Sebastian Rushworth – traust heimild um allt sem viðkemur Covid-19

frettinErlent, Pistlar1 Comment

Þegar leitað er eftir traustum upplýsingum um Covid-19 faraldurinn er vefsíða sænska læknisins Sebastian Rushworth, www.sebastianrushworth.com, það fyrsta sem kemur upp í hugann. Rushworth, þá nýútskrifaður læknir, starfaði á neyðarmóttöku í Stokkhólmi þegar faraldurinn hófst og hefur því beina reynslu af að meðhöndla sjúklinga. En hann hefur jafnframt verið afar ötull að rýna í gögn og rannsóknir og ólíkt alltof mörgum læknum er hann óhræddur við að tjá sig.

Fyrsta grein Rushworths um Covid-19 birtist í ágúst á síðasta ári. Þar lýsir hann reynslu sinni af faraldrinum og leggur mat á hættuna sem fólki stafar af sjúkdómnum. Mat hans þá var að dánarhlutfallið væri um 0,12%, sem er afar nærri mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á dánarhlutfalli á heimsvísu sem gefið var út í október á síðasta ári.

Rushworth hefur síðan fjallað um flestar hliðar þessa máls, þar á meðal lyfjameðferð, bóluefni og bólusetningar barna. Hann hefur einnig skrifað mjög gagnlegar leiðbeiningar um hvað þurfi að hafa í huga við lestur vísindagreina. Einnig hefur Rushworth fjallað ítarlega um hið svonefnda „langvarandi Covid“, farið í gegnum rannsóknir á þessu fyrirbæri og sýnt fram á með traustum rökum hversu gagnslausar flestar þær rannsóknir sem ætlað er að sýna fram á alvarleika þess eru.

Skrif Rushworths hafa vakið verðskuldaða athygli, viðtöl við hann hafa birst víðsvegar um heim, greinar eftir hann hafa birst í virtum tímaritum og í mars á síðasta ári gaf hann út bók um faraldurinn, sem ber heitið „Covid – Why most of what you know is wrong“. Í bókinni flettir Rushworth kerfisbundið ofan af hræðsluáróðrinum í kringum sjúkdóminn og birtir lesendum heildarmyndina eins og hún raunverulega er. Það er rétt að geta þess að Amazon neitaði í fyrstu að selja bók Rushworths. Þrýstingur frá fjölda lesenda hans varð til þess að þeirri ákvörðun var snúið við fáum dögum síðar. Bók Rushworths hefur selst í bílförmum og fengið gríðargóðar viðtökur og viðbrögð gagnrýnenda.

Rushworth hefur einnig fjallað um samfélagslegar afleiðingar hræðsluáróðurs og lokana og hvernig rokið var af stað í gríðarlega íþyngjandi og alvarlegar aðgerðir án þess að nein tilraun væri gerð til að meta meintan ávinning þeirra.

Í nýjustu grein sinni fjallar Rushworth um bólusetningarnar, sem á sínum tíma voru álitnar hin endanlega lausn vandans. Bólusetningar viðkvæmra hópa eingöngu hefðu orðið slík lausn, segir Rushworth, en fjöldabólusetningarnar hafa í för með sér hraðari útbreiðslu meira smitandi afbrigða sem draga faraldurinn á langinn. Þrýstingurinn á bólusetningu allra er sjúklegur að hans mati og tilraunirnar til að útloka óbólusetta frá samfélaginu ekki síður. Í greininni fjallar Rushworth einnig um aukaverkanir bóluefna og lýsir reynslu sinni af viðbrögðum kollega, sem upp til hópa láta undir höfuð leggjast að tilkynna slík tilfelli. Þau séu því vafalaust verulega vantalin.

Rushworth endar greinina á jákvæðum nótum:

„Sú hugmynd að hjarðónæmi sé einungis hægt að ná með bólusetningum er kannski hlægilegasta bábiljan sem hlotið hefur byr undir báða vængi í faraldrinum, í það minnsta í augum allra sem hafa lágmarksþekkingu á ónæmisfræðum og mannkynssögu. Átján mánuðum eftir að faraldurinn hófst hafa flest lönd náð, eða eru í þann veginn að ná hjarðónæmi, alveg óháð því hversu stór hluti almennings hefur verið bólusettur. Það er engin ástæða til að þvinga þau 15-30% sem eftir eru til að þiggja bóluefni gegn vilja sínum. Lok faraldursins eru í sjónmáli.“

Aðsend grein: Þorsteinn Sigurlaugsson


One Comment on “Sebastian Rushworth – traust heimild um allt sem viðkemur Covid-19”

  1. Þakka þér fyrir að koma þessu á framfæri. Vonandi kynnir fólk sér skrif hans með opnum hug.

Skildu eftir skilaboð