Orka sem kallar á orku

frettinErlent, Innlent, OrkumálLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Virkjun vindorku á sér langa sögu og á seinustu árum er búið að svo gott sem fullkomna tæknina, þ.e. þá nýtni sem hægt er að ná út úr virkjun vindorkunnar. Sjálfsagt er að reyna afla eins mikillar orku og hægt er því orka er uppspretta góðra lífskjara. Yfirvöld sem átta sig ekki á því eru mannfjandsamleg.

Þar til menn hafa áttað sig á því að kjarnorka er í raun besta leiðin til að afla orku þá hamast þeir í allskyns valkostum við hana, svo sem að virkja vind og vatnsföll, brenna kolefnisrík (eða -snauð) hráefni og bora holur í jörðina til að fá aðgang að hita og þrýstingi. Sumar tegundir orkuöflunar taka lítið pláss, en þær leiðir sem kallast endurnýjanlegar, eða sjálfbærar, taka mikið pláss. Uppistöðulón hafa lengi verið bitbein í íslenskri umræðu eða þar til þau myndast og mynda vinir í eyðirmörkum. Háspennulínurnar eru óvinsælar þótt skortur á þeim þýðir mikið af tapaðri orku - orku sem þó náðist að framleiða en kemst ekki á leiðarenda.

Inn í þessa umræðu er núna skyndilega talað um að virkja vind í stórum stíl á Íslandi. Vindorka er orka sem krefst orku - hún er ekki alltaf til staðar og þeir sem treysta á hana þurfa að njóta varaafls þegar vindurinn blæs ekki. Kannski slíkt fyrirkomulag geti þýtt að hægar gangi á uppistöðulónin, en um leið þýðir það að hvert megavatt af vindorku þarf að eiga sér hliðstæðu í stöðugri orkuuppsprettum. Þetta vita Danir sem kaupa vatnsafl af Noregi þegar er logn í Danmörku, en geta svo sent vindorku til Noregs þegar vel blæs - orku sem Norðmenn nota til að dæla vatni upp í uppistöðulónin. Norðmenn selja þannig dýrt rafmagn til Danmerkur og kaupa það svo ódýrt aftur.

Andstæðingar háspennulína hljóta að vera missa svefn þessi misserin yfir tilhugsuninni um 200-300 metra háa háværa turna sem þarf að tengja með öflugum vegum með mikið burðarþol og sem saxa sig í gegnum óbyggðirnar. Rafmagnskapla þarf svo auðvitað að grafa í jörðina til að tengja hvern einasta turn við spennuvirki.

Það eru næg tækifæri til að virkja meira vatnsafl á Íslandi með litlu raski og minniháttar mannvirkjum. Sjálfsagt er að moka frá þeim hindrunum sem yfirvöld hafa reist til að koma slíkum virkjunum á koppinn. Hið sama gildir um jarðvarma þótt menn staldri að vísu aðeins við núna þegar virk eldgosakerfi eru gerð að mikilvægum innviðum.

Mögulega er olía undir hafsbotni í landhelgi Íslands. Hana ætti að sækja.

Allt er þetta - vatnsaflið, jarðvarminn, olían - orka sem stendur undir raforkukerfi og kallar ekki á varaafl til að leysa sig af. Að ætla sér að byggja upp orkuöflun sem kallar á orkuöflun er mögulega sniðugt þegar aðstæður eru réttar og mönnum er sama um ásýnd landslagsins, en annars ekki.

Skildu eftir skilaboð