Woke, íslam og stóri bróðir gegn tjáningarfrelsi

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, WokeLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Réttur einstaklinga til frjálsrar tjáningar á vesturlöndum fékkst eftir harðvítuga baráttu við ríkisvald einveldis. Vegferð vesturlanda frá einveldi til lýðræðis hefði ekki verið farin án frjálsra orðaskipta.

Blikur eru á lofti. Frelsi manna til að tjá hug sinn er undir ágjöf innan vesturlanda, utan þeirra og frá þeim sem síst skyldi; lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum.

Vestræna woke hugmyndafræðin, oft kölluð pólitískur rétttrúnaður, segir það hatursorðræðu ef andmælt er firrum eins og að hægt sé að fæðast í röngum líkama, að kynin séu fleiri en tvö og hægt sé að vera karl fyrir hádegi en kona síðdegis án þess að annað komi til en hugdetta. Trúarkredda woke er að ranghugmyndir um lífið og tilveruna eigi meiri tilverurétt en orðræða um einföld og augljós sannindi. Kreddan er orðin það viðtekin að fólk fer í felur með þekkingu sína og sannfæringu af ótta við einelti á samfélagsmiðlum.

Í trúarmenningu íslam er tjáningarfrelsið ekki hátt skrifað. Múslímar halda í hugmyndina um guðlast sem vestræn kristni varpaði fyrir róða. Í viðtengdri frétt er haft eftir danska utanríkisráðherranum að það sé ,,ekki í lagi að Dan­mörk fengi á sig það orðspor að Kór­an­brenn­ur væru þar stundaðar í boði rík­is­ins."

Sögulega varð tjáningarfrelsið ekki að mannréttindum fyrir tilstilli ríkisvaldsins heldur í krafti baráttu einstaklinga og félagasamtaka gegn alræði ríkisvaldsins. Ráðherra sem talar um frjálst orð ,,í boði ríkisins" snýr hlutunum á hvolf.

Sjónarmið danska ráðherrans varpa heldur nöturlegu ljósi á stöðu frjálsrar orðræðu. Látið er eins og stóri bróðir, ríkisvaldið, hafi í hendi sér að kippa að sér hendinni, verja ekki rétt manna að tjá hug sinn, ef það valdi óþægindum, eða, guð hjálpi okkur, móðgi einhvern.

Engin ástæða er til að lofa bókabrennur, hvort heldur á helgiritum eða öðrum bókmenntum. En ósmekklega tjáningu verður að verja til að sú boðlega fái að lifa. Annars verður frjáls orðræða nafnið tómt, háð leyfisveitingu hins opinbera líkt og á tíma einveldis.

Lars Løkke Rasmus­sen utanríkisráðherra Dana gerir víðreist í leit að rökum gegn málfrelsi:

Sagði hann mik­il­vægt að stöðva brenn­ur trú­ar­rita, sér­stak­lega í ljósi stríðsins í Úkraínu sem sýni mik­il­vægi þess að eiga sterka banda­menn víðs veg­ar um heim.

Danska ríkisvaldið, líkt og það íslenska, styður stjórnvöld í Úkraínu. Úr þeirri stjórnarstefnu eru smíðuð rök sem banna fólki að brenna bækur af ótta við að móðga múslíma.

Líkt og aðrir stjórnmálamenn stendur Lars Lökke á berangri umræðunnar og leitar sér að haldreipum. Dagskrárvald umræðunnar er að stórum hluta komið í hendur öfgaafla sem gefa lítið fyrir undirstöðu allra mannréttinda, sem er málfrelsið, en þess meira fyrir réttinn til að hneykslast.

Byltingin étur börnin sín er viðkvæði úr frönsku stjórnlagabyltingunni. Mannréttindi, sem verða að móðgunarréttindum, éta undan sér.

Skildu eftir skilaboð