. Eggertssyni formanni borgarráðs að sitja í öðru sæti á lista Kristrúnar, með því skilyrði að hann yrði ekki ráðherra, beindist athygli Leifs Magnússonar verkfræðings að samkomulagi Katrínar sem fjármálaráðherra og Dags B. sem staðgengils borgarstjóra frá 1. mars 2013 um sölu ríkisins á um 11 hektara flugvallarlandi í Skerjafirði. Leifur fann enga lagaheimild fyrir sölunni og spurði um hana í grein í Morgunblaðinu 5. nóv.

Frétt Morgunblaðsins 7. nóvember 2024.

Í Morgunblaðinu í dag (7. nóv.) upplýsir Njáll Trausti Friðbertsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, að þetta samkomulag flokkssystkinanna sé lögbrot „því Katrín Júlíusdóttir þáverandi fjármálaráðherra gekk lengra en hún hafði lagaheimildir fyrir“. Í raun gerðist hún þar með sek um meira en brot á lögum með gjörningnum, hún braut gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Í blaðinu í dag er einnig rætt við Ögmund Jónasson sem var innanríkisráðherra í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur með Katrínu. Hann átti ekki hlut að samkomulagi samfylkingarfólksins en hafði áður gert samkomulag við Reykjavíkurborg um byggingu samgöngumiðstöðvar á Reykjavíkurflugvelli. Síðar hafi komið í ljós „að skuldbindingar Reykjavíkurborgar yrðu allar sviknar“. Ögmundur segir:. „Núna er árið 2024 og hvar er flugstöðin? Þetta var allt svikið.“

Hvers vegna sá Leifur Magnússon núna ástæðu til að velta fyrir sér hvort lögbrot hefði verið framið 2013? Jú, af því að VG-ráðherrann Svandís Svavarsdóttir gaf Isavia fyrirmæli um að breyta flugvallargirðingu svo að fullnusta mætti samkomulag flokkssystkinanna hvað sem líður lögheimildum og svikum á samkomulagi um samgöngumiðstöð.

Þessi stjórnsýsla öll er svo óheyrileg að furðulegt er að um vinnubrögðin sé upplýst af áhugamanni um Reykjavíkurflugvöll en þau hafi til dæmis ekki verið rannsökuð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins.

Nú hefur nýja Samfylkingin hins vegar tækifæri til að reka af flokknum slyðruorðið og sýna í verki að þeir sem standa á þennan hátt að samkomulagi um eignir ríkisins njóti ekki stuðnings flokksforystunnar. Betra er seint en aldrei.

Í leiðinni gæti flokksforystan sagt álit sitt á því að gamlir trúnaðarmenn í flokknum virtu ekki lögbundna tilkynningarskyldu til varnar gegn peningaþvætti þegar þeir fluttu í nafni Solaris-samtakanna út reiðufé í erlendum gjaldmiðli fyrir ríflega 65 milljónir til Egyptalands þar sem fjármunirnir voru nýttir til að kaupa Palestínumenn út af Gasasvæðinu og til Egyptalands. Ekki hefur verið upplýst um hverjum var greitt eða fyrir hvað.

Skildu eftir skilaboð