Hagsmunasamtök heimilanna fordæma fjórtándu vaxtahækkun Seðlabankans í röð og lýsa yfir áhyggjum af afdrifum heimila sem ekki standa undir sífelldum vaxtahækkunum.
Greiðslubyrði húsnæðislána hefur margfaldast og eina „lausn" margra heimila er að flýja yfir í verðtryggð lán í von um skjól.
Verðtryggð lán veita eingöngu tímabundið svikaskjól en það mun hverfa áður en langt um líður og þá munu tugþúsundir heimila standa á berangri, varnarlaus fyrir ásókn banka, sem eins og dæmin sanna munu ekki hika við að hirða af þeim húsnæðið og senda þau á götuna.
Það er ekkert sem réttlætir þessar sífelldu árásir æðstu valdhafa á varnarlaus heimilin.
Hagsmunasamtök heimilanna lýsa fullri ábyrgð á hendur þeim einstaklingum sem sitja í peningastefnunefnd og ráðherrum í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, á skelfilegum afleiðingum þessara aðgerða þegar skjól verðtryggingarinnar hverfur og heimilin sitja föst í gildrunni sem nú er verið að leggja fyrir þau.
Við krefjumst þess, fyrir hönd heimila landsins, að vaxtalækkunarferli hefjist án tafar, áður en skaðinn verður meiri en þegar er orðinn.
Verðbólgan er ekki að valda heimilum og fyrirtækjum næstum því jafn miklum skaða og aðgerðirnar gegn henni.
Þær þarf að stöðva strax!