Úkraínuvæðing alþjóðastjórnmála – tvær blokkir

frettinNATÓ, Páll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Leiðtogafundur G20-stórríkjanna var sigur fyrir Rússland, segir Lavrov utanríkisráðherra Rússlands. Sigurinn fólst í að Rússar voru ekki fordæmdir fyrir innrásina í Úkraínu fyrir hálfu öðru ári og stríðsrekstri æ síðan ásamt hernámi á úkraínsku landi.

Úkraínustríðið þvingar fram tvær blokkir í alþjóðastjórnmálum. Í fyrsta lagi vestrið, í meginatriðum Bandaríkin og Evrópa, og í öðru lagi Rússland, Kína og vaxandi félagsskap BRICS-ríkja. Enn er ekki hægt að tala um að kalda stríðið sé endurvakið en stappar þó nærri. Meginmunurinn er að kommúnisminn er farinn veg allrar veraldar. Rússland, Kína og BRICs-ríkin eru laustengt bandalag gegn vestrinu.

Úkraínustríðið er síðasta tilraun vestursins að innheimta sigurlaun kalda stríðsins. Fyrri tilraunir í Írak, Sýrlandi og Afganistan fóru út um þúfur. Heimurinn vill kannski vestræna tækni og auðlegð en ekki vestræna afstæðishyggju í trú- og siðferðismálum og enn síður frjálslyndi í kyn- og kynferðismálum.

Rússland var meiri prófsteinn á viðskiptalegan og menningarlegan mátt vesturlanda en múslímaríkin fyrir botni Miðjarðarhafs og Afganistan. Líkt og vestrið er rússneskt samfélag byggt á kristnum gildum. All nokkur hluti rússnesku elítunnar fékk vestræna skólun á þeim 30 árum sem liðin er frá lokum kalda stríðsins. Vestrið gerði ráð fyrir að töluvert yrði um liðhlaup frá Pútín og ráðandi öflum þegar látið var sverfa til stáls í Úkraínu. Ekkert slíkt gerðist. Rússar í það stóra og heila fylktu sér um Pútín.

Úrslitin í Úkraínu eru ekki ráðin. Stoltenberg Nató-foringi segir sumarsóknina ganga vel. Aðrir hlynntir málstað Úkraínu, t.d. Richard Kemp, telja gagnsóknina búið spilog vestrið verða niðurlægt. Raunsæismenn á borð við Mearsheimer taka í sama streng.

Víst er að stjórnin í Kænugarði sýnir ótvíræðari merki um örvæntingu en Kremlarherrar. Vestrið er ekki jafn stöðugt í stuðningi og í fyrra, þegar átökin brutust út. Ekkert er þó hægt að fullyrða að svo komnu máli.

Mótsagnakennt eins og það kann að hljóma mun heimsskipanin sennilega breytast minna fyrsta kastið við rússneskan sigur en úkraínskan. Ólíklegt er að Rússar hygðu á frekari landvinninga í vestri. Evrópa, þ.e. Evrópusambandið, yrði að byggja upp, í veikri stöðu, nýtt samband við Rússland sem yrði formlega viðurkennt sem stórveldi. Nató kæmist í tilvistarkreppu, yrði að hverfa frá útþenslu og sætta sig við veigaminna hlutverk. Bandaríkin drægju þá lexíu að dagar einpóla heims væru taldir.

Fari vestrið og Úkraína með sigur af hólmi eru meiri líkur en minni að Rússland liðaðist í sundur. Upplausn landmesta ríkis jarðkringlunnar færi tæplega friðsamlega fram. Kjarnorkuvopnin í Bjarmalandi kæmust einhver í hendur aðila gefa ekki mikið fyrir heimsfriðinn.

Skildu eftir skilaboð