Wagner liðar sýna Póllandi áhuga

frettinPáll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Eftir meinta valdaránstilraun í Rússlandi söðlaði málaliðaherinn kenndur við þýska tónskáldið Wagner um og hélt til Hvíta-Rússlands, - með blessun rússneskra yfirvalda. Nú segir forseti Hvíta-Rússlands, Lúkasjenkó, að hann eigi erfitt með að halda aftur af áhuga Wagner-liða á Póllandi.

Pólland er Nató-ríki. Þriðja heimsstyrjöld brytist út ef rússneskur málaliðaher herjaði á Pólland. Lúkasjenkó talar í hálfkæringi um innrás í Pólland. Gamanið er grátt enda liður í sálfræðihernaði stjórnvalda í Varsjá annars vegar og hins vegar Pútín forseta í Kreml.

Löngu er vitað um áhuga Pólverja á vesturhluta Úkraínu, sem fyrrum var pólskt land. Í lok seinna stríðs, eftir sigur á Þjóðverjum, færði Stalín leiðtogi Sovétríkjanna pólsku landamærin í vestur, á kostnað Þýskalands, og hirti í staðinn Austur-Pólland undir Sovétríkin/Úkraínu.

Pútin minnti um daginn Pólverja á tilfærslur Stalíns. Þeim pólsku var ekki skemmt.

Vestur-Úkraína er til umræðu þar sem Austur-Úkraína fellur Rússum í skaut innan tíðar. Gagnsókn úkraínska hersins í Saparosjía gerir sig ekki, landvinningar eru litlir en mannfall mikið. Í Donbass er það rússneski herinn sem sækir fram. Þeir sem gerst þekkja til segja rússneskan sigur í kortunum, jafnvel þeir sem hlynntastir eru málstað Úkraínu.

Jake Sullivan er sá maður í bandaríska stjórnkerfinu sem hvað mest lætur til sín taka í Úkraínustríðinu. Hann viðurkennir að sókn úkraínska hersins gangi fremur hægt en minnir á að meginher stjórnarinnar í Kænugarði sé enn ekki kominn að víglínunni. Sókn Úkraínu hófst 4. júní. Ef meginherinn er enn í hvíldarstöðu tæpum tveim mánuðum síðar, þegar hvorki gengur né rekur á vígvellinum, er herfræðin sérstök, svo ekki sé meira sagt. Sókn á sannfæringar skilar litlu.

Aukin spenna milli Póllands annars vegar og hins vegar Hvíta-Rússlands og Rússlands gefur sterklega til kynna að Austur-Úkraína sé vestrinu búið spil. Afgangurinn af landinu, Vestur-Úkraína, sé komin á matseðilinn. Umræða um áhuga Wagner á Póllandi er í raun spursmál um hvað verði um afganginn af Úkraínu eftir rússneskan sigur í austri.

Pólland dansar línudans, vill vesturhéruð Úkraínu en án þess að hleypa af stað þriðju heimsstyrjöldinni. Lúkasjenkó og Pútín taka þátt í leiknum og vekja athygli á að Varsjá sé aðeins í 100 kílómetra fjarlægð frá landamærunum. Stalín var þaulæfður að draga landamæri með herfræði í huga.

Skildu eftir skilaboð