Geir Ágústsson skrifar:
Nú þegar er verið að reka fleyg á milli skóla og kirkju er ekki verið að taka trúarbrögð út úr skólunum. Það er verið að skipta þeim út. Í staðinn fyrir eitthvað eitt er komið eitthvað annað.
Menn geta deilt um mikilvægi og réttmæti kristinfræðikennslu í opinberum skólum. Að mínu mati hjálpar skilningur á kristinni trú til að skilja sögu okkar, menningu og núverandi samfélag. Þetta segi ég án þess að vera kristinn. Ég segi líka, án þess að vera kristinn, að við búum í samfélagi byggðu á kristnum gildum (eins og þau eru predikuð í Nýja testamentinu, nánar tiltekið). Að vita lítið um kristni er því ígildi þess að vita lítið um samfélagið.
Hvað um það.
Hvaða trúarbrögð hafa komið í skólana í staðinn fyrir kristinfræði?
Þau eru mörg.
Trúin á að börnin séu að tortíma plánetunni með losun sinni á koltvísýring og notkun á plasti. Sennilega eru þau í verklegri þjálfun í að troða pappírsrörum í gegnum álfilmu á skólamjólkinni sinni.
Trúin á að börnin séu kynverur frá unga aldri (og af röngu kyni miðað við líkama sinn).
Trúin á að börnin séu fordómafullir rasistar sem þurfi að kenna lexíur í umburðarlyndi.
Trúin á að börn eigi fyrst og fremst að læra að elska hið opinbera og hlýða því frekar en að læra sjálfstæða og gagnrýna hugsun.
Trúin á að strákar séu letingjar með athyglisbrest og þurfi að skola út úr skólakerfinu sem fyrst. Þeir eru líka nauðgarar sem þarf að handsama áður en þeir svo mikið sem fá skapahár.
Börnin eru líka hættulegir smitberar, svo því sé haldið til haga. Það þarf að kenna þeim að þiggja sprautur og hylja á sér andlitið og læra fyrir framan tölvuskjá.
Já, það vantar ekki trúarbrögðin í skólunum þótt sú kristna sé komin í skammarkrókinn.
Spurningin er bara: Er þetta jákvæð þróun eða neikvæð?
One Comment on “Trúarbrögðin fóru ekkert – þeim var skipt út”
Eg varpaði þeirri spurningu fram á umræðusvæði fyrir nokkrum árum, hvort hættulegt það yrði að kenna börnum boðorðin 10. Engin gat fært rök fyrir því að boðorðin gætu skaðað samfélagið, en sumir reyndu með kjánalegum hætti.
Það er ekkert sem getur lagað siðferðislegt ástand í skólum, nema skilningur og virðing fyrir boðorðunum og kenningum Jesú.
Því lengur sem við drögum það að koma Kristni í skólana með ákveðnum hætti, er ekkert að fara að batna í skólum eða í samfélaginu.