Geir Ágústsson skrifar:
Það er alltaf gott að læra eitthvað nýtt en í heimi áróðurs og villandi upplýsinga (í boði fjölmiðla, hagsmunasamtaka og stjórnmálamanna) þarf stundum að aflæra. Ekki gleyma heldur skipta út röngum upplýsingum fyrir réttar upplýsingar.
Sú leið sem ég kýs að nota til að aflæra er að lesa eða hlusta á bækur. Bækur hafa nægt rými til að kafa djúpt, taka fyrir margar hliðar málsins og koma áleiðis boðskap á skipulagðan hátt í samhangandi flæði.
Þessa dagana hljómar í eyrum mínum á hjóla- og göngutúrum mínum bókin Flase Alarm - How Climate Change Panic Costs Us Trillions, Hurts the Poor, and Faile to Fix the Planet, eftir Bjørn Lomborg. Lomborg þessi trúir því að mannkynið sé með athöfnum sínum að hita upp jörðina, að líkön sem spá slíku séu áreiðanleg og að þetta sé alvarlegt mál. En hann les líka skýrslurnar og rannsóknirnar og ber saman við meðhöndlun blaða- og stjórnmálamanna á niðurstöðum þeirra. Hann getur rakið hvernig rannsókn sem sýnir ekki fram á neitt alvarlegt er tekin og sveigð og beygð til að segja að heimurinn sé að farast. Þetta gildir um fellibyli, þurrka, flóð, dauðsföll (vegna loftslags og veðurs), skemmda (vegna loftslags og veðurs), ástand jökla og ísbjarna og margt fleira. Hann bendir ítrekað á að við stefnum í að eyða svimandi fjárhæðum sem gera mjög lítið gagn í stað þess að eyða minna í eitthvað sem skilar betri lausnum.
Þetta er mjög góð bók til að aflæra loftslagsáróðurinn eins og hann birtist okkur í tímaritum og dagblöðum. Hún hentar ágætlega þeim sem trúa á öll líkönin en vilja ekki endilega míga í sig af hræðslu vegna meðhöndlunar blaðamanna á niðurstöðum þeirra en þeir sem tortryggja líkönin fá líka mikið fyrir sinn snúð.
Önnur bók til að aflæra loftslagsáróðurinn, en tekur aðeins aðra nálgun, er Fossil Future: Why Global Human Flourishing Requires More Oil, Coal, and Natural Gas - Not Less. Þar eru líkönin tekin fyrir líka en í auknum mæli bent á hvernig þeim hefur mistekist að spá nokkru nothæfu. Punkturinn sem bókin hamrar fyrst og fremst á er að notkun jarðefnaeldsneytis, og sú losun á koltvísýringi sem fylgir henni, er okkur og náttúrunni og lífríkinu lífsnauðsynleg. Orðað öðruvísi: Takmörkun á slíkri notkun er banvæn.
Við erum að sólunda miklum verðmætum í ímyndaða ógn sem finnst ekki nema í líkönum. Þegar þau spá einhverju rétt þá er það af röngum ástæðum - hálfgerð tilviljun. Við gætum allt eins valið sem ráðgjafa nýjustu vinningshafana í lottó - þeir spáðu jú rétt fyrir um tölurnar!
Eigum við ekki líka að undirbúa okkur fyrir innrás geimvera? Risavaxinn loftstein? Uppvakninga? Útþenslu sólarinnar? Auðvitað ekki. Næg eru raunverulegu vandamálin samt.
En til að sjá þau þarf að aflæra.