Páll Vilhjálmsson skrifar:
Keyptir vísinda- og tæknimenn í þjónustu auðjöfra halda að almenningi, í samvinnu við fjölmiðla, þeirri blekkingu að loftslagsvá steðji að heimsbyggðinni. Allt er þetta viðskiptamódel, en ekki vísindi, og haldið gangandi til að skattpína almenning.
Á þessa leið skrifa Þjóðverjarnir Klaus-Dieter Döhler og Josef Kowatsch. Báðir eru umhverfisverndarsinnar og Döhler náttúrvísindamaður. Grein þeirra birtist í útgáfunni EIKE, hægt er að lesa hana í samantekt á ensku.
Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, er svo gengumspillt, skrifa Döhler og Kowatsch, að flestir náttúruvísindamenn hafa sagt sig frá störfum fyrir nefndina. Eftir sitja félagsfræðingar, hagfræðingar og stjórnmálafræðingar.
Eins og gefur að skilja vita félagsvísindamennirnir ekkert um loftslagsvá, sem sérfræðingar, en þess meira um hvernig eigi með óttastjórnun, peningagjöfum og áróðri að halda viðskiptamódelinu gangandi.
Á seinni tíð eru náttúruvísindamenn, sem sjá í gegnum blekkinguna, farnir að taka af sér silkihanskana, kalla hlutina réttum nöfnum og leggja til hliðar fræðilegt orðalag. Eðlisfræðingurinn John Clauser, sem fékk Nóbelsverðlaunin árið 2022, sagði nýlega skýrt og skorinort að loftslagsvísindi hafi breyst í falsvísindi í þjónustu trúarbragða.
Tilfallandi hefur síðustu ár vitnað til fjölda náttúruvísindamanna, t.d. Judith Curry, Richard Lindzen, William Happer, Roy Spencer, John Christy, Lennart Bengtsson og fleiri sem þvertaka fyrir loftslagsvá. Allt eru þetta loftslagsvísindamenn. Svikamyllan áfram þótt náttúruvísindamenn sem standa undir nafni sýna með rökum keisarann klæðalausan.
Hvers vegna?
Stutta svarið er peningar.
Í viðtengdri frétt segir af fyrirtækinu Carbfix. Tilfallandi hefur áður fjallað um stórkostlegan árangur fyrirtækisins fyrr á þessu ári, sjá hér og hér. Kjarni málsins:
Landsvirkjun og OR eru á kafi í hókus-pókus hagfræðinni þar sem peningar vaxa á trjám. Öllu heldur: fjármagn er búið til úr koltvísýringi, CO2.
Dótturfélag OR, Carbfix, fær uppslátt í þýsku útgáfunni Die Welt fyrir að þróa aðferð að dæla koltvísýringi úr andrúmsloftinu ofan í jörðina.
Eldgosið í Fagradalsfjalli losar um 10 til 11 þúsund tonn af koltvísýringi, CO2, á dag, segir Jarðvísindastofnun. Fyrsta og stærsta heildstæða lofthreinsi- og förgunarstöðin í heiminum við Hellisheiðarvirkjun fangar 4 þúsund tonn af CO2 á ári.
Jú, þið lásuð rétt. Minna en hálfsdags framleiðsla litlu eldsumbrotanna í Fagradalsfjalli fer ofan í holu á Hellisheiði Á EINU ÁRI.
Landsvirkjun selur fyrir milljarða á ári upprunavottorð, sem er nútímaútgáfa aflátsbréfa miðalda. Upprunavottorðin eru keypt af orkusóðum í Evrópu til að sýna fram á orkuvæna framleiðslu. Vegna sölu á upprunavottorðum/aflátsbréfum er íslensk orka ekki lengur græn nema gegn gjaldi.
Hókus-pókus hagfræðin býr til peninga úr þeirri firru að koltvísýringur sé okkur lifandi að drepa. Veruleikinn er sá að ef við útrýmum koltvísýringi úr andrúmsloftinu jafngilti það sjálfsmorðssáttmála, segir William Happer loftslagsvísindamaður.
Carbfix, og hugmyndin að baki, er milli steins og sleggju. Í einn stað skiptir engu máli þótt einhverju smámagni af CO2 er dælt ofan í jörðina. Í annan stað, ef svo stórundarlega vildi til, að Carbfix fyndi aðferð að taka úr andrúmsloftinu stóran hluta koltvísýrings stafaði lífríki jarðarinnar hætta af. Án koltvísýrings verður engin ljóstillífun. Trjám og plöntum yrði útrýmt, jörðin stæði eftir sem eyðimörk.
Ef menn græða á að trúa blekkingum þá trúa menn blekkingum. Carbfixið er örlítill hluti af viðskiptamódeli en segir nokkra sögu um blekkinguna að baki.
Hugmyndafræði á skjön við veruleikann gengur svo lengi sem henni er haldið uppi með valdi, fjármagni og trúarkreddum. Fyrr heldur en seinna sigrar raunheimur fantasíuna. Þeir verða margir meintir sérfræðingarnir sem endurskrifa ferilsskrána og þykjast hvergi hafa komið nærri vitleysunni sem fjármagnaði starfsframann.