Þýski flokkurinn AfD styrkir stöðu sína

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, StjórnmálLeave a Comment

Nýverið birtist grein í Deutsche Welle um af hverju þýskir kjósendur halli sér svo mjög að Alternative for Germany (AfD) í seinni tíð. Í þingkosningunum 2021 fékk þessi meinti hægriöfgaflokkur 10.3% atkvæða en nú spá skoðanakannanir þeim 21% og í sumar hafði flokkurinn sigur í sveitarstjórnakosningum í Sonneberg, sem er í austurhluta Þýskalands, sem þótti aldeilis fáheyrt.

Í greininni segir að stjórn Olafs Scholzs verði stöðugt óvinsælli og að aðeins þriðji hver kjósandi sé ánægður með verk hans og að aðeins fimmti hver sé ánægður með störf samsteypustjórnarinnar. Þeir sem svöruðu könnuninni eru á því að gæðum landsins sé mjög misskipt og að lágtekjufólk, dreifbýlisbúar, ellilífeyrisþegar og ungt fjölskyldufólk mæti afgangi. Sextíu og tvö prósent svarenda sögðu stjórnmálamenn helst sinna hagsmunum hinna ríku en 42% að þeir hafi hagsmuni hælisleitenda of mikið í huga.

Samvinna við AfD hefur verið pólitískur ómöguleiki. Leiðtogi CDU, Friedrich Merz, lét í ljósi það skoðun í sumar að skynsamlegt væri að vinna með AfD á sveitastjórnarstigi en þurfti að draga þau ummæli til baka næsta dag. Tveir þriðju hlutar íbúa vesturhlutans telja samvinnu við AfD óhugsandi en aðeins um helmingur íbúa austurhlutans, þar sem flokkurinn er sterkastur.

Stefna flokksins

AfD var stofnaður fyrir tíu árum til að koma efasemdum um ESB á framfæri en eftir að Frú Merkel opnaði landið fyrir hælisleitendum þá varð gagnrýni á opin landamæri mest áberandi og síðar bættist gagnrýni á orkustefnu Græningja við. Lengi vel var talað um AfD sem eins máls flokk sem ekki væri stjórntækur en stefnuskrá þeirra virðist núorðið mjög heilstæð. Sjá má hana á https://www.afd.de/. Í örstuttu máli þá vilja þeir  1) halda í hið fullvalda, lýðræðislega þjóðríki, 2) utanríkisstefna landsins skuli miðast við þýska hagsmuni, 3) yfirgefa evrusvæðið því viðskiptagrundvöllur evrunnar hafi verið eyðilagður, 4) berjast gegn hryðjuverkum og glæpum, slíkt sé ekki náttúrufyrirbæri, 5), ekki breyta Þýskalandi svo með innflutningi fólks að næsta kynslóð muni búa í gjörbreyttu landi, 6), gera þýskt samfélag barnvænna og fjölskylduvænna til að vinna gegn fækkun íbúa, 7) leggja af skóla gegn aðgreiningar en mæta nemendum þar sem þeir standa í þroska, 8) vinna að viðhaldi þýskrar menningar því fjölmenning skapi samhliða samfélög sem geti leitt til upplausnar ríkja, 9) hafna óábyrgri innflytjendastefnu því slíkt kalli á hrun velferðarkerfisins.

Hefur AfD áhrif?

Jafnvel þótt AfD sé enn úti í kuldanum þá virðast hugmyndir þeirra hafa áhrif. Í Welt mátti hinn 3 ágúst lesa að innanríkisráðherrann, Nancy Faeser, vilji ganga harðar fram í að vísa útlendingum sem ekki hafa dvalarleyfi úr landi, m.a. með því að lengja svokallaðan brottfarargæslutíma. Tæplega 280.000 útlendingar þyrftu í raun að yfirgefa Þýskaland.

Útlendingar margir á bótum og margir fremja afbrot

En hvaða vesen er þetta með útlendingana, mega þeir ekki bara vera? Nei, það hangir ýmislegt á spýtunni. Hinn 3 ágúst síðastliðinn mátti lesa í Bild að atvinnuleysi ykist stöðugt og í hópi þeirra sem hefðu bæst við á atvinnuleysisskrá frá júli 2022 væru útlendingar í meirihluta (64,%). Samkvæmt fulltrúa atvinnuleysisstofnunar eru Úkraínumenn 61,6% þess hóps en fólk frá Afganistan, Erítreu, Írak, Íran, Nígeríu, Pakistan, Sómalíu og Sýrlandi ná samtals 24,9% og 8,7% er fólk frá Evrópska efnahagssvæðinu.

Svo er það afbrotahneigðin. Fyrir töluvert mörgum árum kom það í fréttum að meirihluti fanga í Hamborg væru útlendingar og samkvæmt tölfræðiskýrslu lögreglunnar fyrir árið 2022 (bls.42) þá voru 1.000.571 Þjóðverjar eldri en 21 árs grunaðir um refsilagabrot en 511,485 sem ekki höfðu þýskan ríkisborgarrétt (brot gegn útlendingalöggjöfinni voru undanskilin). Það kostar að halda fólki uppi á bótum, það kostar að reka fangelsin, aukin löggæsla kostar líka sitt og það kemur niður á samheldni þjóðfélagsins ef sumir hópar virðast komast upp með að leggja lítið sem ekkert til þjóðfélagsins.

Þýsk lögregluyfirvöld virðast ekki birtar sundurliðaðar skýrslur um afbrot eftir þjóðerni en einhver náungi segist hafa unnið gögn um tíðni kynferðisbrota og morða frá 2012 til 2022 í Þýskalandi eftir þjóðerni. Samkvæmt honum þá eru innflytjendur frá sumum löndum meira en 25 sinnum líklegri en Þjóðverjar til að fremja slíka glæpi - aðrir meira en 10 sinnum líklegri og enn aðrir meira en 4 sinnum líklegri. Athyglisvert er að sjá í ljósi yfirstandandi umræðu að Venesúelabúar lenda neðar okkur í báðum flokkum (báðir eru minna en 4 sinnum líklegri en Þjóðverjar).

Þýskir kjósendur virðast vera farnir að sjá að flokkarnir (CDU/CSU) sem stjórnað hafa landinu flest ár frá seinna stríði í samvinnu við FDP eða SPD hafi hreint ekki staðið sig vel og ásakanir í garð meðlima AfD um öfgaþjóðernishyggju virka fremur kjánalegar í ljósi þess að þýska stjórnin styður öfgaþjóðernissinnana í Kíev heils hugar.  Því gæti það vopn gegn þeim reynst fremur gagnslítið í framtíðinni.

Skildu eftir skilaboð