Haukur Hauksson skrifar frá Moskvu:
Það er langt í frá að öll kurl séu komin til grafar í tilraun hins illræmda Wagner hóps, til að ræna völdum í Rússlandi 24. júní. Þann laugardag fóru þúsundir Wagner liða í nokkrum bílalestum frá Rostov-við-Don sem er stærsta borg S-Rússlands, í átt að Moskvu, gráir fyrir járnum. Áfangastaður var varnarmálaráðuneyti landsins og skyldi setja á nýjan varnarmálaráðherra. Rússland var á barmi borgarastyrjaldar en með samningaumleitunum tókst Alexander Lúkashenko, forseta Hvíta-Rússlands, að bera klæði á vopnin með símtölum við æðstu menn Kremlar og Yevgeny Prigozhín, foringja uppreisnarmanna sem var á leið til höfuðborgarinnar. Prigozhín er nú í Hvíta-Rússlandi, þar sem hann er, allavega að sinni, í „pólitískri útlegð“. Lúkashenko hefur ótvírætt styrkt stöðu sína og er hann sigurvegarinn, eins og staðan er nú, hvernig mál þróast í Moskvu er óljóst.
Hvað átti sér stað
Þennan laugardag, miðsumars árið 2023, má sannarlega segja að heimurinn hafði staðið á öndinni og beðið þróunar, hvernig þessir ótrúlegu atburðir sem áttu sér stað á milli Rostov og Moskvu myndu enda; í algeru blóðbaði á milli rússneskra herja á rússnesku landssvæði eða lausn findinst á málum.
Prigozhín sem er áhrifamikill milljarðamæringur, sakaði varnarmálaráðuneyti Rússlands um að hafa gert árás á menn sína föstudagskvöld 23. júní, þar sem þeir voru í herbúðum sínum og áttu sér einskis ills von. Wagnermenn birtu nokkuð óljóst myndband þessu til staðfestingar en ekki er hægt að segja til eða frá um hvað er þar á seyði. Prigozhín hefur áður ásakað varnarmálaráðherra Rússlands, Sergey Shoigu, um að leggja stein í götu sína, þannig segir hann að skipun frá Moskvu hafi valdið því í Sýrlandi í febrúar 2018 að bandaríski flugherinn hafi gert árás á Wagnerliða og drepið tugi ef ekki hundruð; Moskva hafi, að ásettu ráði þagað um að þarna væri Wagner á ferð og hið háa herráð varnarmálaráðuneytis Rússlands hafi viljað losna við öflugan keppinaut. Lengi hefur rígur verið þarna á milli en steininn hafi tekið úr þegar Shoigu hafi komið því til leiðar að frá 1. júlí yrði Wagner lagt niður með lagasetningu og menn hefðu tækifæri til að undirrita samning við varnarmálaráðuneytið og ganga í stjórnarherinn.
Persónur og leikendur
Opinberlega var Wagner stofnað árið 2014 af Yevgeny Prigozhin en maðurinn bakvið tjöldin er Dmitry Útkin, herforingi úr GRU, leyniþjónustu hersins en hann stofnaði áður „Sveit slava“ („slavjansky korpus“) en þar hafði Útkin viðurnefnið Wagner, vegna tónlistarsmekks síns og virðingar gagnvart þýska stórtónskáldinu Richard von Wagner, sem reyndar var afar virtur í Þýskalandi fyrrihluta 20. aldar. Útkin er sagður rússneksur þjóðernissinni.
Valdabarátta
Alexander Dúgín sagnfræðingur og heimsspekingur, segir að mikil valdabarátta eigi sér stað í Moskvu og spáir því að enn meiri átök verði innan Kremlar; kostirnir séu tveir: að Pútín hreinsi vel til innan valdablokkarinnar og haldi hernaðinum áfram til enda eða að annað og öflugra valdarán verði með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir Rússland og heiminn allan.
Hér neðar má sjá myndband frá valdaránstilrauninni: