Páll Vilhjálmsson skrifar:
Rómverska hlýskeiðið varði frá um 250 f. Kr. til jafnlengdar eftir fæðingu frelsarans, eða í 500 ár. Hernaðarleg og menningarleg útþensla heimsveldisins náði nyrst til Skotlands. Kuldaskeið í kjölfarið varði til um 900 en þá hófst miðaldahlýskeiðið er stóð til um 1300.
Á miðaldahlýskeiðinu byggðist Ísland og Grænland norrænum mönnum og keltneskum sem stunduðu búfjárbúskap og kornrækt lík og í heimahögum. Litla ísöld er tímabilið um 1300 til 1850, sumir segja 1900. Norræn byggð á Grænlandi lagðist af, en inúítar héldu velli. Stappaði nærri, í lok 18. aldar, að Ísland yrði talið óbyggilegt - móðuharðindin.
Nýja hnitmiðaða samantekt, með tenglum, um þróun veðurfars á líftíma mannsins hér á jörð, má nálgast hér.
Texti, jafnvel byggður á heimildum, er eitt og handfastur veruleiki annað. Jöklarnir á Íslandi og Evrópu hopa í hlýindum eftir lok litlu ísaldar, fyrir 150 árum eða svo. Yfirlætislaus frétt á RÚV segir þá sögu að er jöklarnir skreppa saman opinbera þeir mannvistir fyrri tíðar, t.d. á landnámsöld Íslands. Jöklar voru minni, jafnvel alls engir, á miðaldahlýskeiðinu en sóttu í sig veðrið á litlu ísöld sem beit hvað grimmast um miðja 17. öld.
Sú öld er í evrópskri sögu kölluð galdraöld. Helvíti er heitt, segir kenningin, og kannski ekki voðalegur staður fyrir fólk sem dó unnvörpum úr kulda og vosbúð. Gamanlaust varpar galdraöldin ljósi á mátt kennisetninga. Á Íslandi, þar sem fátt var um eldivið, var dýrmætum sprekum fórnað til að kveikja í fólki sem auðveldlega mátti farga í flæðarmálinu eða drekkja í tjörn. En, nei, dólgafræðin mæltu um líflát á báli. Nú segja viðtekin fræði yfirvaldsins að sé drepið á bensín- og díselvélum geri svalara veður og það forði okkur frá jarðnesku helvíti. Svo á að heita að við lifum á upplýstum tímum án hindurvitna.
Jöklarnir sýna svo ekki verður um villst að veðurfar sveiflast náttúrulega. Engir mannlegir kraftar, eða athafnir mannsins, breyta að veðursaga jarðarinnar býður upp á hlýskeið og tímabil kulda. Ekki er einhugur um ástæðurnar. Upplýstar ágiskanir eru m.a. að virkni sólar sé hluti skýringarinnar.
En svo eru þeir sem trúa að náttúrulegt veður sé hægt að leiðrétta með pólitískri stefnumótun. Einn slíkur var til sjónvarps nýlega. Spyrillinn, kona með prýðilega jarðtengingu, sagði manninn lifa í fábjánalandi. Nokkur eftirspurn virðist eftir þeim heimkynnum, jafnvel frá fólki sem ætti að vita betur.