Páll Vilhjálmsson skrifar:
Ef flugvél Prigósjín forsprakka Wagner málaliða var skotin niður rétt utan Moskvu eru allar líkur að valdaránstilraunin 24. júní hafi ekki verið sviðsett heldur föðurlandssvik. Drápið sé málagjöldin.
Gagnrýni Prigósjín á yfirstjórn hersins gekk út á að rússneski herinn stígi alltof varlega til jarðar í Úkraínu. Ef frá eru taldar fyrstu vikur innrásarinnar, þegar beitt var leifturstríði, mallar rússneska hernaðarvélin hægt en stöðugt. Vestrinu og Úkraínu skal þrjóta fyrr örendið en Rússum er herfræðin. Engin meginbreyting er á herfræði Kremlarbænda eftir að stöðustríðið tók við af leiftursókninni í fyrravor.
Prigósjín er áhættusækinn og krafðist aukinnar hörku. Þar sem foringi Wagner-hópsins er ekki hermaður heldur herskár auðmaður er engin leið að sjónarmið hans fengju hljómgrunn nema með stuðningi valdamikilla einstaklinga í yfirstjórn hersins, - sem hefðu þá verið bandamenn hans í valdaránstilrauninni.
Færu Rússar halloka á vígvellinum gætu áhrifamenn í herstjórninni gripið til örþrifaráða. Stöðustríðið þróast Rússum í vil. Lítil efni eru til örvæntingar í þeirra herbúðum. Það eru ekki unglingar á gelgjuskeiði sem stýra hernum.
Surovíkin heitir hershöfðinginn sem fór fyrir hernaðaraðgerðum Rússa. Þangað til í síðustu viku að það spurðist út að Surovíkin væri fluttur til í starfi. Var hann bandamaður Prigósjín? Sé það tilfellið mun hann ekki kemba hærurnar. Landráð á stríðstíma er meira en brottrekstrarsök.
Eftir valdaránstilraunina fluttu Wagner-liðar til Hvíta-Rússlands, sem nánast er hjálenda Rússlands. Í herbúðum þeirra stendur yfir undirbúningur að endurnýjaðri aðild að stríðsátökum. Sjálfur valhoppaði Prigósjín milli landa, var oft í Rússlandi en fór líka til Afríku. Auðvelt skotmark í tvo mánuði eftir meinta tilraun til valdaráns. Hafi völd Pútín staðið tæpt 24. júní er 60 daga friðhelgi landráðamanns auglýsing um veikleika valdstjórnarinnar. Valdhafar opinbera ekki veikleika sína, síst á stríðstíma.
Engu að síður. Með Prigósjín í flugvélinni voru sex af æðstu yfirmönnum Wagner-liða. Hafi vélin verið skotin niður að undirlagi Pútín var í einum rykk gert út um helstu fyrirliða málaliðasveitarinnar. Trauðla gert nema Wagner-liðar ógnuðu öryggishagsmunum ríkisins. Vel að merkja, ekki er enn staðfest að Prigósjín sé meðal hinna látnu, aðeins að hann hafi verið á farþegaskrá.
En var flugvélin skotin niður? Ræma af hrapi vélarinnar sýnir að hún kemur niður í heilu lagi. Flugskeyti sem hittir flugvél ofar jörðu sprengir hana í lofti.
Tilfallandi telur enn að valdaránstilraunin 24. júní hafi verið sviðsett. Er þó ekki jafnviss í sinni sök og hann var 25. júní.
Klippu úr flugslysinu má sjá hér neðar:
One Comment on “Prigósjín, valdaránið og Pútín”
Samúðarkveðja