Hvers vegna varð að byrla Páli skipstjóra?

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll Vilhjálmsson3 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Ef síma Páls skipstjóra Steingrímssonar hefði verið stolið og komið í hendur RÚV, Stundarinnar og Kjarnans (RSK-miðla) sem myndu hafa nýtt sér gögn úr símanum til fréttaflutnings en síðan fargað símanum væri tilvera sakborninga í röðum blaðamanna öllu þekkilegri en hún er í dag.

Ekki er gott að eiga aðild að gagnastuldi. Öllu verra er aðkoma að byrlun, sem í besta falli er líkamsárás en í versta falli morðtilraun.

Hvers vegna tóku blaðamenn RSK-miðla þátt í ráðabruggi, stela síma skipstjórans, afrita og skila tilbaka, sem augljóslega fól í sér að skipstjórinn yrði gerðu óvígur í einn til tvo sólarhringa hið minnsta? Hvers vegna ekki að láta sér nægja símastuld?

Hugmyndin var að skipstjórinn yrði þess ekki var að síminn hefði komist í hendur óvandaðra einstaklinga. Fréttir upp úr símanum áttu að koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þar sem um var að ræða tölvupósta var mögulegt að þeir kæmu frá minnst tveim aðilum (enginn sendir tölupóst á sjálfan sig) eða fleiri.

Þess vegna var ekki nóg að stela síma og eyða honum. Það varð að skila honum tilbaka. Grunur átti ekki að vakna um stuld. Og jafnvel þótt grunur vaknaði átti ekki að vera hægt að sanna stuldinn - símtækið var jú í höndum skipstjórans.

Páli var byrlað 3. maí 2021, símanum var komið í hendur blaðamanna daginn eftir. Ekki síðar en 5. maí voru blaðamenn búnir að gera sér grein fyrir innihaldi símans og gátu skrifað fréttir.

En engin frétt birtist fyrr en 21. maí þegar Stundin og Kjarninn birtu samtímis áþekka frásögn um meinta skæruliðadeild Samherja en þar átti skipstjórinn að vera höfuðpaurinn.

Hvers vegna biðu blaðamenn með fréttir sem voru tilbúnar 6. eða 7. maí en ekki birtar fyrr en tveim vikum síðar?

Í snjallsímum er staðsetningarforrit sem skráir ferðalag símans allt að tvær vikur aftur í tímann. Blaðamenn gerðu ráð fyrir að skipstjórinn tæki til við að nota símann eftir að hann kæmist til meðvitundar.

Blaðamenn vissu nákvæmlega hvenær skipstjórinn komst til meðvitundar enda voru þeir í reglulegu sambandi við eiginkonu hans þáverandi sem sá um byrlun og símastuld fyrir RSK-miðla. Páll lá milli heims og helju á gjörgæslu í tvo daga en fékk meðvitund 6. maí.

Frá 6. maí til birtingar á fyrstu fréttum þann 21. maí eru 15 dagar. Blaðamenn töldu víst að staðsetningarbúnaður símans hefði uppfærst reglulega og geymdi ekki lengur staðsetninguna þá daga sem tækið var í þjófahöndum.

Skipstjórinn hafði á hinn bóginn tekið eftir að eitthvað athugvert væri við símann og slökkt á uppfærslubúnaði. Hann kærði málið til lögreglu 14. maí, viku áður en fyrstu fréttir birtust.

Til að sími Páls yrði sem skemmstan tíma í höndum blaðamanna varð að gera ráðstafanir fyrir byrlun. Frá eiginkonu skipstjórans fengu blaðamenn upplýsingar um hvernig símtæki hann notaði. Þóra Arnórsdóttir á RÚV keypti í apríl samskonar síma og Páll notaði, af gerðinni Samsung.

RÚV-síminn, sem notaður var til afritunar, fékk númerið  680 2140. Sími Páls er með keimlíkt númer, 680-214X. Í yfirlitum símfyrirtækja yfir notkun á símum er tveim síðustu tölustöfum símnúmera sleppt af persónuverndarástæðum. 

Blaðamenn RSK-miðla töldu sig hafa búið svo um hnútana að engin leið væri að rekja slóðina. Blaðamenn ætluðu, ef á þá yrði gengið, að svara því til að nafnlaus heimildamaður hefði látið þeim í té gögnin og skáka í skjóli laga sem vernda heimildamenn.

En þar sem atlagan var byrla-stela-skila, en ekki einfaldur þjófnaður, var morgunljóst þegar í upphafi glæpsins hver sá um framkvæmdina; alvarlega andlega veik þáverandi eiginkona Páls skipstjóra.

Tvennt vekur sérstaka furðu í málinu öllu. Í fyrsta lagi að blaðamenn, sem eiga að heita heilir á geði, telji sómasamlegt að hagnast á svívirðilegum glæp, þar sem fársjúk kona gerir lífshættulega atlögu að eiginmanni sínum og tekur eigur hans ófrjálsri hendi. Í öðru lagi, að enginn blaðamannanna skuli hafa stigið fram, eftir að málið opinberaðist, játað vitneskju sína og beðist fyrirgefningar.

Ekki ætti að þurfa að segja upphátt að blaðamennska er ósamrýmanleg glæpastarfsemi.

3 Comments on “Hvers vegna varð að byrla Páli skipstjóra?”

  1. Hvað tefur þetta mál hvers vegna tekur rannsókn svona langan tíma?

  2. Það sem tefur þetta mál er að það er tilbúningur frá upphafi til enda.

  3. Gaman að sjá þá sem fjalla um meinta byrlun skauta ávallt framhjá þeim glæpum sem skipstjórinn og Samherji eru sekir um, ekkert meint við þá. En það er eflaust erfitt að bíta hendina sem fæðir mann, er það ekki Páll

Skildu eftir skilaboð