„Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki gætt íslenskra hagsmuna“

frettinJón Magnússon, Loftslagsmál1 Comment

Jón Magnússon skrifar:

Þegar við gengum í EES, þá samþykktum við ákveðin atriði sem tengdust viðskiptum, þjónustu, frjálsri för og nokkur fleiri atriði. En við samþykktum aldrei, að Evrópusambandið hefði sjálfstæða skattlagningarheimild gagnvart Íslandi eða fólki og fyrirtækjum hér á landi. 

Evrópusambandið hefur samþykkt viðamiklar tillögur í loftslagsmálum vegna ímyndunar um manngerða hlýnun jarðarinnar. Tillögurnar fela í sér, að leggja verulega skatta á flutninga til og frá landinu með flugvélum eða skipum.

Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki gætt íslenskra hagsmuna í þessu efni og gert Evrópusambandinu grein fyrir að við værum ekki sett undir skattlagningarvald sambandsins og ætluðum okkur ekki að vera það. 

Það er ljóst, að frjáls og fullvalda þjóð, getur ekki sætt sig við að velferð og velmegun þjóðarinnar verði frá henni tekin vegna skattpíningar Evrópusambandsins. 

Við eigum hvert og eitt sem og þingmenn þjóðarinnar að rísa upp eins og gert var á þjóðfundinum í Menntaskólanum í Reykjavík í ágústmánuði árið 1851, þegar dönsk stjórnvöld ætluðu að innlima Ísland í Danmörku og Ísland hefði sömu lög og Danmörk.

Þá reis upp frelsishetjan Jón Sigurðsson sagði ég mótmæli þessu ranglæti fyrir hönd konungsins og þjóðarinnar og aðrir þingfulltrúar risu úr sætum og sögðu við mótmælum allir. 

Við eigum ekki að vera minni menn og mótmæla allir þeirri rangsleitni sem Evrópusambandið ætlar að beita okkur og gera möppudýrunum í Brussel það ljóst, að norður í Atlansthafi býr sjálfstæð þjóð, sem ætlar að vera það og hafnar að vera öðrum þjóðum háð hvað um lagsetningu og skattlagningu. 

Við höfum ekki enn framselt fullveldi okkar til Evrópusambandsins og megum aldrei gera.

Vér mótmælum allir!

One Comment on “„Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi ekki gætt íslenskra hagsmuna“”

  1. Flestir alþingismenn eru hugleysingjar. Ráðist er á þá fáu sem þora að segja sína skoðun þegar hún fellur ekki í kramið. Það er ljóst að við þurfum að endurskoða þennan samning og einnig staða fullveldis landsins.

Skildu eftir skilaboð