Jón Magnússon skrifar:
Haustið 2005 birtust teikningar af Múhammeð spámanni í danska blaðinu Jótlandspóstinum. Nokkur Íslömsk ríki brugðust ókvæða við og stóðu fyrir refsiaðgerðum gegn Dönum. Þess var krafist að bannað yrði að teikna eða birta myndir af spámanninum og teiknaranum og ritstjórn blaðsins refsað.
Ander Fogh Rasmussen sem var forsætisráðherra neitaði að mæta á fund með fulltrúum 11 Íslamskra ríkja til að ræða málið og biðjast afsökunar á teikningunum. Anders Fogh sagði að þetta kæmi stjórnvöldum ekki við, það væri tjáningarfrelsi í Danmörku. Það eiga Íslamistar erfitt með að skilja. Mótmælin fjöruðu út og Danmörk átti hrós skilið og fékk það fyrir að standa með grunngildum sínum gegn Íslamska ofbeldinu.
Að undanförnu hafa nokkrir flóttamenn frá Íslömskum ríkjum staðið fyrir því að rífa Kóraninn og/eða brenna fyrir framan sendiráð nokkurra íslamskra ríkja í Danmörku og Svíþjóð. Samtök 57 íslamskra ríkja krefjast þess, að þetta verði bannað og hóta hefndaraðgerðum gegn Svíþjóð og Danmörku.
Því miður er nú enginn Andres Fogh til að standa með tjáningarfrelsinu og þeir Lars Lökke Rasmussen í Danmörku og Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía bregðast við með undirlægjuhætti til að þóknast Íslamistunum.
Við megum hvergi hvika gagnvart íslamska ofbeldinu og þurfum að sýna það einarðlega að við stöndum með okkar gildum og mannréttindum. Jafnvel þó við séum ekki sammála því sem flóttamennirnir frá íslamska ofbeldinu eru að gera, þá megum við ekki bregðast okkar grunngildum. Aldrei að víkja.
Við eigum aldrei að hvika vegna ofbeldishótanna þursaríkja. Það er meira en nóg komið af þjónkun við þessa óværu.