Fréttamaður RÚV gerir lítið úr kynlífsþrælkun barna

frettinFjölmiðlar, Innlent, Krossgötur1 Comment

Erling Óskar Kristjánsson skrifar:

Sjálfstæða stórmyndin Sound of Freedom hefur vakið mikla athygli í sumar vegna sigurfarar sinnar um bandarísk kvikmyndahús. Hefur hún þénað 150 milljónir Bandaríkjadollara á fjórum vikum þrátt fyrir að hafa aðeins kostað 15 milljónir í framleiðslu, vera gefin út af óreyndum litlum kvikmyndaframleiðanda, og vera í samkeppni við margfalt dýrari og betur markaðsettar Hollywood myndir sem hafa komið út á færibandi undanfarnar vikur. Það er gífurlega sjaldgæft að sjálfstæðar myndir nái árangri sem þessum.

Myndin segir sanna sögu af fyrrverandi leyniþjónustumanninum Tim Ballard, sem vann við að elta uppi barnaníðinga í Bandaríkjunum, en sagði starfi sínu lausu til að stofna samtök sem berjast við alþjóðlega mansalshringi og bjarga börnum úr klóm kynlífsþrælkunariðnaðarins. Langflestir áhorfendur myndarinnar virðast vera sammála um að hér sé á ferðinni glæsileg og vel leikin spennumynd sem heldur fólki vel við efnið á sama tíma og hún vekur það til umhugsunar um alvarlegt og mikilvægt samfélagsmein. Þannig gegnir myndin tilgangi sínum, en það var draumur framleiðenda að vekja athygli á þessari illsku, sameina fólk og hrinda af stað fjöldahreyfingu sem gæti barist við og fundið lausn á þessu vandamáli, sem er mun stærra en flestir gera sér grein fyrir.

Maður hefði haldið að mynd sem þessi yrði óumdeild og fengi góðar móttökur frá öllum þeim sem eru á móti mansali og kynlífsþrælkun barna. Það er hins vegar ekki raunin. Ýmsir fjölmiðlar hafa nefnilega sett sig upp á móti henni og reynt að koma í veg fyrir að myndin nái vinsældum með því að gera myndina og viðfangsefni hennar að pólitísku ágreiningsmáli. Nýlega féll RÚV í þessa sömu gryfju þegar það birti frétt sem fjallaði lítið sem ekkert um myndina sjálfa og viðfangsefni hennar, en setti þess í stað fram samsæriskenningar um tengsl myndarinnar við Donald Trump og QAnon-hreyfinguna svokölluðu, sem urðu aðal viðfangsefni fréttarinnar.

RÚV hefði mátt kynna sér viðfangsefnið betur og komist að því að myndin er ópólitísk og hefur ekkert með QAnon og Donald Trump að gera. Atburðarásin sem er sett fram í myndinni átti sér stað árið 2014 og handritið var tilbúið árið 2015, fyrir framboð Trumps til forseta og tilkomu QAnon. Kvikmyndatakan fór fram sumarið 2018en QAnon fór varla að gera vart við sig fyrr en síðla þess sumars og hreyfingin komst ekki á skrið fyrr en á næstu tveimur árum. Eins og RÚV segir trúa fylgismenn QAnon „því að heiminum sé stýrt af djöfladýrkandi barnaníðingum úr röðum Demókrata, djúpríkisins og Hollywood,“ en myndin fjallar um frelsun kvenna og barna úr höndum glæpahrings í frumskógi Kólumbíu. Tengsl myndarinnar við QAnon er því lítið annað en samsæriskenning, nema RÚV sé á þeirri skoðun að öll barátta við barnaníð sé einhvern veginn tengd QAnon.

Ljósmynd úr frétt RÚV um Sound of Freedom. Ljósmyndin tengist kvikmyndinni ekki með neinum hætti.

Einu hugsanlegu tengslin sem fjölmiðlar virðast geta bent á eru að einhver sem tengist myndinni hafi sagt eitthvað í viðtölum mörgum árum eftir að hún var gerð. Jafnvel þótt rétt reyndist að einhver þeirra væri tengdur QAnon, þýðir það ekki að myndin sé það – hvað þá að það réttlæti þessa atlögu að henni. Væri ekki réttara að styðja við allt gott sem gert er í þágu barna, sama hver geri það?

Maður veltir því fyrir sér hvers vegna erlendir miðlar hafi sett sig upp á móti þessari mynd:

  • Telja þeir að allt sem Trump og QAnon styðji hljóti að vera af hinu illa? (Hefðu þeir brugðist öðruvísi við ef Joe Biden og Antifa/BLM hefðu lýst yfir stuðningi við myndina?) Hatar sumt fólk Donald Trump meira en það hatar mansal og kynlífsþrælkun barna?
  • Eru sumir erlendir miðlar það tengdir Hollywood og hinum hefðbundna ameríska/alþjóðlega auglýsinga- og markaðssetningariðnaði að þeir setji sig upp á móti öllum kvikmyndum sem ögri markaðsráðandi stöðu þeirra?

Fellur RÚV í þessa sömu gryfju af sömu ástæðum eða apa þeir einfaldlega allt upp eftir erlendum miðlum sem þeir halda að séu áreiðanlegir vegna þess að þeir séu „stórir og rótgrónir“? (Þótt þeir séu í raun hlutdrægir áróðursmiðlar.)

Finnst þeim fréttamanni RÚV sem skrifaði greinina það sem fram í henni kemur virkilega vera fréttnæmt? Finnst honum rétt að taka þátt í þessari ófrægingarherferð til að minnka líkur á að fólk vilji sjá myndina og meðtaki boðskap hennar? Eða gerist hann í hugsunarleysi sínu málpípa einhvers sem hann skortir skilning á? Hver svo sem hvatningin er fyrir skrifum hans eru áhrifin þau sömu.

Gera fjölmiðlar sér ekki grein fyrir því hve illa það lætur þá líta út þegar þeir gera atlögu að kvikmynd sem ætlað er að vekja athygli á og berjast gegn mansali og kynlífsþrælkun barna? Er það ekki einmitt þessi hegðun sem fær fólk til að aðhyllast samsæriskenningar á borð við þessa frá QAnon: Að heiminum – og fjölmiðlum – sé stýrt af djöfladýrkandi barnaníðingum?

Ef djöfullinn væri til, og hann vildi valda eins miklum skaða og hann mögulega gæti, myndi hann gera eitthvað eins djöfulegt og mansal og kynlífsþrælkun barna að pólitísku ágreiningsefni. Þannig kæmi hann í veg fyrir að fólk myndi sameinast gegn þessari illsku. Fólk ætti því að hugsa sig um tvisvar áður en það lánar rödd sína slíkri orðræðu, hvort sem það er trúað eður ei.

RÚV greinir frá því að íslensk kvikmyndahús hafi ekki fengið svör við fyrirspurnum sínum frá dreifingaraðila myndarinnar. Það er mikið álag á þessum litla aðila við að sinna eftirspurn vestanhafs og ólíklegt að hann hafi bolmagn til að sinna svona stórum verkefnum. Þó er myndin komin á dagskrá í Bretlandi, Írlandi, Spáni, Ástralíu, Suður-Afríku og Suður-Ameríku. Dreifingaraðili segist svara fyrirspurnum eins fljótt og auðið er, og að nýjum löndum sé bætt á lista vikulega. Við Íslendingar verðum því bara að bíða þolinmóðir.

Kvikmyndin Sound of Freedom veitir okkur einstakt tækifæri til að ræða mansal og kynlífsþrælkun barna, og huga að því hvernig megi útrýma slíkum glæpum. Með því að sniðganga viðfangsefni myndarinnar og velta sér þess í stað upp úr samsæriskenningum gerði fréttamaður RÚV lítið úr þessu samfélagsmeini. Fjórum dögum áður en RÚV birti frétt sína um QAnon og Trump, furðaði ég mig á því að það ríkti dauðaþögn í íslenskum fjölmiðlum um myndina og afrek hennar. Nú velti ég því fyrir mér hvort þeir hefðu betur þagað áfram.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 1.8.2023

One Comment on “Fréttamaður RÚV gerir lítið úr kynlífsþrælkun barna”

  1. Heiminum er að miklu leyti stjórnað ag djöfladyrjandi satanistum, það er alltaf að koma betur og betur i ljós

Skildu eftir skilaboð