Jón Magnússon:„þegar beygja á Ísland til hlýðni“

frettinInnlent, Jón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Í fréttamiðlum er greint frá því að Leonardo diCaprio leikari ásamt nokkrum erlendum kollegum hans hafi í hótunum við Íslendinga ef þeir ætli að voga sér að koma fram sem sjálfstæð þjóð og nýta landsins og sjávarsins gæði, svo sem gert hefur verið í aldir.

Leonardo þessi, skutilsveinar hans og hofróður halda, að peningarnir verði til í myndverinu og standa saman um að berjast fyrir því, að venjulegt fólk geti ekki farið í ferðalög og greiði mun meira fyrir nauðsynjar en áður. Það skiptir diCaprio og hans fólk litlu máli þar sem þau eru milljarðamæringar sem ferðast um á einkaþotum eins og enginn sé morgundagurinn.

Þetta kvikmyndafólk heldur að það geti ráðið málum á litla Íslandi og beygt fólk til hlýðni hvort sem er sjálfbærar veiðar á hval eða greiðsla loftslagsskatta. Fyrir svona fólki má ekki hvika því þá gerist aðeins eitt. Hótanirnar færast í aukana.

Haft er á orði að kvikmyndafólk þetta færi gríðarleg verðmæti inn í landið. Er það svo? Ríkið endurgreiðir vegna kvikmyndagerðar allt að 35% af framleiðslukostnaði. Hvað situr þá eftir þegar erlenda fyrirtækið krefst endurgreiðslunnar? Er í raun þjóðhagslegur hagnaður af þessari starfsemi þegar upp er staðið? Gæti verið að skattgreiðendur væru í raun að greiða meira en þeir fá til baka vegna þessarar starfsemi.

Hræddur er ég um að svo sé. 

En hvort heldur sem er, þá megum við aldrei beygja okkur fyrir hótunum eins og þessum en standa keikir við okkar gildi og grundvallaratriði stjórnarskrár landsins um atvinnufrelsi. 

En er ekki annars skrýtið að þessi mótmæli kvikmyndafólksins skuli koma einmitt í dag þegar spurningin er um að ráðherra framlengi ekki geðþóttaákvörðun sína um veiðibann á hval. 

Skyldi þetta erlenda sjálftökulið kvikmyndanna eiga sér innlenda vitorðsmenn, þegar beygja á Ísland til hlýðni?

Skildu eftir skilaboð