Lögregluvald, óæskilegar skoðanir og frjáls umræða

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Tjáningarfrelsið er varið í stjórnarskrá til að tryggja að opinbert vald skipti sér ekki af umræðu borgaranna. ,,Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar," er fyrsta setningin í 73.gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um tjáningarfrelsið. Síðasta efnisgreinin bannar afskipti löggjafans af frjálsri umræðu með eftirfarandi orðum:

Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Þrátt fyrir að stjórnarskráin leggi bann við að skorður séu settar á frjáls skoðanaskipti eru í gildi lög sem veita ríkisvaldinu heimild að grípa með harðri hendi inn í umræðuna og hóta borgurum allt að tveggja ára fangelsisvist hafi þeir í frammi skoðanir sem ákæruvaldið telur ekki við hæfi. Hér er átt við gr. 233 a almennra hegningarlaga. Kjarninn:

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu [...] skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Pétur Gunnlaugsson útvarpsmaður var fyrir sjö árum ákærður fyrir brot á lagagreininni. Pétur var sýknaður og sagði að dómurinn væri gott varnarskjal fyrir tjáningarfrelsið. Betur að svo hefði verið. Dómurinn varð þáverandi dómsmálaráðherra, Sigríði Andersen, tilefni að loka þeirri glufu sem var í hegningarlögum og nýtt var af hálfu ákæruvaldsins til að ákæra Pétur. Sigríður, sem nú er frambjóðandi Miðflokksins, kynnti á alþingi árið 2017 frumvarp til að koma í veg fyrir misnotkun ákæruvaldsins á gr. 233 a hegningarlaga. Í umræðu á alþingi sagði Sigríður:

Með 233. gr. a almennra hegningarlaga er gengið langt í takmörkun tjáningarfrelsisins og raunar mun lengra en nauðsyn krefur til verndar þeim hópum sem ákvæðið fjallar um fyrir því sem nefnt hefur verið hatursorðræða. Verður ekki fram hjá því litið í því sambandi að um refsiákvæði er að ræða sem getur varðað allt að tveggja ára fangelsi. Það er þess vegna sem ég legg til þá breytingu að sú háttsemi sem 233. gr. a lýsir verði einungis refsiverð að hún sé til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun. 

Breytingatillaga dómsmálaráðherra var aðeins ein setning: ,,Við 233. gr. a laganna bætist: enda sé háttsemin til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatri, ofbeldi eða mismunun." Frumvarp Sigríðar sofnaði í nefnd, varð ekki að lögum. Tillagan þótti kannski of sjálfsögð. Það þyrfti ekki að tryggja betur frjálsa tjáningu. Því miður er svo ekki.

Ákæruvaldið nýtir sér möguleikann að stefna borgurum fyrir dóm fyrir óæskilegar skoðanir. Tilfallandi var ákærður fyrir fjórum vikum fyrir brot á grein 233 a hegningarlaga. Tilefnið er andmæli við trans-áróðri Samtakanna 78 í leik- og grunnskólum. Pétur á Sögu var ákærður fyrir sama andófið fyrir sjö árum.

Ef frumvarp Sigríðar þáverandi dómsmálaráðherra hefði orðið að lögum væri annarri Sigríði, Friðjónsdóttur ríkissaksóknara, ekki stætt á að ákæra tilfallandi fyrir ranga skoðun. Nú skal þess freistað, árið 2024, að fangelsa mann í allt að tvö ár fyrir að segja álit sitt í opinberri umræðu.

Stundum virkar Ísland eins og Kjánaland í höndum aktívista.

Skildu eftir skilaboð