Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Að þessu sinni fær Kristján Hreinsson skáld orðið. Margt sem hann segir á við um bloggara. Kennarar hafa verið duglegir að opinbera lélegan lesskilning þegar þeir tjá sig um greinar og pistla sem ég hef skrifað. Kannski ekki undra að PISA komi út eins og hún gerir hjá nemendum. Sé kennari ekki betri í lesskilningi en raun ber vitni hjá mörgum kennurum er ekki von á góðu frá nemendum.
Hin íslenska afsökun
Á árinu sem er að líða mátti ég þola meiri fúkyrðaflaum en nokkru sinni áður. Ég lærði að meta gildi sannrar vináttu og einlægrar virðingar frá fólki sem virkilega vill skilja það sem ég hef fram að færa. Samtímis varð ég fyrir margs konar aðkasti vegna skrifa minna, yfirleitt vegna þess að orð mín voru rangtúlkuð. Ég var meira að segja rekinn úr vinnu vegna þess að fulltrúar vókismans misskildu orð mín. Svo var ég endurráðinn eftir þegar skynsemin var virkjuð.
Ég hef aldrei hatað neinn en ég ögra fólki með orðum mínum og ég hef skoðanir sem eru yfirleitt allar fjöldanum til hagsbóta. Ég hef hvergi verið fordómafullur og hvergi ráðist að samtökum eða einstaklingum. Ég er sanngjarn og vil öllu fólki vel.
Margt fólk hefur kosið að misskilja mig og ákveðið að ég sé vondur maður
Misskilningur þessa fólks hefur ekki kostað mig neitt, nema það að svokölluðum vinum hefur verið ýtt út af vinalistanum. Að vísu sárnaði mér mörg að sjá óvægin ummæli. Opinberlaga var ég sagður úrhrak og sagður tilheyra dreggjum samfélagsins, ég var sagður lélegt skáld, lélegur rithöfundur og fordómafullt karlrembusvín. Hið merkilega er að öll þessi ummæli eru reist á misskilningi þeirra sem létu dómana falla. Fulltrúar rétthugsunar og vókisma telja sig vera eina fólkið sem má beita fordómum. Erfiðast og sárast þótti mér að sjá börn svokallaðra vina minna ata mig auri með orðahröngli, eftir að þetta unga fólk ákvað að misskilja orð mín. Eins tók mig sárt þegar fólk sem tengist mér heimtaði að ég eyddi myndum af síðu minni, vegna þess að þetta fólk þorir ekki að tengjast manni eins og mér.
Þessi fúkyrðaflaumur orsakaði það að 1% af svokölluðum vinum mínum hér á síðunni fengu að hverfa af vinalistanum. U.þ.b. 50 manns fengu að hverfa af listanum og síðan hafa aðrir komið í þeirra stað. Þeir sem ég hef ýtt frá hafa einnig fengið útilokun. Af því sem næst 100 einstaklingum sem sýndu mér ósvífni eða óvandaða framkomu á árinu sem er að líða hefur einungis einn, Egill Helgason, séð ástæðu til að biðjast afsökunar. Auðvitað var fyrirgefningin sjálfsögð. Hinum mun ég einnig fyrirgefa um leið og beiðnir berast.
Fólk tekur sér leyfi, það ákveður að leggja vissa merkingu í orð og síðan er eigandi orðanna dæmdur – á röngum forsendum. Þetta er hið yndislega andlit vókismans, þetta er hinn yndislegi pólitíski rétttrúnaður, þetta er hin íslenska afsökun.
Höfundur er kennari.