Vísindi, ýkjur og vinsældir

frettinLoftslagsmál, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Óopinbert leyndarmál er að vísindi þrífast á vinsældum. Án vinsælda er erfitt að fá fjármang í rannsóknir. Vísindi eru að stórum hluta ritrýndar greinar í fagtímaritum.

Tvær meginleiðir eru til vinsælda. Í fyrsta lagi að fá tilvitnun í sína grein frá öðrum vísindamönnum. Í öðru lagi að meginstraumsfjölmiðlar gerir frétt úr rannsóknaniðurstöðum.

Helkuldi á norðurslóðum er boðaður innan tveggja ára í vísindagrein í Nature, sem þykir virt fagrit, og verður að uppslætti í fjölmiðlum, samanber viðtengda frétt.

Ráðandi frásögn af veðri er að hamfarahiti sé handan við hornið, en ekki manndrápskuldi. Hitamet slegið á Norður-Atlantshafi, segir tveggja daga gömul frétt.

Talsmenn ráðandi frásagnar eru líka fljótir að slá út af borðinu vísindagrein sem boðar langvinnt kuldakast. Breska veðurstofan, sem er í herbúðum þeirra sem trúa á manngerða hlýnun, gaf út yfirlýsingu um að kuldagreinin i Nature væri ekki góð vísindi. Álíka og kaþólska kirkjan gerði á miðöldum þegar einhverjum varð á í messunni og trúði röngu.

Ýkjurnar þarf að samræma, til að ráðandi frásögn haldi vatni og skaffar peninga í rannsóknir og stöðuveitingar. Manngerðar hitabylgjur er kennisetningin. Til að hún virki þarf samræmt göngulag handhafa rétttrúnaðarins.

Þumalfingursregla fyrir leikmenn sem lesa vísindi sér til ánægju og skemmtunar er að taka fremur mark á gömlum vísindamönnum en þeim yngri. Gamlingjarnir nenna ekki vinsældakapphlaupi metnaðarfullu ungmenanna sem vilja breyta heiminum með tískuvísindi að vopni.

Tilfallandi vitnar stundum til manna eins og Judith Curry, William Happer, Richard Lindzen, John Christy og Roy Spencer. Allt fólk á eftirlaunaaldri er lætur sér fátt um finnast bernskar ýkjur og veraldarbrölt aðgerðasinna á öllum aldri. Vísindi eru þekking í huga þeirra gamalreyndu en ekki verkfæri til valda og áhrifa í samfélagi líðandi stundar.

Einn til er Svíinn Lennart Bengtsson. Hann segir að eftir hundrað ár tali enginn lengur um veðrið í samhengi við loftslagsvá. Þangað til skemmtum við okkur yfir ýkjuvísindum með trúarívafi.

Skildu eftir skilaboð