Páll Vilhjálmsson skrifar:
Pútín verður að ósk sinni, frystir Úkraínustríðið. Fyrirsögnin og fréttaskýring er úr bresku útgáfunni Telegraph, sem þekkt er fyrir einarðan stuðning við Úkraínu. Frostið vísar til þess að tveggja mánaða gagnsókn Úkraínuhers skilar nánast engu í landvinningum.
Fréttaskýringu Telegraph lýkur með þeim orðum að líklega verði Selenskí forseti Úkraínu að semja við Pútín.
Stríðið stendur núna um hver ræður frásögninni, segir í úttekt bandarísku NBC-útgáfunnar sem eins og Telegraph er fjarska hlynnt málstað Úkraínu. Gildir raunar um flesta vestræna meginstraumsfjölmiðla.
Frásagnastríð er eitt, vígvöllurinn annað. Sigur í orustu fæst ekki með snjallri frásögn. Tvær mælistikur eru lagðar á framvindu átakanna á sléttum Garðaríkis. Landvinningar og mannfall. Upplýsingar um breytingar á víglinu liggja fyrir, nánast í rauntíma. Þar er staðan svotil óbreytt í tvo mánuði. Dýpra er á tölum um mannfall. Sókn tapar nær alltaf meira en vörnin. Áætlaðar tölur um mannfall Úkraínu í tvo mánuði liggja á bilinu 30 til 40 þúsund.
Gagnsókn Úkraínu átti að knýja Rússa, ef ekki til uppgjafar, þá til að fallast á niðurlægjandi friðarsamninga.
Nú þegar bakhjarlar Úkraínu viðurkenna að gagnsóknin er misheppnuð vaknar spurningin hvað gerist næst. Stjórnin í Kænugarði og vesturlönd vildu ná frumkvæðinu en tókst ekki. Litlar líkur er á að Rússar láti gott heita, telji sig hólpna að halda víglínunni eftir tveggja mánaða harða hríð andstæðingsins.
Stríð hefjast með röngu mati annars stríðsaðila, þess sem bíður lægri hlut. Misskilningurinn stafar oftast af ofmati á eigin getu og vanmati á andstæðingnum. Til að ljúka stríði með friðarsamningum, en ekki uppgjöf, þarf sá aðili sem stendur höllum fæti að viðurkenna dómgreindarleysi og éta ofan í sig fyrri yfirlýsingar. Sú viðurkenning felur oftar enn ekki í sér valdhafaskipti. Tregða til að kannast við hlutlægan veruleika og trúa frásögn óskhyggju er skiljanleg sé haft i huga hvað er í húfi.
Friðarsamningar eru ekki á dagskrá á meðan víglínan er frosin. Til að friður verði ræddur af alvöru þarf annar hvor stríðsaðilinn að horfa í byssuhlaup andstæðingsins og biðja um samninga.
Handverksmenn í hernaði, t.d. bandaríski ofurstinn Douglas Macgregor, segja að úrvinnslan sé eftir og velti mest á hve stóran hluta Úkraínu Rússar ætli sér. Óvænt atriði, bein aðild Pólverja og Litháa, gætu sett strik í reikninginn en skriftin sé á veggnum.
Næsta leik á vígvellinum eiga Rússar. Hvort það verði breið sókn stórra herja eða hægfara mulningsvél er óvíst. Úkraínustríðið er dauði og eyðilegging sem hefði mátt afstýra með samningum. Það verður viðurkennt í stríðslok.