Hið nýja tungumál

frettinGeir Ágústsson, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Fyrir einhverjum áratugum var gerð tilraun. Nýtt tungumál var búið til frá grunni og hugmyndin sú að ef allir lærðu það gætu allir talað saman þvert á heimshluta. Hið nýja tungumál, esperanto, náði engu flugi. Fólk vildi tala sitt eigið tungumál jafnvel þótt það væri flókið og troðfullt af óskiljanlegum tilvísunum í fyrri venjur og siði og jafnvel þótt það þýddi erfiðleika á ferðalögum.

Í dag á svipuð tilraun sér stað. Það á að breyta tungumálinu og hreinsa það af hinni gömlu synd að kynin séu tvö og að manneskja sé annaðhvort karl eða kona - hann eða hún.

Gott og vel. Það er um að gera að styðja frumkvöðlastarf þótt gjaldþrotið blasi við. Hér er því mitt framlag í þá vinnu, gjaldfrjálst.

Lýst er eftir tillögum að eftirfarandi nýyrðum:

amma — ? — afi (kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra)
Orðin afi og amma vísa til foreldra foreldra út frá kyni þeirra. Hvaða sambærilega nafnorð getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?

Hugmyndir:

 • Amlóð, hvorugkynsmynd af orðinu amlóði, þ.e. maður sem hefur lítinn dug og þol (til að segja barni sínu að hætta að uppnefna sig og bara kalla sig afa eða ömmu barnabarna sinna)
 • Resk, sem nafnorðsmynd sagnorðsins reskjast, og ætti að lýsa ágætlega þeirri hugmynd að ömmur og afar eru bara gamalt og visið fólk sem má svipta ömmu- og afa-titlum sínum 
 • Arfbyrði, sem afbrigði af orðinu arfberi, og hefur þann tvöfalda tilgang að lýsa ömmum og öfum sem arfberfum en um leið sem byrði á samfélaginu enda eru ömmur og afar væntanlega að flækjast fyrir afskræmingu tungumálsins

kk. — ? — kvk. (skammstöfun fyrir kynsegin)
Skammstafanirnar kk. og kvk. vísa til karlkyns og kvenkyns. Hk. vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Hvaða skammstöfun dettur þér í hug sem vísar til kynsegin?

 • Huliðskyns, einnig skammstafað hk., sem lýsir því ágætlega að enginn veit hvað er í gangi og hvernig á að ávarpa viðkomandi eða umgangast.
 • Hvergikyns, einnig skammstafað hk., sem lýsir því ágætlega að um leið og maður taldi sig þekkja kyn viðkomandi þá er það horfið og birtist dag einn að nýju, mögulega breytt, áður en það hverfur aftur
 • xx, sem almenn lýsing á vandamáli þar sem þarf að finna fyrir hvað x stendur.

sú — ? — sá (kynhlutlaust ábendingarfornafn í eintölu)

Ábendingarfornöfnin sá (þann-þeim-þess) og sú (þá-þeirri-þeirrar) vísa til karlkyns og kvenkyns. Fornafnið það vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Því þarf ábendingarfornafn sem hægt er að nota um kynsegin fólk og jafnframt er hægt að nota um fólk sem við vitum ekki kynið á. Nokkur dæmi um notkun ábendingarfornafna:

Sú / ___ / sá sem skorar flest mörk vinnur.
Sú er góð með sig / ___ er gott með sig / Sá er góður með sig

Hvaða ábendingarfornafn getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?

 • er mín hugmynd. Þetta er tökuorð og vísar til enska orðsins so, sem þýðir í ákveðnu samhengi „og hvað með það eða hvaða máli skiptir það. Sem dæmi um notkun:
  Af hvaða kyni er Siggi úr Grafarvogi í dag?
  Só.
  Annað dæmi:
  „Só er gott með sóg.“ (Færeyingar telja sjálfsagt að hérna sé verið að tala þeirra tungu)
 • Það (skýring óþarfi)

femme

Orðið femme er stytting á enska orðinu feminine og er notað til að lýsa kyntjáningu einstaklinga en einnig þeim einstaklingum sem fólk laðast að. Hugtakið felur í sér ákveðinn skilning á hvað telst vera ‚kvenlegt‘ í samfélaginu, oftast miðað við hefðbundnar kynjaímyndir. Það geta öll verið femme óháð kynvitund og sömuleiðis geta öll laðast að femme einstaklingum, óháð kynhneigð. Hvaða íslenska lýsingarorð dettur þér í hug yfir femme?

Hérna þarf í alvöru að byrja á að svara spurningunni: What is a woman? Þegar það hefur tekist er hægt að leggja eitthvað til.

Ég ætla ekki að leggja í orðin masc og allosexual að þessu sinni enda er erfitt að búa til tungumál sem enginn notar, en ég óska frumkvöðlunum velgengni í starfi sínu og vona að opinberir styrkir nýtist vel við það.

Skildu eftir skilaboð