Úkraína gerir Rússland að stórveldi

frettinPáll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjámsson skrifar:

Eftir kalda stríðið var Rússland afgangurinn af Sovétríkjunum. Alþjóðleg hugmyndafræði, kommúnismi (þýskur uppruni), fjötraði rússnesku þjóðarsálina. Lofaði í staðinn nýrri manngerð, sósíalíska öreiganum, er skyldi frelsa heiminn frá kapítalisma. Ævintýrið endaði út í mýri eins og aðskiljanlegir ismar gera jafnan.

Fyrsta áratuginn eftir fall Sovétríkjanna var Rússland leiksoppur vestrænu stórveldanna og auðmanna er deildu á milli sín ríkiseigum. Eftir aldamót batnaði efnahagsástandið og upplausnin hjaðnaði. En Rússland, sem hafði litið á sig sem stórveldi allt frá 19. öld og jafnvel fyrr, var hvorki fugl né fiskur. Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sagði að Rússland væri stór bensínstöð er þættist þjóðríki. Obama Bandaríkjaforseti var rausnarlegri, sagði árið 2014 Rússland héraðsveldi í Austur-Evrópu.

Úkraínudeilan var að taka á sig mynd þegar Obama skilgreindi fyrrum stórveldi sem héraðsveldi. Innlimun Rússa á Krímskaga var nýafstaðin og efnahagsþvinganir af hálfu vesturveldanna á dagskrá. Stefna vesturvelda var að beita efnahagsmætti sínum annars vegar og hins vegar byggja upp hernaðarmátt Úkraínu. Landið sem víkingar kölluðu Garðaríki skyldi verða hluti af Nató samkvæmt yfirlýsingu á leiðtogafundi Nató í Búkarest, Rúmeníu, þegar árið 2009. Úkraína var verkfærið til að beygja Rússland undir vestrænan vilja. Kreml yrði útibú Washington og Brussel.

Á meðan Úkraínudeilan gerjaðist gerðu Rússar sig gildandi við hlið Assad Sýrlandsforseta, sem Bandaríkin vildu steypa af stóli með aðstoð uppreisnarmanna. Þar prufukeyrðu Rússar herþotur, herfræði í landhernaði og stórskotalið. Lærðu nóg til að trúa að þeir ættu raunhæfa sigurmöguleika á gresjum Garðaríkis. 

Þegar Rússar gerðu innrás í Úkraínu í febrúar 2022 var vestræna handritið að Rússar lytu í lægra haldi fyrir úkraínskum baráttuvilja og Nató-vopnum. Ekki gekk það eftir. Tæpum tveim árum síðar riðar Garðaríki til falls.

Sannfæring Rússa er að þeir stríði gegn Bandaríkjunum, Evrópusambandinu og Nató, sem beita Úkraínu fyrir vagn sinn. Ef Rússland væri héraðsríki í Austur-Evrópu, líkt og Obama sagði 2014, væri sléttustríðið löngu tapað og Selenskí Úkraínuforseti búinn að hertaka Moskvu með Nató-vopnum.

En núna, í desember 2023, standa Rússar með pálmann í höndunum. Kannski er full mikið sagt að endataflið sé eitt eftir. En það stappar nærri. Afar ólíklegt er að stríðsgæfan brosi á ný til vesturs. Pútín er sigurviss á blaðamannafundi fyrir þremur dögum. Skilaboð rússneskra diplómata í kjölfarið er að friðarsamningar séu ekki á dagskrá, aðeins skilyrðislaus uppgjöf stjórnar Selenskí í Kænugarði.

Sumarsókn Úkraínuhers rann út í sandinn og verður ekki endurtekin. Austurrískur ofursti, Markús Reisner, fjallar um stríðið og á vestrænum forsendum enda kenndi hann bardagafúsum Úkraínumönnum. Í liðinni viku birti Reisner útskýringu á ósigrinum. Flestir sem reglulega fylgjast með lásu skriftina á veggnum þegar í júlí. Úkraínuher átti sinn sprett í desember og janúar í fyrra og vann tilbaka land af Rússum sem voru liðfáir, með um 200 þúsund manna her. Rússar spýttu í lófana og eru núna með 600 þúsund manna herlið. Sumarsóknin sem hófst i júní komst hvorki lönd né strönd. En vestrið er fyrst núna að játa þann kalda veruleika.

Teikn eru um að Rússland komi út úr stríðinu sem stórveldi. Rússland tekur sér stórveldastöðu með Kína sem bakhjarl. Að auki njóta Rússar velgengni á alþjóðvettvangi, sbr. Brics-samstarfið. Vesturveldin hafa ekki sama forræðið í heimsmálum og þau höfðu árin eftir kalda stríðið.

Rússneski herinn verður sá öflugasti í Evrópu, hertur í þriggja ára stríði (gefið að sléttustríðinu ljúki á næsta ár). Evrópusambandið kemur undan Úkraínustríðinu sem vanmáttug hjálenda Bandaríkjanna í hernaðarlegu tilliti. Meiri líkur en minni eru að einangrunarhyggju vaxi fiskur um hrygg vestan hafs. Staða Vestur-Evrópu yrði enn veikari. Evrópusambandið verður að finna leið að lifa með sterku Rússlandi.

Bandaríkin eru með framtíð Úkraínu í hendi sér, auk Rússa. Selenskí fór bónleiður til búðar vestur um haf fyrr í desember og fær ekki sama stuðning og áður. Vaxandi taugaveiklun er í Washington vegna forsetakosninganna næsta haust. Biden forseti sækist eftir endurnýjuðu umboði. Hann vill ekki tapa Úkraínu í miðri kosningabaráttu. Betra að semja í vetur, ekki seinna en í vor. Hinn kosturinn, að halda lífinu í Úkraínu fram yfir kosningarnar í nóvember, er þó líklegri. Þvinguð atburðarás vígvallarins gæti skipt sköpum. Úkraínski herinn gæti snúist gegn eigin stjórnvöldum. Mannfallið er skelfilegt. Til að fylla upp í skörðin sækir lögreglan í Garðaríki heim næturklúbba og þvingar gesti í herþjónustu.

Að öllum líkindum verður það fyrsta verkefni næsta Bandaríkjaforseta, sem tekur við völdum í janúar 2025, að semja við Rússland um eftirmál Úkraínustríðsins. Stórveldi hittir þar fyrir annað stórveldi. Ekki er það samkvæmt handritinu um að Úkraína yrði verkfæri til að berja Rússa til hlýðni. En það handrit var byggt á óskhyggju og draumhygli um vestræna yfirburði.

Úrslit Úkraínustríðsins móta alþjóðastjórnmál um langa hríð. Sérstaka gerð af heimsku þarf til að trúa að Ísland ætti að binda trúss sitt við þann aðila sem mestu tapar, á eftir Úkraínu. En það er vitanlega Evrópusambandið.

Skildu eftir skilaboð