Kvikmynd, veira og blaðamenn

frettinGeir Ágústsson, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Eftir sýningarhelgina 21.-23. júlí leit listinn yfir vinsælustu kvikmyndirnar í bandarískum kvikmyndahúsum svona út:

  • 1. Barbie

Vikur í sýningu: 1
Heildartekjur: 287 mUSD

  • 2. Oppenheimer

Vikur í sýningu: 1
Heildartekjur: 141 mUSD

  • 3. Sound of Freedom

Vikur í sýningu: 3
Heildartekjur: 141 mUSD

  • 4. Mission Impossible

Vikur í sýningu: 2
Heildartekjur: 131 mUSD

  • 5. Indiana Jones

Vikur í sýningu: 4
Heildartekjur: 164 mUSD

Tekur þú eftir einhverju athyglisverðu? Mögulega því að ein mynd á listanum er gestum í norrænum kvikmyndahúsum að öllu óþekkt? Kannski rætist úr því enda er myndin með mjög háa einkunn á IMDB og mjög hátt hlutfall jákvæðra umfjallana á Rotten Tomatoes. Myndin byggist á sannsögulegum atburðum þar sem börnum er bjargað úr ánauð úr höndum illræmdra glæpamanna.

Barnarán og ánauð barna er sennilega það allra sorglegasta fyrirbæri sem finnst á okkar plánetu og allir því væntanlega sammála um að það sé gott að vekja athygli á því.

Kannski má skrifa fjarveru þessarar kvikmyndar í norrænum kvikmyndahúsum á smæð markaðarins og því að lítill og sjálfstæður dreifingaraðili er einfaldlega að einbeita sér að stærri mörkuðum. Kannski rætist úr því með tíð og tíma. Það er a.m.k. ljóst að kvikmynd sem ýtir sjálfum Indiana Jones úr sessi og rígheldur í risastóra framleiðslu eins og Mission Impossible á erindi við áhorfendur og gæti skilað sýningaraðilum vænum skilding í veskið.

Sem sagt: Allra hagur að vekja athygli á sorglegu fyrirbæri sem því miður er útbreitt um allan heim og eyðileggur líf fjölda barna. Og hafa af því svolitlar tekjur í leiðinni.

En nóg af leiðinlegum útskýringum.

Kvikmyndin Sound of Freedom var tilbúin frá framleiðenda árið 2018. Hún lenti síðan í höndum Disney sem sat á henni, af einhverjum ástæðum, þar til lítið fyrirtæki keypti sýningarréttinn og hefur í kjölfarið fengið framleiðslukostnaðinn margfalt til baka. Í millitíðinni voru stofnuð samtök sem vilja meina að barnaránin séu fjármögnuð af vellauðugum barnaníðingum í efstu lögum samfélagsins. Menn eins og Donald Trump hafa kinkað kolli yfir slíkum vangaveltum. Er myndin talin þessum barnaníðingum óþægileg? Sumir telja það. Er þá verið að reyna hindra dreifingu hennar með markvissum hætti? Sumir segja það.

Og yfir öllum þessum vangaveltum eru blaðamenn umfram allt uppteknir af. Ekki kvikmyndinni. Ekki þeirri hræðilegu staðreynd að börnum er rænt og þau seld í ánauð. Ekki því að samtök eru að berjast gegn þessari hræðilegu starfsemi, oft með því að leggja líf og limi bjargvættanna í hættu í baráttunni við harðsvíraða glæpamenn.

Nei, blaðamenn, sem eru yfirgnæfandi heilaþvegnir bergmálshellar ráðandi afla, hafa engan áhuga á því.

Þeir hafa áhyggjur af því að vera sammála einhverju sem Donald Trump er sammála, jafnvel þótt skoðun Trump sé bara það: Skoðun Trump.

Það er það eina sem skiptir þá máli, ótrúlegt en satt. Sjá til dæmis umfjöllun RÚVog VOX.

Tökum alveg hreint ótrúlega setningu úr umfjöllun RÚV (sem á fjölmörgum köflum er eins og þýdd upp úr texta VOX þótt hún sé skrifuð á íslenskan höfund):

QAnon er aldrei nefnt í myndinni, aðstandendur hennar hafa vísað öllum þessum ásökunum á bug og kvikmyndahúsagestur sem New York Times ræddi við sagðist bara vilja sjá góðan spennutrylli. Caviezel [aðalleikarinn] hefur hins vegar talað máli QAnon í kynningarviðtölum ...

Þarna höfum við það. Maður lék í mynd sem var tilbúin fyrir mörgum árum. Síðar eru stofnuð samtök. Leikarinn tekur undir málflutning þeirra samtaka. Og RÚV kýs að nota orðalagið „hins vegar“ til að líma saman einhver samtök, Donald Trump og kvikmynd um sannarlega hræðilegt og raunverulegt fyrirbæri í samfélagi manna.

Svona hegðuðu blaðamenn sér líka á veirutímum. Ef Trump vildi þróa sprautu gegn veiru þá var það hættuspil. Þegar Trump var farinn og réttur maður kominn í stólinn þér snéru blaðamenn algjörlega við blaðinu og vildu sprauta sem hraðast og sem fyrst. Og vilja enn.

Núna leggja blaðamenn sig fram um að tala niður kvikmynd um málefni sem ég tel að allir hljóti að vera sammála um að sé mikilvægt og áríðandi. Kvikmynd sem þeir hafa jafnvel ekki séð og virðast greinilega vera ólíklegir til að kynna sér nánar og treysta bara á að sínar helstu uppsprettur efnis (og skoðana) í útlöndum segi heilagan sannleikann.

Ég vona að dreifingaraðilar kvikmyndar fái bráðum áhuga á Norðurlöndunum og komi henni í dreifingu þar. Ég mun forgangsraða myndinni langt umfram skáldskap og tölvubrellur. Það þarf að styðja við óháða framleiðendur sem afhjúpa myrkasta skítinn undir gólffjölum samfélagsins, og þá sérstaklega í ljósi þess að blaðamenn hafa engan áhuga á honum. 

Skildu eftir skilaboð