Jón Magnússon skrifar:
Fréttastofa RÚV er ein lélegasta fréttastofa Evrópu. Fréttir af heimsviðburðum eru takmarkaðar og fréttaskýringar iðulega litaðar pólitískum áróðri og/eða vanþekkingu.
Tvennum fréttum sinnir fréttastofan þó af mikilli alúð en það eru fréttir af eldgosinu, sem fréttastofan gerir vel og áróður um ofurhita í suðurhluta Evrópu,en sérstakur þáttur er um þessi atriði dag hvern.
Sagt er að um 60 þúsund manns muni deyja úr hita í Evrópu á þessu ári. Ekki er sagt frá því að um 200 þúsund manns deyja úr kulda í Evrópu á ári hverju. Ekki er gerð grein fyrir því að nú er í gangi veðurfyrirbrigðið El Nino í Kyrrahafi, sem veldur miklum átökum í veðri um allan heim og hugsanlega þeim staðbundnu hlýindum sem nú er í Evrópu. Ekki er stuðst við sambærilegar mælingar ári til árs o.s.frv. Allt þetta veldur því að þessar fréttir eru áróður fyrir meintri hnattrænni hlýnun af mannavöldum í stað þess að vera hlutlæg fréttamennska.
Hve lengi ætla alþingismenn að láta það viðgangast að fólk sé neytt til að borga til áróðursmiðstöðvar RÚV við Efstaleiti. Frjálsir borgarar hljóta að krefjast þess að fá að nýta þá fjölmiðla sem þeir vilja og borga fyrir það, en séu ekki neyddir til að borga fyrir fjölmiðil, sem er orðin að þjóðmálahreyfingu og lítur á hlutverk sitt sem slíkt.