Eftir Þórarinn Hjartarson:
Til að heyja stríð þarf að sverta óvinina og þvo vinina – í nútíð og fortíð. Frásögnin um baksvið stríðsins er hluti af stríðinu sjálfu.
Eins og fjallað var um í fyrri greinum hefur Alþingi Íslendinga gerst aðili að fjölþjóðlegu átaki um að skilgreina hungursneyðina í Úkraínu 1933 sem „hópmorð“ eða þjóðarmorð (alþjóðlega orðið er genocide), og með því „brugðist við ákalli“ frá Úkraínu. Formaður utanríkismálanefndar, Bjarni Jónsson, fór til Kiev í febrúar síðastliðinn að hitta Volodimír Zelenskí forseta sem „lagði áherslu á málið við Bjarna“. Kominn heim úr ferðinni sagði Bjarni í blaðaviðtali: „Það var ánægjulegt að geta sagt frá því að búið væri að mæla fyrir málinu á Alþingi Íslendinga“. Og mánuði síðar var hægt að staðfesta þessa yfirlýsingu íslensku þjóðarsamkundunnar.
Fjölþjóðlega átakið um að skilgreina „Holodomor“ sem þjóðarmorð fór á skrið eftir alllangt hlé frá og með innrásinni í Úkraínu í febrúar 2022. Að Íslandi meðtöldu hefur sú skilgreining nú verið viðurkennd af 32 ríkjum og þjóðþingum. Þátttakan er tvískipt eftir tímalínu: nærri helmingur ríkjanna ályktaði í þessa veru árin 2006-2008 og hinn helmingurinn eftir febrúar 2022. Það kom fram í fyrstu grein okkar að umræddur stimpill væri þessi misserin fyrst og fremst yfirlýsing og stöðutaka í geopólitík samtímans, þ.e.a.s. í Úkraínudeilunni.
En átakið um „Holodomor“ myndar þó miklu þrengri ríkjahóp en þann hóp ríkja sem fordæmdi innrás Rússa í Úkraínu. Aðildarríki SÞ eru alls 193, og 32 er lítið hlutfall af því. Það er áhugavert að skoða samsetningu þess ríkjahóps hvers þjóðþing hefur ályktað sérstaklega um hungrið í Úkraínu sem „þjóðarmorð“. Uppistöðuna í hópnum mynda annars vegar Bandaríkin og Kanada en hins vegar eru það Evrópuríki gamla Varsjárbandalagsins, þau eru öll með (nema Albanía sem var reyndar líka stutt í Varsjárbandalaginu). Það er þar sem andrússneskir straumar eru sterkastir. Hjá þeim elítum sem tóku völd í Austur-Evrópu eftir 1990 var andkommúnisminn alveg ríkjandi jafnframt því sem þjóðernishyggjan þar var og er fyrst og fremst andrússnesk. Þar að auki var fylgisspektin við Bandaríkin þar líka mest, eins og sjá mátti til dæmis á „bandalagi hinna viljugu“ í aðdraganda og upphafi Íraksstríðsins 2003.
Með í fjölþjóðlega átakinu um „Holodomor“, fyrir utan umræddan kjarna, er nærri helmingur Vestur-Evrópuríkja. Ekkert Norðurlandanna nema Ísland er þó þar með. En þess ber að geta að Evrópuþingið ályktaði í sömu veru í desember 2022. Þar að auki: Ástralía er með. Lítill minnihluti Suður-Ameríkuríkja er með. Ekkert Afríkuríki er með, né heldur neitt Asíuríki.
Átakið um „Holodomor“ og hreyfingin um „tvötalt þjóðarmorð“
Átakið um „Holodomor“ sem þjóðarmorð er hluti af stærra dæmi. Átakið er nátengt hreyfingu um söguendurskoðun sem einnig er ættuð frá Austur-Evrópu, sögutúlkun sem kennd er við „tvöfalt þjóðarmorð“. Það er hreyfing um það að meta að jöfnu nasisma og kommúnisma. Hreyfingin metur að jöfnu Helförina gegn gyðingum og hins vegar kúgun Sovétmanna á grönnum sínum á tímanum kringum Seinni heimsstyrjöldina. Sérstaklega endurskoðar hreyfingin þá viðteknu sagnfræði að Þýskaland hafi eitt verið upphafsaðili Seinni heimsstyrjaldarinnar en segir Þýskaland og Sovétríkin bera ábyrgðina á stríðinu sameiginlega.
Hreyfing þessi um söguskoðun varð til í áföngum. Hún mun fyrst hafa rutt sér til rúms í Litháen á 10. áratug. Sem fjölþjóðlegt átak byrjaði hún með sk. Prag-yfirlýsingu í júní 2008, yfirlýsingu sem kallaði eftir „fordæmingu á og uppfræðslu um glæpi kommúnismans“. Í sviðsljósinu í kringum þá yfirlýsingu voru einna helst Vaclav Havel fyrrverandi forseti Tékklands, Vytautas Landsbergis fyrsti forseti sjálfstæðs Litháen 1990 og hinn austurþýski Joachim Gauck seinna forseti Þýskalands.
Sýnilegasti ávöxtur af starfi Prag-hópsins var ákall um „Evrópskan minningardag um fórnarlömb stalínisma og nasisma“ sem halda skyldi 23. ágúst á afmæli griðarsamnings Hitlers og Stalíns frá 1939. Mikill áfangi fyrir hreyfinguna varð þegar sá dagur var viðtekinn sem slíkur „minningardagur“ af Evrópuþinginu í apríl 2009, og Jerzy Buzek hinn pólski forseti Evrópuþingsins, lýsti þá griðarsamningnum sem „samráði tveggja verstu tegunda alræðis í sögu mannkynsins.“ Um Prag-yfirlýsinguna sjá hér.
En í þessum fyrrverandi Sovétblokkar-löndum urðu minningardagar um „alræði“ mjög einhliða minningardagar um fórnarlömb kommúnisma. Í góðri grein um „tvöföldu þjóðarmorðs-kenninguna“ skrifar Wikipedia: …“mörg ríki eftirsovét-tímans, sérstaklega Eystrasaltslönd, byggðu minnismerki til heiðurs fórnarlömbum sovésks hernáms en heiðruðu um leið látna samverkamenn nasista“. Það sem sérstaklega varð tilefni til gagnrýni á kenninguna um „tvöfalda þjóðarmorðið“ í þessum löndum var veruleg tilhneiging hennar til gyðingaandúðar þar sem gyðingaofsóknir í tengslum við framrás fasistaherjanna 1941, ofsóknir með mjög virkri þátttöku heimamanna, voru skýrðar sem viðbrögð við sovéskri kúgun vegna stuðnings margra gyðinga við hana.
Hvað Úkraínu snertir hefur hún sitt mikilvæga framlag til kenningarinnar um „tvöfalt þjóðarmorð“ og það er einmitt kenningin um Holodomor: kenningin um „þjóðaramorð gegn úkraínsku þjóðinni“ sem varð helsti burðarbjálki í þjóðbyggingarpólitík þeirra þjóðernisafla sem komu til valda í „Appelsínugu byltingunni“ í Úkraínu 2004, þ.e. Júsénko & co (og hafa aftur völd eftir valdaránið 2014). Sú þjóðbygging gekk og gengur út á að rækta skipulega sameiginlega þjóðarminningu um harmleik Úkraínu, Holodomor, liður í því að þjappa Úkraínumönnum saman um ákveðna sjálfsmynd, myndina af þjóðinni sem fórnarlambi illra, utanaðkomandi afla, bolsévíka og þar með óbeint – Rússa. Um þetta fjölluðum við nánar í fyrstu grein.
Og þó að kenningin um Holodomor sem þjóðarmorð sé fyrst og fremst þróuð til að móta úkraínska þjóðarvitund er hún líka seljanleg útflutningsvara og mjög nýtileg til að byggja upp rússaandúð í alþjóðapólitík. Fjölþjóðlega átakið um Holodomor sem þjóðarmorð fór á flug á stjórnarárum Júsénkós, 2005-2010, tók svo hlé en fór aftur á flug árið 2022, eins og áður segir.
Smávegis um pólska drauma
Einna virkastir fulltrúar hreyfingarinnar um „tvöfalt þjóðarmorð“ eru Pólverjar. Í Póllandi nær rússaandúðin hámarki í Evrópu, bæði sem verkfæri í þjóðernislegri innanlandspólitík (og þjóðbyggingarpólitík) og sem útflutningsvara. En þá er þess að geta að Pólland er ekki eingöngu saklaust fórnarlamb, sem hefur þjáðst undir kúgun stóra bróður i austri, eins og Pólverjar kjósa að gefa myndina af sér, mynd sem er að hluta til sannleikanum samkvæm. Heldur hefur í Póllandi lengi lifað, og lifir enn, afturhaldssamur þjóðrembudraumur um Stór-Pólland, sérstaklega draumurinn að endurvekja samveldið Pólland-Litháen, sem frá síðmiðöldum sem átti í langvinnum stríðum, einkum við Rússland (hélt t.d. Moskvu í umsátri 1370) og vann stór landsvæði í Úkraínu, Rússlandi og Hvítrússlandi. Á glansdögum samveldisins Pólland-Litháen teygðist það frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og kallaðist því á latínu Intermarium (milli hafa), og innihélt nær alla Úkraínu, fyrir utan Donbas.
Rauði þráðurinn í hinum fornfálega pólska þjóðrembingi er rússaandúðin, og rússgrýlan – m.a. sagan um „tvöfalt þjóðarmorð“ – er líka sú óvinamynd sem stórveldisdraumurinn um Intermarium nærist á.
Það voru talsmenn Stór-Póllands sem leiddu land sitt inn í innrásar- og borgarastríðið í Sovét-Rússlandi 1919. Lloyd George og Lord Curzon (breski forsætis- og utanrikisráðherrann) reyndu það ár að þvinga Pólverja til að semja um sk. Curzon-línu sem austurlandamæri sín, af því línan fylgdi pólskum þjóðernismörkum. En Pólverjarnir vildu meira og hrifsuðu til sín stór úkraínsk og hvítrússnesk svæði frá Sovét-Rússlandi árið 1920. Pilsudski, pólski einræðisherra millistríðsáranna, hélt á loft sem sinni konungshugsun draumnum um endurreisn samveldisns Intermarium undir pólskri forustu. En í september 1939 misstu Pólverjar tilbaka úkraínsku og hvítrússnesku svæðin í heild sinni til Sovétríkjanna. Sovétmenn námu þá staðar einmitt á Curzonlínunni.
Pilsudski einræðisherra boðaði Intermarium-stefnuna alla sína valdatíð (nær samfellt 1918-1935), og núverandi valdhafar Póllands, Flokkur laga og réttlætis, heiðra hann sem þjóðhetju og landsföður – og þeir halda aftur á loft þessum draumi hans. „Hins vegar á pólitíska sviðinu sjáum við endukomu Intermarium í Póllandi. Helstu talsmenn Intermarium eru Andrei Duda forseti og Flokkur laga og réttlætis (PiS) sem hefur stjórn á bæði framkvæmdavaldi og löggjafavaldi,“ skrifar Ksenia Szelachowska doktor við Polish Academy of Sciences.
Eftir innrás Rússa í Úkraínu hafa pólskir ráðamenn talað hærra um þennan draum, þar sem segja mætti að Úkraína hafi yfirtekið mikilvægi Litháens í framtíðarsamveldinu. Pólski forsetinn Andrei Duda hefur sagt: „Það munu ekki verða nein landamæri milli Póllands og Úkraínu.“
En það er ekki nóg að eiga sér drauma. Pólverjar geta ekki orðið stórveldi á eigin spýtur. Þeir þurfa sér sterkari verndara. Slikur verndari er bara í vestri. Pólland er Bandaríkjunum eftirlátara en öll önnur ríki í Evrópu. Pólsk stjórnvöld höfðu í áraraðir beðið, eiginlega krafið, Bandaríkin um fasta herstöð í Póllandi, og Biden lét það eftir þeim 2022. Hið áhrifamikla tímarit Foreign Policy (í eigu Washington Post) skrifaði í vor, „It’s Time to Bring Back the Polish-Lithuanian Union.“ Þar segir:
„Imagine instead that, at the end of the war, Poland and Ukraine form a common federal or confederal state, merging their foreign and defense policies and bringing Ukraine into the EU and NATO almost instantly…. For the United States and Western Europe, the union would be a permanent way of securing Europe’s eastern flank from Russian aggression.“
Miðað við gang Úkraínustríðsins er ekki líklegt að Úkraína sem heild skipi sér í eina fylkingu né aðra í náinni framtíð. En að Vestur-Úkraína renni í staðinn inn í Pólland-Litháen einhverrar tegundar er þá líklega næsti valkostur.
Evrópuþingið: Nasistar og Sovétmenn deili ábyrgðinni á heimsstyrjöldinni
Hreyfingin um „tvöfalt þjóðarmorð“ hefur þróast í jafnari takti en átakið um Holodomor. Í september 2019, þegar liðin voru 80 ár frá upphafi Seinna stríðs, samþykkti Evrópuþingið í Brussel þann 19. september „Ályktun um mikilvægi evrópskra minninga fyrir framtíð Evrópu.“ Ályktunin gekk skrefi lengra en áður hafði verið gert í því að gera Sovétríkin og Þýskaland Hitlers sameiginlega ábyrg fyrir Síðari heimsstyrjöldinni. Þarna segir að griðarsamningurinn og leynilegar bókanir hans „skiptu Evrópu og landsvæðum fullvalda ríkja á milli þessara alræðisstjórna og gerðu þau að áhrifasvæðum, sem opnaði leiðina að styrjöldinni.“
Þetta eru sláandi yfirlýsingar Evrópuþingsins af ýmsum ástæðum. Þegar herferðin kennd við Barbarossa hófst inn í Sovétríkin 1941 var allt meginland Evrópu „sameinað“ undir fasísku og nasísku yfirvaldi (undantekningarnar voru tvær, Sviss og Svíþjóð). Sovétmenn börðust nær einir við þessa ófreskju þrjú næstu ár og brutu á henni hrygginn áður en veruleg hjálp barst.
Sem áður segir á hreyfingin um „tvöfalt þjóðarmorð“ upphaf á gamla áhrifasvæði Sovétríkjanna. Þá ber að hafa í huga: Fyrir utan Sovétríkin var Pólland eina landið í Austur-Evrópu sem háði stríð við Þýskaland Hitlers. Í öllum löndum Austur-Evrópu sátu hálffasískar hægrieinræðisstjórnir (einnig í Póllandi). Árið 1941 voru sum landanna óvirk gagnvart Operasjon Barbarossa. Önnur lönd og herir þeirra tóku virkan þátt í austurherförinni miklu, Rúmenia, Finnland, Ungverjaland, Króatía, Slóvakía. Hvað Eystrasaltslöndin varðar má t.d. lesa í Wikipedíu: „Estrasaltslöndin, nýlega innlimuð í Sovétríkin með ógnunum, valdi og blekkingum tóku almennt þýsku herjunum fagnandi þegar þeir komu inn yfir landamærin.“
Í stuttu máli voru það Sovétmenn sem frelsuðu Evrópu undan fasismanum/nasismanum, sem álfan annars hefði orðið að þjást undir á komandi áratugum. Þetta kostaði þá 27 milljón mannslíf. Það tók tíma fyrir Evrópu að þakka fyrir sig, en hún gerði það að lokum, einfaldlega með því að kenna Sovétmönnum um stríðið sjálft. Ég læt nægja hér og nú að vísa í grein sem birt var hér á síðunni sem svar við umræddri ályktun Evrópuþingsins árið 2019.
Timothy Snyder
Sérlegur sagnfræðingur „tvöfalda þjóðarmorðsins“ á Vesturlöndum er Timothy Snyder. Meginframlag hans í því efni er bókin Bloodlands frá 2010. Fyrsti kaflinn er um Holodomor. Kenninguna um „tvöfalt þjoðarmorð“ hefur hann notað kappsamlega sem vopn í skrifum sínum, skrifum um söguna og skrifum um samtímann. Strax eftir innlimun Pútíns á Krímskaga 2014 líkti Snyder því við innlimun Hitlers á Austurríki eða Súdetahéruð Tékkóslóvakíu. Í annari grein nokkrum vikum síðar skrifaði Snyder: um griðarsamning Stalíns við Hitler:
„Stalín áleit að bandalag við Hitler, þ.e.a.s. samvinna við evrópska öfgahægrið, væri lykillinn að því að eyðileggja Evrópu. Þýsk-sovéskt bandalag, taldi hann, myndi snúa Þýskalandi gegn vestrænum nágrönnum þess og leiða til veikingar eða jafnvel tortímingar evrópsks kapítalisma. Þetta er ekki ólíkt vissum útreikningum Pútíns nú á dögum.“
Það er stíll Snyders að sveifla á loft samlíkingum og fullyrðingum og skapa rétt hugrenningatengsl. Eins og til dæmis á þennan hátt: Stalín var árásaraðili hliðstæður Hitler, og Pútín heldur áfram því sama í dag. Pútín er því Hitler okkar daga. Sögutúlkunin er liður í hernaði dagsins í dag.
Kenningin um tvöfalt þjóðarmorð heldur því fram að Sovétríkin hafi rekið sömu útþenslustefnu og Hitler. Að hernám Eystrasaltsrikja og austurhéraða Póllands 1940 og 1939 (sem hvort tveggja tilheyrði Rússlandi 20 árum fyrr) hafi verið sambærilegt við hernað og útþenslustefnu Þjóðverja í Síðari heimsstyrjöldinni. Að jafna þessu tvennu saman er liður í að djöfulgera Sovétríkin, og óbeint – Rússland nútímans. Eins og kenningin um Holodomor þjónar því sama.
Bandera-isminn á stríðsárunum
En kenningin um „tvöfalt þjóðarmorð“ gegnir fleiri hlutverkum en að djöfulgera Rússland. Annað hlutverk sem hún tekur að sér er að skýra og réttlæta gerðir úkraínskra öfgaþjóðernissinna árið 1941 og næstu ár á eftir. Samkvæmt „tvöföldu“ kenningunni voru misgjörðir þeirra fyrst og fremst viðbrögð við glæpum Stalíns og Moskvuvaldsins (ekki síst viðbrögð við „ásetningsmorðunum“ Holodomor) og skiljanleg í því ljósi. Þessi sögutúlkun er áríðandi nú til dags af því öfgaþjóðernissinnar heimsstyrjaldaráranna eru sögulegar fyrirmyndir stórs hluta ríkjandi þjóðernisafla í Úkraínu nútímans. Og þar sem úkraínsk þjóðernisstefna er nú um stundir strategískur bandamaður NATO er þessi sögulegi „þvottur“ afar brýnn og áríðandi fyrir NATO-blokkina líka.
Heimsvaldasinnar hafa löngum notað þjóðernislegar andstæður sér til framdráttar. Til að sigra andstæðinga, kynda undir ófriði og vinna ný lönd vinna þeir gjarnan með útvöldum þjóðernisöflum á viðkomandi svæði. Hitler var meðvitaður og klókur heimsvaldasinni að því leyti. Hann notaði Ustasja hreyfinguna í Króatíu þegar hann lagði undir sig Júgóslavíu, hann notaði sömuleiðis fasísku/nasísku hreyfinguna OUN í Úkraínu í stríði sínu við Sovétríkin. Á þeim tíma, og æ síðan, hefur stór hluti úkraínskra þjóðernisafla skipað sér á ysta hægri væng stjórnmála.
OUN-hreyfingin (Organisation of Ukrainian Nationalists) og hernaðararmur hennar UPA gegndu meginhlutverki sem samverkamenn nasista á styrjaldarárunum síðari, undir forustu Stepan Bandera, Jaroslav Stetsko o.a. Hreyfingin tók mjög virkan þátt í bardögunum við sovéska herinn og fjöldamorðum í Sovétríkjunum í samvinnu við Þjóðverja, einkum í vestanverðri Úkraínu, en stundaði einnig þjóðernishreinsanir á eigin vegum, gegn gyðingum, Rússum, Pólverjum o.fl. Af þeim síðastnefndu slátruðu UPA varðliðar 100 þúsund almennum borgurum í bænum Volhynia 1943.
Forseti Ísraels, Reuven Rivlin, heimsótti Úkraínu 2016 og talaði yfir þinginu í Kiev á 75 ára afmæli gyðingamorðanna í Babi Jar (sem er í Kiev):
„Um 1,5 milljón gyðingar voru drepnir á landsvæði núverandi Úkraínu í Seinni heimsstyrjöldinni, við Babi Jar og miklu víðar. Þeir voru drepnir í skógunum, nærri skurðum og svo ýtt ofan í fjöldagrafir. Margir samverkamennirnir sem sem framkvæmdu þessi illvirki voru Úkraínumenn, meðlimir OUN hvað alræmdastir og framkvæmdu pógróm [opinberar refsiofsóknir] og fjöldamorð á gyðingum, eða afhentu þá Þjóðverjum.“
Um kenninguna um „tvöfalt þjóðarmorð“ segir Dovid Katz prófessor í Litháen – einn helsti sérfræðingur heims um sögu gyðinga í Eystrasaltslöndum og um Helförina og jafnframt ritstjóri ritsins DefendingHistory.com – að kenningin stuðli að því að flækja og gera lítið úr Helförinni:
„Fræðimaðurinn Dovid Katz sér kenninguna um tvöfalt þjóðarmorð sem aðferð til að flækja helfararspurninguna, sem eina tegund helfararafneitunar þar sem í stað þess að afneita tilvist hennar er dregið úr vægi hennar með því að samlíkja henni við glæpi á miklu minni skala.“
Að þvo og nýta öfgahægrið
Hernaðarbandalagið NATO tekur virkan þátt í sögulegri endurskoðun í anda kenningarinnar um tvöfalda þjóðarmorðið. Árið 2017 lét NATO framleiða og dreifa stuttmynd um hetjulega baráttu skæruliðanna Forest Brothers gegn sovéskum her í skógum allra þriggja Eystrasaltslanda. En myndin sleppti því alveg að geta þess að mikill hluti hersveitanna höfðu tilheyrt Waffen SS-sveitunum í Eistlandi og Lettlandi. Um þetta segir áðurnefndur Dovid Katz:
„Með því að látast ekki sjá dýrkun á Hitlerssinnuðum öflum í Austur-Evrópu.. fer NATO yfir þá línu að bjóða upp á siðferðilega réttlætingu á nasistaöflum eins og lettnesku Waffen SS… [sem er] ógæfuleg tillátssemi við austur-evrópska öfgaþjóðernishyggju, söguendurskoðun og felur Helförina í reyk.“
Víkjum sögunni aftur til Úkraínu. Í nýrri andrússneskri baráttu á 21. öld bregður svo við að úkraínsk þjóðernisöfl tengja sig í miklum mæli við hina brúnu „þjóðernislegu“ arfleifð frá heimsstyrjaldarárunum. Stepan Bandera var gerður að „þjóðhetju Úkraínu“ af hinum evrópusinnaða og hægriþjóðernissinnaða Júsjenkó forseta árið 2010. Þeirri ákvörun var snúið við af eftirmanni hans Janukovitsj sem svo var steypt árið 2014. Eftir valdaránið voru banderistarnir frá heimsstyrjaldarárunum á ný leiddir inn í hina úkraínsku heiðurshöll. Þingið í Kiev samþykkti í apríl 2015 að banna öll minnismerki um kommúníska fortíð landsins, en sama samkunda hins vegar „viðurkennir að móðgun við baráttumennina fyrir sjálfstæði Úkraínu á 20. öld er lítilsvirðing við úkraínsku þjóðina og er ólögleg“. Þarna var vísað til þeirrar baráttu þar sem OUN var fremst í flokki. Árið 2017 gerði ríkisstjórn Úkraínu síðan stofndag UPA, hernaðararms OUN, 14. október, að „þjóðlegum minningardegi um úkraínska andspyrnu“.
Og enn hélt hylling hins brúna arfs áfram þegar fæðingardagur Stephan Bandera var gerður að opinberum „þjóðlegum minningardegi“ árið 2018. Eftir 2014 hafa ótt og títt verið reistar styttur og minnismerki um Stephan Bandera, Roman Sjukhevitsj og fleiri nasistasamverkamenn frá Operasjón Barbarossa vítt um Úkraínu, götur skírðar eftir þeim (s.s. Bandera Avenue í Kiev) og frímerki prentuð þeim til heiðurs.
Samkvæmt bandaríska strategistanum Brzezinski ræður staða og sjálfstæði Úkraínu því hvort Rússland er veikt og meðfærilegt Rússland (sbr. Jeltsíntímann) eða nær að vera „voldugt heimsveldi sem spannar Evrópu og Asíu“ (The Grand Chessboard, 1997). Bandarískir heimsvaldasinnar hafa lengi séð gagnsemi úkraínskrar þjóðernishyggju fyrir sín áform. Strax eftir stofnun CIA 1947 hófst náið samstarf við OUN í leynilegri fjölhliða baráttu gegn Sovétríkjunum. Samvinna CIA og breska MI6 við úkraínska fasista og þjóðernissinna hefur verið órofa síðan. Not heimsvaldasinna af hægriöfgahópum Úkraínu færðust svo á nýtt stig 2014 þegar þeir gegndu lykilhlutverki í CIA-skipulögðu Maidanvaldaráninu.
Og ekki síður gegndu hægriöfgahóparnir lykilhlutverki í hernaðinum gegn aðskilnaðarhéruðunum í Donbas frá 2014. Þegar Donbashéruðin sögðu sig úr lögum við Kiev og neituðu að hlýða nýrri valdaránsstjórn var úkraínski herinn afar veikur, ca. 6000 manna her. Og hersveitirnar voru almennt duglitlar í því að beita vopnunum gegn eigin landsmönnum. Útkoman var sú að úkraínski herinn fór hreinlega halloka í viðskiptunum við hersveitir aðskilnaðarsinna. Við þær kringumstæður fengu öfgahægriöflin sögulegt hlutverk. Nú var beinn hernaður kominn á dágskrá. Þá var safnað saman fólki úr ýmsum pólitískum öfgahópum hægrisins og stofnaðar hersveitir, Azov-herdeildirnar. Það sem sameinaði þær var fyrst og fremst einbeitt rússaandúð og arfurinn frá OUN og UPA.
Azov herdeildirnar voru skömmu síðar teknar inn í úkraínska þjóðvarðliðið og hinar vopnuðu sveitir Úkraínu (ekki fastaherinn). Þær höfðu enga bakþanka með að skjóta á samlanda sína, rússneskumælandi fólk í austurhéruðunum, og héldu því áfram þó samið væri um frið í Minsk 2014 og 2015. Þar með var komið í gang staðgengilsstríðið við Rússland sem hefur síðan magnast stig af stigi. Azov-sveitirnar „aðhyllast nýnasíska hugmyndafræði“ segir Wikipedía. Þær tilheyra ekki fastahernum en hafa haft frjálsar hendur, notið verndar frá æðstu stöðvum og þannig haft ótrúlega sterka áhrifastöðu miðað við takmarkað fylgi öfgahægrisins í kosningum. þjóðernishreyfingum
Vestrænar málpípur hreyfingarinnar um „tvöfalt þjóðarmorð“ hafa tekið þann pól í hæðina að gera sem minnst úr áhrifum hægri öfgaflokka í landinu. Snyder kemur með eftirfarandi fullyrðingu (í þýðingu Egils Helgasonar) sem er órafjarri öllum raunveruleika: „Hægri öfgaflokkar hafa sem sagt nokkurn stuðning í Úkraínu – en hann er samt minni en í flestum ríkjum Evrópusambandsins.“
Heimsvaldasinnar hafa umfaðmað kenninguna um „tvöfalt þjóðarmorð“. Hugsun þeirra með því er í fyrsta lagi sú að taka ábyrgð nasismans á seinni heimsstyrjöldinni, deila henni í tvennt og skipta á milli Þjóðverja og Sovétmanna jafnt – og djöfulegera Rússa um leið. Í öðru lagi er hugsunin sú að taka hina brúnu arfleifð frá fjórða og fimmta áratug aldarinnar sem leið, þvo hana vel og nota svo áfram í nýju köldu og heitu stríði – af því úkraískir þjóðernissinnar, bæði hægri og öfgahægri, eru ekki bara taktískir bandamenn „okkar“ í þessu lykillandi (í því verkefni að koma Rússlandi á kné) heldur strategískir bandamenn, eins og áður segir.
Hitler var ekki eini heimsvaldasinninn sem var slyngur í að beita þjóðernisöflum og sérstaklega hægriþjóðernissinnum til framdráttar sínum heimsvaldamálstað. Vestrænir heimsvaldasinnar dagsins í dag eru ennþá iðnari við það. Í þeim tilgangi beita þeir sagnfræðinni af miklum móð. Þetta hefur þeim gengið nokkuð vel, í því að herða helstu bandamennina (NATO-löndin) til stuðnings við stríðsreksturinn og í því að keyra Úkraínu lengra út í katastrófuna. Andstríðsbaráttuna er því alveg nauðsynlegt í að heyja á sagnfræðisviðinu líka.
Greinin birtist fyrst á Neistar 3.8.2023
4 Comments on “„Holodomor“ og „tvöfalt þjóðarmorð“”
Það eru góðir heimildaþættir á Netflix um þátttöku heimamanna í Úkraínu og Eystrasaltsríkjum í fjöldamorðum í seinni heimsstyrjöldinni: Einsatzgruppen: The nazi death squads
Þórarinn, þetta er mjög fróðleg og vel skrifuð grein hjá þér!
Hvaða kommadrullu pistill er þetta.
Stalín svelti milljónir manna til dauða með því að stela kornuppskeru heilar þjóðar og selja á alþjóðlegum markaði.
Sovíetmenn nauðguðu annari hverri konu í löndunum sem þeir ‘frelsuðu’.
“We defeated the wrong enemy” – General George S. Patton, Berlin 1945.