Íslendingar enn ólæsir á „áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð“

frettinInnlent, Transmál1 Comment

Íris Erlingsdóttir skrifar:

Mannverur geta ekki breytt um kyn frekar en þær geta gert sig ósýnilegar. Að það skuli vera efni í forsíðugrein að lýsa yfir vantrú á þessa rakalausu fásinnu er dapurlegur vitnisburður um ólæsi Íslendinga á "hvers kyns áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð." (Rannsóknarskýrsla Alþingis, 8. bindi)

Í mars 2022 birti Morgunblaðið grein undirritaðrar, Siðræna transgátan, sem gagnrýndi lög nr. 80/2019 um Kynrænt sjálfræði (rangnefni; sjálfgreining kyns krefst þess að aðrir auðkenni þig sem meðlim af því kyni sem þú segir þig vera). 

Lögin runnu eins og smurður grís í gegnum Alþingi og íslenskir skattborgarar fjármagna nú tvær þjóðkirkjur, sem og for- og sérréttindin sem l. 80/2019 veita safnaðarmeðlimum TransKirkjunnar á grundvelli trúar og tilfinninga þeirra). 

Nokkrum dögum eftir birtingu greinarinnar var í Morgunútvarpi Rásar 2 viðtal við fulltrúa Trans Íslands. Dagskrárlýsing RÚV: "Trans Ísland gagnrýndu...fjölmiðla fyrir að birta ítrekað pistla sem smána minnihlutahópa undir því yfirskini að um sé að ræða skoðanir fólks. Við ræddum við...[fulltrúa] samtakanna, en lítið hefur reynt á löggjöf um birtingu slíkra greina.

Dagskrárlýsing RÚV gefur ekki til kynna að það hafi hvarflað að umsjónarmönnum Morgunútvarps að ræða við þá sem bornir eru þeim alvarlegu sökum að "smána minnihlutahópa." 

Kynferðisleg tvíbrigðni mannvera er ekki skoðun heldur staðreynd. Ef T staðhæfir að mannverur geti skipt um kyn eða að rigning sé þurr og ég bendi opinberlega á þær staðreyndir að mannverur geta ekki skipt um kyn og að rigning er blaut, er ég ekki að "smána" T. Vel má vera að T mislíki þessar staðreyndir og finnist þær fela í sér lítilsvirðingu, en ég ber ekki ábyrgð á tilfinningum T (né heldur er það í verkahring ríkisfjölmiðilsins að sverta mannorð þeirra sem T telur hafa sært tilfinningar sínar).

Foreldrar íslenskra barna í helgreipum þessa sértrúarsafnaðar segja að á Íslandi sé engin umræða leyfð um "trans"málefni. Þau voru þakklát að einhver Íslendingur hefði "loksins bein í nefinu" til að tala um Transhugmyndafræðina. 

Ef fjölmiðlar birtu "ítrekað pistla" um þetta umdeilda málefni – og uppfylltu þannig lýðræðislega og samfélagslega skyldu sína – hefðu þeir ekki séð tilefni til að biðja bláókunnugt fólk í útlöndum um hjálp til að vekja athygli á þessari hættulegu sértrú. Örvænting þessara foreldra er umhugsunarefni fyrir stofnanir íslensks þjóðfélags sem hafa fullkomlega brugðist þeim. 

Á stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar er að herða refsiákvæði Almennra hegningarlaga nr.19/1940 um ærumeiðingar, sem byggja á þeirri viðbjóðslegu hugmyndafræði að fangelsa fólk fyrir skoðanir þess. Í "tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022–2025" segir: 

"9.: Breytingar verði gerðar á 233. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 "...hatursorðræða á grundvelli kyneinkenna verði gerð refsiverð." Þessi "breyting tryggir að hatursglæpir [munu leiða] til refsiþyngingar." Stjórnarliðar eru hreyknir af þessari andstyggilegu uppástungu: "Hliðstæð lagaákvæði er ekki að finna í refsilöggjöf annars staðar á Norðurlöndum."

Þeir sem vilja "hatursorðræðu-löggjöf" eiga það sameiginlegt með harðstjórum að hata orðræðu. Slík löggjöf er eftirlætistól harðstjóra, því þeir skilgreina hver er "hatursorðræða" dagsins. Engin hlutlæg skilgreining er til á "hatursorðræðu." Eins manns "hatursorðræða" er annars manns ástaróður (eða líffræðileg staðreynd). 

Engan skyldi undra að "málfrelsi" er ekki á markmiðalista Vinstri Grænna. Málfrelsi í VG stíl er frelsi ríksins til að fangelsa þig ef orðræða þín er andstæð skoðunum flokksins.

 _________________________

Þetta er úr grein sem ég skrifaði fyrir nær einu og hálfu ári og sendi árangurslaust á alla "prent"miðla í landinu. Enginn fjölmiðill vildi birta greinina né útskýra hvers vegna greinin var að þeirra mati óhæf til birtingar. 

Íslenskt fjölmiðlafólk virðist ekki hafa miklar áhyggjur af dauða málfrelsis í landinu. Ef til vill er stéttin fegin að það að sinna raunverulegu starfi fréttamanns, sem krefst þess að maður hugsi gagnrýnt og leggi fyrir viðmælendur sína erfiðar og "neikvæðar" spurningar, skuli vera orðið svo gott sem ólöglegt. Stjórnvöld og fjölmiðlar hafa í sameiningu grafið undan undirstöðum málfrelsis og grundvelli lýðræðis í landinu. 

Sá hluti "aðgerðaáætlunarinnar í málefnum 'hinsegin fólks" (Lúxusríkisborgara) sem snýr að "refsiþyngingu" fyrir orðræðuglæpi er nú hluti af Almennum hegningarlögum nr. 19/1940. 

"Íslendingar eru [ennþá] ólæsir á "hvers kyns áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð." Rannsóknarskýrsla Alþingis, bindi 8 bls. 195

Höfundur er fjölmiðlafræðingur

One Comment on “Íslendingar enn ólæsir á „áróður og innistæðulausa ímyndarsmíð“”

  1. Fjölmiðlar eru lamaðir af hræðslu. Það þorir engin á þessum miðlum að segja sannleikann í nánast öllum málefnum af hræðslu við útskúfun. Transmál, innflytjendamál, Covid, CBDC, Úkraína ofl. Að viðra öndverðar skoðanir í dag er bannað með lögum í sumum af þessum málaflokkum. Hvernig gat þetta gerst?

Skildu eftir skilaboð