Jón Magnússon skrifar:
Sérkennilegt að talsmenn verkalýðsins skuli ekki gagnrýna alþjóða ofurkapítalismann fyrir að nota reglur um frjálsa för verkafólks eingöngu til að þjóna skammtímahagsmunum og auðhyggju hinna skammsýnu.
Fjórfrelsi Evrópusambandsins: Frjáls flutningur á vörum, fjármunum, þjónustu og fólki. Vörur eru hlutir, fjármagn eru peningar, þjónusta eru aðgerðir, en fólk er allt annað og ólíkt. Fólk eru vitsmunaverur, bundið eigin menningu, tilfinningum, afstöðu, hegðunarmynstri og þjóðfélagssýn o.s.frv.
Frjáls för er sett í Evrópusáttmálann til að þjóna hagsmunum stórfyrirtækja til að geta meðhöndlað vinnuaflið eins og hráefni og flytja það fram og til baka og halda launakjörum niðri, en um leið að búa til lágstétt innflytjenda og aðra lágstétt velferðarfarþega, sem telur það ekki þess virði að vinna láglaunatörfin sem lágstétt innflytjenda vinnur.
Hin hliðin á peningnum er sú, að með því að flytja hæfasta fólkið frá þróunarríkjunum eða fátæku löndunum, er verið að taka frá þeim mestu verðmætin, mannauðinn, sem þessi ríki gætu byggt framfarasókn sína á.
Ofurfyrirtæki glóbalismans í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu hafa átölulaust flutt verksmiðjur og framleiðslufyrirtæki frá Evrópu og Ameríku, þar sem verkalýðurinn hefur náð góðum réttindum og starfskjörum. Vel launuð vinna er tekin frá hinum vinnandi stéttum í Evrópu og Bandaríkjunum til að flytja þau til ríkja þar sem réttindi hinna vinnandi stétta eru engin og launakjör vísa til nútíma þrælahalds.
Verkalýðshreyfingin og stjórnmálamenn Vesturlanda hafa látið þetta yfir sig ganga og brugðist gjörsamlega. Það veldur þeim ekki vökunum á Davos fundum hinna ofurríku og stjórnmálamanna í þjónustu þeirra. Þar ræða menn um að koma í veg fyrir að venjulegt fólk geti ferðast í sumarleyfinu sínu vegna meintrar hnattrænnar hlýnunar á sama tíma og Davos furstarnir koma á fundinn á um þúsund einkaþotum.
Verkalýðshreyfingin virðist ekki hugsa um annað en kjarasamninga í krónum og aurum, en horfir ekki til langtímamarkmiða. Stjórnmálastéttin hefur brugðist alla þessa öld og raunar lengur, þar hefur auðhyggjan ráðið öllu, en siðræn gildi og virðingin fyrir einstaklingnum vikið algjörlega nema viðkomandi sé auðmaður og skiptir þá ekki máli hvernig auðurinn er tilkominn.
Mammon spyr bara um hvað þú átt mikla peninga ólíkt hinum kristilegu og siðrænu gildum þar sem glaðst er yfir velgengni fólks þegar það hefur unnið til þess á heiðarlegan hátt.