BRICS – vestrið fær samkeppni

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Leiðtogafundur BRICS-ríkjanna er nýlega afstaðin í Suður-Afríku. Auk fundarríkis eiga aðild Rússland, Kína, Indland og Brasilía. Leiðtogarnir buðu velkomin sex önnur ríki, m.a. Egyptaland, Íran, Sádí-Arabía og Argentínu. Fleiri eru á biðlista, t.d. Nígería.

Hugtakið BRIC varð til hjá forstjóra Goldman Sachs fjárfestingabankans um aldamótin og náði yfir nýmarkaðslönd með sérstaka vaxtarmöguleika. Vestrið, sem nýlega hafði sigrað kalda stríðið, var með BRIC-ríkin á matseðlinum, svo að segja. Nýmarkaðsríkin tóku forstjórann á orðinu; matseðilinn öðlaðist sjálfstætt líf.

BRIC-ríkin fimm stofnuðu félagsskapinn ekki fyrr en 2009. Tveim árum síðar bættist S-ið við, Suður-Afríka. Á næsta verða ríkin tólf. Helsti frumkvöðullinn er Pútín Rússlandsforseti.

Í frægri ræðu á öryggisráðstefnunni í Munchen árið 2007 boðaði Pútín margpóla heim sem valkost við einpóla veröld undir forystu Bandaríkjanna. BRICS er útfærsla á þeirri stefnu.

Viðskipti og gjaldeyrismál eru sem stendur höfuðviðfangsefni BRICS. Vegna ólíkrar menningar, sögu og landfræðilegrar stöðu aðildarríkja er engin hætta á samrunaþróun, líkt og ofin er í grunnþrætti Evrópusambandsins.

BRICS er andóf gegn vestrænu forræði í alþjóðamálum. Þeir sem tala fyrir vestrænni leiðsögn heimsbyggðarinnar, t.d. Daniel Hannan í Telegraph, óttast vöxt og viðgang samtakanna.

Úkraínustríðið litar heimspólitíkina. Vöxtur BRICS-ríkjanna á sama tíma og átökin á gresjum Garðaríkis standa yfir er stuðningur við málstað Rússa gegn vestrinu sem heldur uppi stríðsrekstri stjórnarinnar í Kænugarði.

Tilraunir á þessari öld til að vesturlandavæða heimsbyggðina sækja styrk sinn í hugmyndafræði sem varð til á tíunda áratug síðustu aldar, eftir fall Sovétríkjanna og þar með heimskommúnismans. Heimamenn í Afganistan, Írak og Sýrlandi keyptu ekki vestræna stjórnmálamenningu og lífshætti þótt hvortveggja væri á tilboðsverði. Vestrið nýtur ekki þeirra menningarlegu yfirburða sem margir vilja vera láta.

Úkraínu byggir klofin þjóð. Austurhlutinn er á menningarlegu áhrifasvæði Rússa en vesturhlutinn er hallur undir Evrópusambandið. Landamæri ríkisins endurspegla ekki vilja þeirra sem innan þeirra búa. Tvær leiðir voru mögulegar. Í fyrsta lagi sáttaleið. Eitt sambandsríki með sjálfsstjórn landshluta. Í öðru lagi stríð. Frá og með stjórnarbyltingunni 2014 var stefnt á stríð. Stjórnvöld í Kænugarði hefðu aldrei eins og sér undirbúið stríð. 40 milljón manna þjóð sigrar ekki 140 milljón manna þjóð. Stefnt var að stríði i krafti vestrænna yfirburða.

BRICS er ekki heimskommúnisminn endurfæddur. Samtökin boða hvorki tiltekna hugmyndafræði, líkt og Evrópusambandið, né ein trúarbrögð eins og félagsskapur íslamskra ríkja, OIC. Enn síður veraldlega alheimstrú að manngerður koltvísýringur stjórni veðrum og vindum. Ekki heldur þá vestrænu sérvisku að kynin séu þrjú, fimm eða seytján.

BRICS er í stóra samhenginu afturhvarf til fornrar speki að hollur er heimafenginn baggi.

One Comment on “BRICS – vestrið fær samkeppni”

  1. Það er mjög líklegt að ef BRICKS-löndin koma með sinn eigin gjaldmiðil þá er dollarinn orðin verðlaus pappír, og skuldsetin Vesturlönd verða fátæk á einu augabragði.

Skildu eftir skilaboð