Páll Vilhjálmsson skrifar:
Valkosturinn við sitjandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er landsstjórn með Sniðgöngu-Kristrúnu og Samfylkingu innanborðs. Ekki er flas til fagnaðar.
Valkosturinn við Bjarna Ben. í formennsku Sjálfstæðisflokksins er enginn. Punktur.
Brýnasta verkefni formanns Sjálfstæðisflokksins á hverjum tíma er þríþætt. Að halda flokknum saman, að eiga aðild að landsstjórninni og tryggja að flokkurinn sé öflugasta stjórnmálaaflið í landinu. Þrenna hjá Bjarna Ben. (Viðreisnarklofningurinn skrifast ekki á hann, sjá neðar).
Bjarni tók við flokknum í kúltúrsjokki. Samfylkingin stakk flokkinn í bakið eftir hrun, lét móðurflokkinn dingla einan í snörunni. Veganestið sem Bjarni fékk var kratískt, ættað frá aldamótum þegar margur sjálfstæðismaðurinn trúði að hálfsósíalísk alþjóðahyggja með höfuðstöðvar í Brussel væri morgunroðinn í austri. Sjálfur var Bjarni ekki frír af smiti, hélt að hægt væri að taka upp evru án ESB-aðildar, en sá að sér, og leyfði viðreisnarkrötum að sigla sinn sjó. Snjall leikur, kom á daginn. Viðreisn tekur fremur fylgi frá Samfylkingu en móðurflokknum.
Umræðan í sumar er uppgjör við kratasóttina sem Sjálfstæðisflokkurinn tók að smitast af um aldamót, við stofnun Samfylkingar. Alþjóðlegar hræringar skiptu mál. ESB var á flugi, nýr gjaldmiðill gaf til kynna nýtt ríki, Stór-Evrópu. Bandaríkin drógu saman seglin á Norður-Atlantshafi, pökkuðu saman í Keflavík í september 2006. Samfylkingin virtist hafa svörin. Eftir hrun höfðu sjálfstæðismenn ekki einu sinni spurningar, hvað þá svör.
Frá aldamótum hefur gerst að frjálslynd alþjóðahyggja rann sitt skeið. Árið 2016 var vendipunkturinn með Brexit og kjöri Trump. Glæðurnar kulna í Úkraínu. Enginn veit hvað tekur við. Á meðan þarf að halda sjó.
Í innanlandsmálum eru þær fréttir helstar að efnahagsmálin eru í lagi en vandræði á landamærunum. Vaxandi ótti er um tilvist tungumálsins sem, í sögulegu samhengi, veit á veðrabrigði í afstöðu Frónbúa til útlanda.
Séð í þessu samhengi hefur Bjarni Ben unnið kraftaverk á sinni formannstíð og á inni lífstíðarábúð í Valhöll. Sprikl Sniðgöngu-Kristrúnar í skoðanakönnunum er sambærilegt og þegar Píratar mældust stærstir flokka. Þeir sem svara í könnunum veita velmegunarólundinni útrás með fölskum vonum til flokka er þeir síst kysu á kjördegi.