Páll Vilhjálmsson skrifar:
Íhaldsflokkurinn breski gekk í björg hamfarahlýnunar undir forystu fráfarandi formanns, Boris Johnson. Dísil- og bensínbílar skyldu bannaðir frá og með 2030, eftir sjö ár. Íþyngjandi regluverk var sett á húsnæði, bæði nýtt og gamalt, til að hamla gróðurhúsaáhrifum.
Kjósendur kaupa ekki lengur hugmyndafræðina um manngerða hamfarahlýnun og refsa Íhaldsflokknum í aukakosningum. Daginn eftir stórtap stíga ráðherrar fram og segja trúlega höfum við gengið of langt í hamfaratrúnni.
Léleg hugmyndafræði leiðir í ógöngur. Hamfarahlýnun vegna manngerðs koltvísýrings er ruglfræði. Litla eldgosið á Reykjanesi framleiðir daglega jafn mikinn koltvísýring og allt íslenska hagkerfið. Hagkerfið losar um 17 þús. tonn daglega af koltvísýringi en eldgosið allt að 15 þús. tonn daglega. Óvirkar eldstöðvar, t.d. Katla, losa um 12 til 24 þús. tonn daglega. Töluvert meira en allt hagkerfið hér á landi.
Náttúruleg losun koltvísýrings er ekki á dagskrá hugmyndafræði hamfarahlýnunar, aðeins manngerð. Ástæðan er einföld. Ekki er hægt að skattleggja náttúruna og hún lýtur ekki regluverki hins opinbera. Hagkerfið er á hinn bóginn að stórum hluta undir náð og miskunn stjórnvalda.
Stjórnmálmenn, bæði til hægri og vinstri, tóku hugmyndafræði hamfarahlýnunar tveim höndum. Það auðveldar atkvæðaveiðar að þykjast bjarga heiminum samtímis sem yfirvofandi hætta réttlætir að ríkið sé ofan í hvers manns koppi. En það kemur að skuldadögum. Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis, loftslagsmáltíðin verður æ dýrkeyptari.