Skoðanakúgun BBC og RÚV

frettinFjölmiðlar, Páll Vilhjálmsson, Pistlar2 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins, BBC, sat við hlið yfirmanns Coutts banka í kvöldverðaboði daginn áður en viðskiptaritstjórinn skrifaði fréttatíst um bankinn hefði lokað reikningum Nigel Farage. Forsætisráðherra Bretlands gagnrýnir samstarf viðskiptabanka og ríkisútvarpsins að knésetja mann með ,,rangar" skoðanir.

Í viðtengdri frétt er haft eftir Farage

þetta mál snýst ekki bara um mig. Þú gæt­ir verið næst­ur...ef ekki er brugðist við þá för­um við hægt og ró­lega inn í fé­lags­legt skipu­lag líkt og rík­ir í Kína, þar sem bara þeir sem hafa „rétt­ar“ skoðanir geta tekið full­an þátt í sam­fé­lag­inu.

Ríkisútvarp er nærtækur samstarfsaðili valdhafa sem telja sig hafa réttar skoðanir. RÚV er til dæmis í samstarfi við starfshóp vinstrimanna í stjórnarráðinu um ,,réttar skoðanir" á málefnum flóttafólks. 

RÚV á að vera fjölmiðill sem endurspeglar þjóðfélagslega umræðu hér á landi. En RÚV birtir ekki sjónarmið sem t.d. Heiðar Guðjóns­son, fjár­fest­ir og fyrr­ver­andi for­stjóri talar fyrir:

Rík­is­stjórn­in er hálf­gert rekald og það er al­ger­lega stefnu­laust. Þannig að stór mál sem skipta okk­ur máli, eins og ís­lensk tunga og menn­ing og hvernig þetta fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag mun hafa áhrif á okk­ar sam­fé­lag og breyta því var­an­lega og hugs­an­lega óaft­ur­kræft. Hvaða skoðun höf­um við á því?

Margir hafa tekið í sama streng og Heiðar síðustu vikur og mánuði, að verið sé að skipta um þjóð í landinu og það sé fyrst og fremst höfundarverk vinstrimanna.

En RÚV þaggar umræðuna, lætur eins og hún sé ekki til. Skýringuna er að finna í fundargerð stjórnar RÚV. Þar segir útvarpsstjóri, Stefán Einríkisson:

Fulltrúar RÚV áttu fund með starfshópi stjórnvalda um málefni innflytjenda og flóttafólks, en nú er unnið að heildarstefnumótun stjórnvalda á því sviði.

Vinstrimenn í stjórnarráðinu þykjast hafa rétta skoðun á þeirri þróun að Íslendingar tapa jafnt og þétt tungumáli sínu og menningu. Samstarfsaðili vinstrimanna er auðvitað ríkisfjölmiðillinn, RÚV, sem skipulega kemur í veg fyrir að sjónarmið Heiðars Guðjónssonar og margra fleiri komist á framfæri. RÚV er framkvæmdavald pólitíska rétttrúnaðarins í opinberri umræðu. Fundargerðin staðfestir það svart á hvítu.

Valdaöfl réttra skoðana nota ríkisútvarp til að framfylgja skoðanakúgun. Gildir bæði í Bretlandi og á Íslandi. 

2 Comments on “Skoðanakúgun BBC og RÚV”

  1. RUV á fyrst og fremst að segja fréttir ekki búa þær til eða skreita til að þóknast ákveðnum öflum!

    RUV kolfalla á þessu prófi ásamt öllum hinum stóru miðlunum Visir, DV, MBL og Heimildin. Allir þessir miðlar eru að búa til sömu fréttirnar nánast orðrétt í sama stíl.

  2. Það á að loka þessari skítabúllu RUV. Afar illa farið með almanna fé hjá þessu batterýi, það var notað hér áður fyrr að þetta væri svo mikið öryggisatriði að hafa gufuna, hver eru rökin í dag? Afar þreittur og slakur fréttaflutningur, afar slakir þættir og annað rusl sem heldur betur má missa sín.

Skildu eftir skilaboð