Geir Ágústsson skrifar:
Vorið 2020 fór á stjá ný veira. Menn höfðu áhyggjur. Hverja leggst hún verst á? Hvað er hægt að gera til að verja sig gegn henni? Hvernig er hægt að minnka fjölgun á henni í líkamanum?
Þessum spurningum var meira og minna búið að svara vorið 2020 og tvímælalaust um haustið sama ár. En þá gerðist eitthvað annað. Menn voru búnir að lýsa yfir heimsfaraldri og framhaldið þekkjum við: Yfirvöld hentu lögum og reglum í ruslið og réðust á meira og minna öll þau réttindi sem var búið að rífa úr klóm yfirvalda með stjórnarskrám og jafnvel blóðugum byltingum.
Þetta hafa verið kallaðir fordómalausir tímar sem eru núna orðnir að fordæmi - einskonar sniðmáti fyrir það hvernig stjórnvöld geta leyst öll heimsins vandamál með einu pennastriki. Með því að lýsa yfir neyðarástandi. Með því að framlengja það í sífellu.
En afleiðingar slíks eru verri en veiran sem menn kalla ógnina. Afleiðingar aðgerða á veirutímum eru ennþá að taka sinn toll. Sjálfsvíg, hjartavandamál ungra karlmanna, verðbólga í kjölfar peningaprentunar og margt annað er ennþá að plaga samfélag okkar. Þetta veldur ákveðinni gremju í samfélaginu sem veldur stjórnmálamönnum óþægindum. Það kæmi mér því ekkert á óvart að menn séu að undirbúa að skella í nýja veirutíma, eða gera alvöru úr neyðarástandi vegna svokallaðra loftslagsbreytinga.
Lexían sem lærðist af veirutímum er lítil sem engin. Sóttvarnarlæknar veirutíma hafa ýmist látið sig hljóðlega hverfa eftir að hafa fundið eftirmenn sem kannast ekki við neinar rannsóknir eða þegja eins og gröfin um afleiðingar meðmæla þeirra sem urðu að reglugerðum. Stjórnmálamenn sem enn sitja í embættum kjörinna fulltrúa benda á sóttvarnarlæknana.
Hið jákvæða er samt að sprauturnar sem áttu að vera svo ágætar eru smátt og smátt að hverfa úr umferð: Aldursviðmiðin fyrir þær hækkuð og hækkuð og alltaf minna gert úr ágæti virkni þeirra. Og hlutabréfverð framleiðenda þeirra síga á meðan niður.
Aðgerðirnar gegn veirunni voru hættulegri en veiran. Miklu hættulegri, og fyrir marga banvænar. Maður verður því uggandi þegar gamla vísan um ný afbrigði er þulin. Sérstaklega þegar enginn virðist hafa lært sína lexíu.