Páll Vilhjálmsson skrifar:
Spilltir fjölmiðlar, með RÚV í fararbroddi, hafa samfellt í áratug hamrað á spillingu í sjávarútvegi. Seðlabankamálið, Namibíumálið, Sjólamálið og skæruliðadeildin eru stikkorð í raðfréttalygi RÚV og samstarfsmiðla frá 2012.
Skálduð spilling er hvergi til nema í hugarheimi fréttamanna á ríkislaunum að segja ósatt. Seðlabankamálið fór fyrir öll dómsstig, engin spilling. Namibíumálið leiddi ekki einu sinni til ákæru. Sjólamálið var fellt niður eftir 12 ára málarekstur. Engin spilling. Í skæruliðamálinu kom á daginn að fréttamenn misþyrmdu andlega veikri konu, sem að undirlagi fjölmiðla byrlaði Páli skipstjóra Steingrímssyni, stal síma hans og færði blaðamönnum til afritunar. Spillingin var öll hjá blaðamönnum.
Inn í spilltan heim fjölmiðla stígur Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og lætur gera fyrir sig skoðanakönnun um heiðarleika í sjávarútvegi. Sigri hrósandi skrifar Svandís innlegg í Morgunblaðið
Sérstaka athygli vakti að mikill meirihluti almennings telur íslenskan sjávarútveg spilltan, raunar taldi einungis einn af hverjum sex landsmönnum sjávarútveg vera heiðarlegan.
Hvaðan fá landsmenn upplýsingar um spillingu í sjávarútvegi? Jú, vitanlega úr fjölmiðlum. Svandís er enginn fáráðlingur. Hún er önnur kynslóð af stjórnmálamönnum sem kunna að nýta sér spillta fjölmiðla, er segja hvítt svart.
Vilji Svandís uppræta spillingu ætti hún að byrja á RÚV.